BÚJARÐIR á Langanesi þóttu á fyrri árum með þeim betri á landinu. Þar komst fólk í góð efni, enda mörg matarholan og gott hagræðið. Þaðan er stutt á fengsæl fiskimið, björgin gefa bæði fugl og egg og rekaviður er þar nógur. Eyðibýlið Skálar er á austanverðu Langavesi eða sunnanverðu, samkvæmt málvenju þar.

Skálar á Langanesi

ÚTGERÐARSTAÐUR Í AUÐN

Á Skálum á Langanesi var frá síðustu aldamótum og fram til ársins 1940 stunduð all umfangsmikil útgerð og verslun. Þegar byggðin var fjölmennust bjuggu þar hátt í 400 manns yfir sumartímann. Helgi Mar Árnason kynnti sér blómatíma, ris og fall í sögu þessa merkilega sjávarpláss sem nú er í eyði og ræddi við Lovísu Jóhannsdóttur sem bjó á Skálum í aldarfjórðung.

BÚJARÐIR á Langanesi þóttu á fyrri árum með þeim betri á landinu. Þar komst fólk í góð efni, enda mörg matarholan og gott hagræðið. Þaðan er stutt á fengsæl fiskimið, björgin gefa bæði fugl og egg og rekaviður er þar nógur. Eyðibýlið Skálar er á austanverðu Langavesi eða sunnanverðu, samkvæmt málvenju þar. Bæjarstæðið er í geilum eða skálum milli hárra bjarga og dregur nafn sitt af því.

Í upphafi aldarinnar voru Skálar með stærri verstöðvum hérlendis. Þegar mest var voru þar heimilisfastir 117 manns og á sumrin voru gerðir þaðan út hátt í 50 bátar. Þá tvöfaldaðist íbúafjöldinn og ríflega það og menn komu þangað til veiða allsstaðar af landinu. En vertíðin stóð aðeins yfir hásumarið, frá maí og til ágústloka. Hafnarskilyrði eru engin frá náttúrunnar hendi á Skálum og því ekki hægt að stunda þaðan vetrarvertíð.

Skálar voru fram yfir aldamót ósköp venjulegt býli þar sem menn sóttu sjóinn samhliða hefðbundnum búskap. Langsnesingar höfðu á þessum árum mikil samskipti við áhafnir á erlendum fiskiskipum sem voru við veiðar við Langanes. Einkum voru það Færeyingar en einnig Hollendingar, Englendingar og Frakkar. Bændur á Skálum höfðu þá ísgeymsluhús eða snjógeymsluhús sem þeir söfnuðu snjó í á veturna og var ísinn notaður á sumrin til að frysta beitu í landi en einnig seldur í útlend skip.

Íbúum fjölgar á Skálum

Árið 1910 voru 17 manns heimilisfastir á Skálum. Það sama ár kom þangað maður að nafni Þorsteinn Jónsson frá Seyðisfirði. Koma hans markaði tímamót í sögu staðarins. Fystu tvö árin dvaldi Þorsteinn aðeins á Skálum yfir sumartímann og gerði út 2 til 3 báta. Hann sá fljótlega fram á gróðavænleg viðskipti með sjávarfang og í þjónustu við þá útlendinga sem gerðu út frá Skálum á sumrin. Þorsteinn setti upp fiskverkunarstöð, keypti fisk af heimamönnum og verkaði í salt. Hann byggði auk þess verbúðir fyrir verkafólk sitt og hóf verslun. Þegar Þorsteinn flutti alfarið að Skálum voru íbúar þar orðnir 43 og fjölgaði þeim hratt. Atvinnulíf var farið að blómstra á Skálum sumarið 1916 og þá var Þorsteinn kominn með margt fólks í vinnu, bæði Íslendinga og Færeyinga.

Illa gat gengið að koma verkuðum fiski frá Skálum. Samgöngur á landi voru slæmar en í þessa tíð var ekki búið að leggja veg út í Skálar. Þorsteinn keypti snemma á Skálaárum sínum mótorskútuna Ölduna sem hann notaði til flutninga milli Skála og Seyðisfjarðar en þá var gott verslunarsamband milli þessara staða. Með Öldunni var aðallega fluttur saltfiskur og lýsi frá Skálum en salt og verslunarvara til baka. Aldan varð snemma of lítil til að sinna þessum flutningum og því keypti Þorsteinn 40 lesta mótorbát sem hann nefndi Steina litla. Fór hann nokkrar ferðir á milli Skála og Seyðisfjarðar en strandaði við Héraðssand árið 1916. Einnig var Þorsteinn með mótotbátinn Fjölni á leigu en hann sleit upp í höfninni á Hellisfirði árið 1917.

Jóhanns þáttur Kristjánssonar

Þorsteinn ríkti sem einvaldur á Skálum á árunum 1910 til 1917. Eftir skakkaföllin með mótorbátana dró nokkuð úr umsvifum hans, enda hljóta þau að hafa komið nokkuð við pyngjuna. Samkeppni jókst og svo fór að Þorsteinn hætti rekstri og yfirgaf Skálar. Hann seldi eigur sínar Seyðfirðingum sem stofnuðu um þær hlutafélag sem þeir kölluðu Ölduna og héldu áfram útgerð og verslun á staðnum. Jóhann M. Kristjánsson, frá Skoruvík á Langanesi, var aðeins 16 ára þegar Þorsteinn Jónsson kom fyrst til Skála og fylgist vel með uppgangi á staðnum. Jóhann þessi var hugsjónamaður sem vildi ná sem skjótum árangri í viðskiptum og njóta hagnaðarins. Hann hleypti snemma heimadraganum, fór til Kaupmannahafnar og sótti sér menntun í viðskiptum. Þegar hann kom aftur heim réðist hann sem framkvæmdastjóri Öldunnar á Skálum. Fyrir lágu verkefni um að bæta lendingaraðstöðu og að versla lifur af bændum og sjómönnum því lýsi var í þá daga mikil og góð markaðsvara. Jóhann var framkvæmdastjóri Öldunnar í 3 ár og gengdi starfinu með ágætum.

Í annari ferð sinni til Kaupmannahafnar árið 1921 fékk Jóhann mikinn áhuga á að koma upp vélfrystihúsi á Skálum. Verkið var kostnaðarsamt en Jóhann fékk lán til að kaupa frystivélar og einnig gufuketil, gufuspil og járnmastur með tilheyrandi bómu, blökkum og vír. Þetta flutti hann til Skála og lét reisa hús yfir frystivélarnar, þar sem einnig var gert ráð fyrir frysti og geymsluklefa. Það mun hafa verið annað vélfrystihúsið sem reist var hér á landi. Gufuketillin var notaður til að bræða þorskalifur og til að knýja gufuspilið. Jóhann lét einnig steypa bryggju þar sem járnmastrinu var komið fyrir til að ferma og afferma báta.

Baráttan við brimið

Það háði alla tíð útgerð frá Skálum að þar skorti talvert á góða lendingu fyrir bátana. Á Skálum hagar þannig til að þar er aðeins örmjó fjöruræma undir 12 metra háum lóðréttum hömrum svo aðeins á fáum stöðum er manngengt niður í fjöruna. Lendingar á Skálum voru bestar á þremur stöðum; í Árvík, við svokallaðan Bás undir Bæjarbjarginu og við svokallaðan Hnall sem er lítið sker skammt frá landi. Lendingin við Hnallinn var mest notuð. Þar var þó oft ófært þegar ölduna stækkaði.

Árið 1925 fór Fiskifélag Íslands þess á leit við Alþingi að gerð yrði rannsókn á lendingarbótum á Skálum. Viðbrögð við erindinu voru skjót. Þáverandi vitamálastjóri, Th. Krabbe, kom til Skála í sepember sama ár og gerði uppdrátt að lendingarbótum. Verkinu var hins vegar ekki hrint í framkvæmd fyrr en árið 1929. Þá var hafist handa við að steypa brimgarð út í Hnallinn og loka þannig sundinu milli skers og lands. Verkinu lauk í ágúst sama ár og myndaðist við það gott skjól fyrir bátana. En það reyndist skammgóður vermir. Í fyrstu vetrarbrimunum kastaði aldan grjóti yfir garðinn og fyllti smá saman upp í lendinguna. Skálamenn reyndu að hamla þessu með því að ryðja lendinguna með handaflinu einu saman. Garðurinn var einnig hækkaður með því að reisa ofan á hann trébúkka sem fylltir voru steinsteypu og grjóti. En þrátt fyrir þrjósku og þrákelkni Skálamanna voru höfuðskepnurnar ekki síður þrautseigar. Brimaldan við Langanes er iðin og þung og fór með sigur af hólmi í þessari viðureign. Þegar ljóst var að brimgarðinum yrði ekki bjargað var gripið til þess ráðs að ryðja vör litlu norðar við Hnallinn en það dugði heldur ekki til. Náttúruöflin sáu til að ekki var reynt að gera fleiri lendingarbætur á Skálum.

Hallar undan fæti

Ekki leikur vafi á því að þessar misheppnuðu lendingarbætur áttu einna stærstan þátt í því að byggð lagðist af á Skálum. Með stærri skipum breyttust líka forsendur fyrir útgerð og nálægð við fiskimiðin var ekki eins mikilvæg og áður. Kreppan var skollin á og fiskgengd minnkaði á þessum árum. Fiskverð lækkaði og erfiðara varð um allan atvinnurekstur. Öldufélagið á Skálum varð gjaldþrota árið 1929. Þá voru Skálar enn ekki komnir í vegasamband við Þórshöfn en þangað þurfti í vaxandi mæli að sækja alla þjónustu eftir að umsvif minnkuðu á Skálum. Árið 1930 fór íbúum að fækka og árið 1932 voru þeir 93. Framkvæmdamaðurinn Jóhann M. Kristjánsson gafst upp á atvinnurekstri 1931 og fór þaðan og kom ekki aftur.

Stríðsógnin

Árið 1941 voru aðeins 53 íbúar á Skálum og fækkaði ört. Heimstyrjöldin síðari geysaði út í hinum stóra heimi en lét Langnesinga samt sem áður ekki afskiptalausa. Tundurdufl sem komið hafði verið fyrir í norðanverðu Atlantshafi, m.a. úti fyrir Austfjörðum, slitnuðu upp og ráku á fjörur á Norður- og Austurlandi. Aldan skilaði mörgum þeirra upp í fjörukambinn við Skála og gerðu þau oft mikinn usla á húsum þar. Það var meðal annars til þess að fólk flutti frá Skálum. Eftir heimstyjöldina fækkaði fólki enn á Skálum. Árið 1945 voru þar aðeins 25 íbúar heimilisfastir og ári seinna var þar engin. Árið 1948 flutti Lúðvík Jóhannsson í Skálar og bjó þar í 6 ár ásamt fjölskyldu sinni. Hann var síðasti ábúandinn því árið 1954 fóru Skálar endanlega í eyði.

Paradís bjargfugla

Á Skálum má enn sjá minjar liðins tíma. Öll hús eru hrunin en bryggjan hans Jóhanns M. Kristjánssonar stendur enn og minnir ásamt gapandi húsarústunum á liðna tíma. Einhversstaðar segir að torsótt sé leiðin til stjarnanna. Það á einkar vel við um Skálar og reyndar alla byggð nyrst á Langanesi því þangað liggur einungis stórgrýtisslóði sem tekur drjúgan toll af öllum farartækjum sem um hann fara. Þrátt fyrir það leggur ferðafólk leið sína út á nesið í auknum mæli. Og ekki að ósekju. Á Skálum og út við ysta haf er stórbrotin náttúra sem þrátt fyrir gróðursneyð og hrjóstrugt umhverfi, lætur staðurinn fáan ósnortin. Það er gaman að standa á uppi á holtinu fyrir ofan Skálar og gera sér í hugarlund iðandi mannlífið. En þar sem eitt sinn var blómleg byggð búa bjargfuglar sér nú paradís. Rekaviðurinn liggur í breiðum langt upp á land, engum til gagns. Það á því við um Skálar eins og margar aðrar kostajarðir á Íslandi: "Hver einn bær á sína sögu; sigurljóð og raunasögu."

SKÁLAR á blómatímanum en myndin er líklega frá því fyrir 1930. Lengst til vinstri er Sólbakki, hið reisulega hús Jóhanns M. Kristjánssonar.