HALLA EINARSDÓTTIR

Halla Einarsdóttir var fædd á Kársstöðum í Landbroti 2. febrúar 1903. Hún lést á heimili sínu í Reykjavík 11. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Einar Einarsson og Gyðríður Elíasdóttir, lengst af bændur á Fossi í Mýrdal. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum við algeng störf þess tíma, en fluttist ung til Reykjavíkur. Halla var gift Þorleifi Sigurbrandssyni verkstjóra og bjuggu þau allan sinn búskap á Leifsgötu 14 í Reykjavík. Dætur Höllu eru tvær: 1) Svava Magnea, f. 24. ágúst 1929. Hún var gift Stefáni Magnússyni flugstjóra, en hann lést af slysförum 18. mars 1963. Þau áttu þrjú börn og eru barnabörnin sjö. Seinni maður Svövu er Ólafur Metúsalemsson, fv. verkstjóri, og á hann fimm börn frá fyrra hjónabandi, níu barnabörn og þrjú barnabarnabörn. 2) Bryndís Dóra f. 20. nóvember 1935. Hún er gift Jóni Þór Jóhannssyni, fv. framkvæmdastjóra, og eiga þau fjögur börn og sex barnabörn. Útför Höllu fer fram frá Hallgrímskirkju á morgun, mánudag, og hefst athöfnin klukkan 13.30.