ANNA GUÐBJÖRG BJARNASON

Anna Guðbjörg Bjarnason fæddist í Reykjavík 7. september 1933. Hún lést í Borgarspítalanum síðasta vetrardag, 22. apríl. Foreldrar hennar voru hjónin Anna Guðrún Jónsdóttir, prests Árnasonar í Otradal, og konu hans Jóhönnu Pálsdóttur, f. 8. nóvember 1900, d. 15. október 1982, og Gunnar Bjarnason, verkfræðingur og skólastjóri Vélskóla íslands, f. 12. febrúar 1901, d. 24. september 1987, sonur Nicolais Bjarnason kaupmanns og skipaafgreiðslumanns í Reykjavík og konu hans Önnu Amalie f. Thorsteinsson. Bróðir Önnu er Jón Páll, f. 6.2. 1938, hljómlistarmaður, búsettur í Los Angeles, kvæntur Robertu Ostroff, rithöfundi, f. 8.12. 1940. Jón Páll á Hólmfríði Ástu, f. 19.2. 1962, frá fyrra hjónabandi með Ellý Vilhjálms, söngkonu. Hólmfríður er gift Kristjáni Helgasyni, f. 1.5. 1957. Sonur hennar og Guðmundar Inga Sveinssonar er Sveinn Hólmar, f. 11.11. 1987. Anna giftist 1954 Atla Steinarssyni blaðamanni, f. 30.6. 1929, St. Stefánssonar verslunarstjóra í Rvík, f. 7.4. 1896, d. 1980, og konu hans Ásu Sigurðardóttur, f. 26.1. 1895, d. 1984, bæði ættuð úr Eyjafirði, og eignuðust þau fjögur börn: 1) Anna Vincens, f. 10.4. 1955, gift Jay X. Vincens, f. 26.12. 1946, ráðgjafa. Þau búa í Colorado og eiga fjögur börn, Önnu Helenu, f. 7.10. 1978, Elisabetu Júlíu, f. 16.12. 1980, Atla James, f. 10.4. 1982, og Gunnar Charles, f. 16.3. 1988. 2) Ása Steinunn, hjúkrunarfræðingur, f. 14.10. 1956, gift Kjartani Sigtryggssyni, deildarstjóra, f. 8.4. 1944. Þau eiga tvo syni, Kjartan Atla, f. 23.5. 1984, og Tómas Karl, f. 23.10. 1990. 3) Gunnar Þór, skrifstofumaður, f. 10.11. 1959. Fyrri kona Áslaug Kristjánsdóttir, Stykkishólmi, f. 25.1. 1962, og eiga þau Kristján Lár, f. 30.9. 1983. Síðari kona Konný Agnarsdóttir, f. 13.6. 1965, og eiga þau Önnu Guðlaugu, f. 21.11. 1992. 4) Atli Steinarr, viðskipta- og markaðsfræðingur, f. 20.11. 1963, kvæntur Karin Atlason, f. 8.11. 1962. Þau búa í Halmstad í Svíþjóð og eiga Viktoríu Önnu, f. 5.6. 1997. Anna Guðbjörg lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands 1951. Löngu síðar lauk hún prófi frá skóla Félags ísl. leiðsögumanna. Hún var blaðamaður við Morgunblaðið 1951 til 1955 í fullu starfi en síðan í íhlaupum og hlutastarfi til 1962. Hún var skrifstofustjóri Vélskólans 1964­70, læknaritari á Landakoti 1971­75, blaðamaður á Vísi 1975­76, blaðamaður við Dagblaðið 1976­83 þar sem hún auk annars var brautryðjandi í skrifum um neytendamál. Hún var yfirritari á lyflækningadeild Borgarspítalans 1983­86, ritstjóri og útgefandi Mosfellspóstsins 1980­87, rak gestamóttöku fyrir Íslendinga í Flórída 1989 til 1997 og var á sama tíma fréttaritari DV. Síðast var hún afleysingaritari við heilsugæslustöðina í Laugarási 1997. Anna flutti fjölmarga pistla í Ríkisútvarpinu bæði frá Flórída og eftir heimkomuna og greinar hennar birtust í ýmsum blöðum og tímaritum. Anna lét málefni neytenda sig miklu skipta og sat í stjórn Neytendasamtakanna um árabil. Hún var í hópi stofnenda Vinafélags Borgarspítalans og sat í stjórn þeirra samtaka um langt árabil. Hún var varaformaður Kvenfélags Mosfellssveitar um skeið. Í Flórída var hún hvatamaður að stofnun Íslendingafélagsins Leifs Eiríkssonar 1991 og var forseti þess frá stofnun til 1997 er hún flutti aftur heim til Íslands. Útför Önnu fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.