Sigríður Kristófersdóttir Elskuleg tengdamóðir mín, Sigríður Kristófersdóttir, er látin. Sigga fékk lausn frá löngu og ströngu veikindastríði aðfaranótt 9. janúar síðastliðinn.

Ég kynntist Siggu á erfiðu tímaskeiði í lífi hennar. Hún hafði skömmu áður misst eiginmann sinn með sviplegum hætti og þurfti ein að leiðbeina þremur börnum í gegnum stormasöm unglingsárin. Á sama tíma var Sigga að byggja upp lítið fyrirtæki af dugnaði og eljusemi. Þessum stóru verkefnum skilaði Sigga með miklum sóma. Börnin hennar þrjú sem nú eru vaxin úr grasi, hafa komið sér áfallalaust fyrir í lífsbaráttunni og skila því sem Sigga kenndi þeim til barna sinna. Tískuverslunina Ritu, í Breiðholtinu, rak Sigga með miklum myndarskap og hafði sitt lífsviðurværi af henni þar til yfir lauk.

Fyrsta sambúðarár okkar Guðbjargar bjuggum við í næsta stigagangi við Siggu í Möðrufellinu. Ekki var hægt að kvarta yfir nábýlinu, alltaf var Sigga reiðubúin að koma til hjálpar ef á þurfti að halda, sem var ómetanlegt fyrir ungt fólk í upphafi búskapar. Sonur okkar, Ásgeir Berg, naut þess svo sannarlega líka að vera fyrsta barnabarnið hennar Siggu. Af ást og umhyggjusemi var allt látið eftir honum hans fyrstu ár. Seinna þegar við bjuggum erlendis, fjarri ættingjum og vinum, var alltaf beðið með eftirvæntingu ef von var á sendingum frá Siggu. Enginn varð fyrir vonbrigðum með það sem hún sendi af örlæti sínu um jól og af öðrum tilefnum.

Á þessum árum kynntist Sigga eftirlifandi manni sínum. Benni, sem einnig hafði misst sinn fyrri maka, var sólargeislinn í lífi hennar. Sjaldan sést eins mikil ást og umhyggja á milli maka, samræmdari hjón er erfitt að finna. Saman áttu Sigga og Benni fimm börn og tólf barnabörn sem með tímanum varð ein stór fjölskylda.

Benni og Sigga voru hrókar alls fagnaðar hvar sem þau komu, með hlýju sinni og geislandi gleði voru þau aufúsugestir hvar sem þau komu. Ekki voru þau síðri sem gestgjafar, alltaf var vandað til bæði í mat og drykk og svo ekki sé talað um skemmtilegan tónlistarflutning ef svo bar undir. Saman byggðu þau glæsilegan sumarbústað í Borgarfirðinum. Þar var þeirra sælureitur, þar sem þau eyddu sem flestum stundum bæði sumar og vetur. Þangað var alltaf gott að koma fyrir stóra jafnt sem smáa og eiga ánægjulegar gleðistundir með þeim. Siggu á eftir að verða sárt saknað við þau tækifæri sem stórfjölskyldan hittist, þá sérstaklega við jól, á þorra og um verslunarmannahelgi.

Mér er efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast Siggu. Mínar innilegustu samúðarkveðjur sendi ég öllum sem unnu henni. Blessuð sé minning hennar.

Matthías Oddgeirsson.