Píka, hljómplata hljómsveitarinnar Á túr. Á túr skipuðu Elísabet Ólafsdóttir söngkona, Kristbjörg Kristjánsdóttir sellóleikari, Fríða Rós Valdimarsdóttir hljómborðsleikari og Birgir Örn Thoroddsen slagverkleikari. Þeim til aðstoðar voru Ólafía Erla Svansdóttir flautuleikari og Drífa Kristjánsdóttir sem syngur í einu lagi. Hljómsveitin semur saman öll lög en Elísabet semur texta. Smekkleysa sm/ehf.

Beitt

kímni TÓNLIST Geisladiskur PÍKA Píka, hljómplata hljómsveitarinnar Á túr. Á túr skipuðu Elísabet Ólafsdóttir söngkona, Kristbjörg Kristjánsdóttir sellóleikari, Fríða Rós Valdimarsdóttir hljómborðsleikari og Birgir Örn Thoroddsen slagverkleikari. Þeim til aðstoðar voru Ólafía Erla Svansdóttir flautuleikari og Drífa Kristjánsdóttir sem syngur í einu lagi. Hljómsveitin semur saman öll lög en Elísabet semur texta. Smekkleysa sm/ehf. gefur diskinn út. 24,20 mín. HLJÓMSVEITIN Á túr vakti mikla athygli þegar hana bar fyrst fyrir augu og eyru á Músíktilraunum fyrir tveimur árum fyrir óvenjulega hljóðfæraskipan, einkar kraftmikinn söng og tilfinningaríkan og texta sem voru ögrandi uppskurður á viðteknum gildum og venjum. Skammt er síðan sveitin sleit svo samstarfinu, ekki síst vegna þess að liðsstúlkur voru á förum til langdvalar erlendis, en áður en af því varð sendi hún frá sér stuttskífuna Píku sem hér er gerð að umtalsefni. Eins og getið er var hljóðfæraskipan Á túr óhefðbundin, selló, rödd og hljómborð, þó stundum hafi slagverk fylgt með. Það mæddi því mikið á söngnum á tónleikum og á skífunni og Elísabet stendur sig þar með mikilli prýði; syngur ævinlega af innlifun og beitir röddinni skemmtilega til að undirstrika inntak textanna, sem eru eftir hana. Eins og fram kemur á textablaði er Píka stelpudiskur með stelputextum og einskonar lokakafli á þroskaskeiðinu stelpa-kona". Þannig er lögunum skipað niður á disknum að þau segja frá því er stúlka verður kynþroska og síðan frá þroskaferli hennar fram til þess að hún gengur með barn, en í lokin eru tvær merkilegar yfirlýsingar; Menn verða einfaldlega að bera virðingu fyrir mér og Kastrat. Textar plötunnar eru sumir hranalega fram settir, ekki síst til að vekja áheyranda til umhugsunar, en tónlistin er líka vel til þess fallin að ýta við þeim sem á hlýðir, til að mynda á köflum skerandi falskur sellóleikur, mínimalískt píanóspil og hrátt slagverk. Elísabet sveiflar röddinni frá kontralt upp í sópran eftir því sem við á, öskrar, stynur og emjar. Hún syngur til að mynda skemmtilega neðarlega í Feit og falleg, en sveiflar sér svo upp í hæstu hæðir í næsta lagi, Nekt, og spilar þar á raddskalann sem mest hún má. Einnig er vert að nefna afbraðssöng í rokkkeyrslunni Kastrat. Lögin á Píku eru misjöfn að gæðum og gerð, en hafa öll nokkuð til síns ágætis. Best eru lögin Nekt, Menn verða einfaldlega að bera virðingu fyrir mér, sem tekið hefur stakkaskiptum frá því sem var á fyrstu tónleikum sveitarinnar, og Kastrat, afbragðs rokklag með magnaðri keyrslu og takskiptingum, sem eru vel í samræmi við öfgakenndan textann. Besta lag plötunnar er þó Móðir, með frábærlega grípandi klifandi og undirstrikar að Á túr var fráleitt búin að syngja sitt síðasta þegar hún hætti. Vert er að geta umslags plötunnar sem er skemmtileg hugmynd og gengur vel upp. Beitt kímnin sem einkennir plötuna alla gerir sitt til að skipa henni á sess með merkilegustu skífum síðasta árs og væntanlega (vonandi) eiga Á túr-stúlkurnar eftir að láta frekar að sér kveða í íslensku rokki á næstu árum. Árni Matthíasson Ljósmynd/Björg Sveinsdóttir FRÁ lokatónleikum Á túr en hana skipa Fríða Rós Valdimarsdóttir, hljómborðsleikari, Kristbjörg Kristjánsdóttir sellóleikari, Elísabet Ólafsdóttir, söngkona, og Birgir Örn Thoroddsen slagverkleikari.