EKKI eru allir breskir tónlistarmenn fastir í danstónlistinni því allmargir fást við rokk af einföldustu gerð, líkt og welska tríóið Stereophonics. Það sendi frá sér fyrstu smáskífuna seint á síðasta ári eftir að hafa starfað saman í fimm ár.
Vaskir Walesverjar EKKI eru allir breskir tónlistarmenn fastir í danstónlistinni því allmargir fást við rokk af einföldustu gerð, líkt og welska tríóið Stereophonics. Það sendi frá sér fyrstu smáskífuna seint á síðasta ári eftir að hafa starfað saman í fimm ár. Stereophonics skipa Richard Jones, Kelly Jones og Stuart Cable og hafa verið vinir frá þriggja ára aldri. Þeir eru allir upp aldir í welsku smáþorpi, Cwmaman, og segja lítið annað hafa verið að gera en fikta við hljóðfæri, sem þeir hafa og gert frá tíu ára aldri. Opinberlega var sveitin Stereophonics þó ekki stofnuð fyrr en 1992, eða í það minnsta varð nafnið til þá, og fór fljótlega það orð af henni að þar færu liprir lagasmiðir og hljóðfæraleikarar. Gekk svo langt að þegar komið var fram á árið 1996 vildu öll helstu fyrirtæki Bretlands ná við sveitina samning, en fór svo að hún var fyrsta hljómsveitin sem gerði samning við nýja útgáfu milljarðamæringsins Richards Bransoms, V2. Við tóku annir við upptökur og tónleikahald og á milli þess sem legið var yfir upptökum að frumrauninni lögðu sveitarmenn á sig 100 tónleika á síðasta ári. Breiðskífan kom út síðla síðasta haust, heitir Word Gets Around og var vel tekið; náði meðal annars á lista bresku popppressunnar yfir plötur ársins. Tónlistarlíf hefur verið líflegt í Wales undanfarin misseri en þeir félagar sverja af sér allar welskar bylgjur; "við tölum ekki welsku og hlustum ekki á welskar sveitir. Okkar uppáhald er AC/DC, Kinks og Radiohead", segir Kelly Jones, söngspíra sveitarinnar, en fram að því að sveitin sló í gegn hafði hann ofan af fyrir sér með því að afgreiða í kjörbúð og skrifa handrit fyrir BBC. Hann hefur og séð um laga- og textasmíðar og ferst það vel úr hendi að mati gagnrýnenda breskra sem spá sveitinni mikilli velgengni.

Walesverjar Stereophonics-félagar.