7. júní 1998 | Blaðaukar | 758 orð

Stór tré eru sérgrein hans Björn Sigurbjörnsson í garðyrkjustöðinni Gróanda, Grásteinum í Mosfellsdal, hefur sérhæft sig í

BJÖRN tók við rekstri stöðvarinnar af föður sínum, Sigurbirni Björnssyni, sem upphaflega stofnaði gróðrastöð í Fossvogi í Reykjavík. Björn er kraftmikill að sjá, en sérstæð kímnigáfa hans og kaldhæðni gera hann að frekar erfiðum viðmælanda.

Stór tré eru sérgrein hans

Björn Sigurbjörnsson í garðyrkjustöðinni Gróanda, Grásteinum í Mosfellsdal, hefur sérhæft sig í ræktun og sölu á stórum trjám. Á hverju ári fara þaðan hávaxin tré í tugatali, sem meðhöndluð hafa verið með það fyrir augum að þau skipti um dvalarstað. BRYNJU TOMER fannst hún komin í Paradís er hún heimsótti Björn í blíðviðri fyrir skömmu. Hann sagði það misskilning, Mosfellsdalur væri þekktari fyrir annað en gott veður og líf garðplönturæktenda væri engin sæla.

BJÖRN tók við rekstri stöðvarinnar af föður sínum, Sigurbirni Björnssyni, sem upphaflega stofnaði gróðrastöð í Fossvogi í Reykjavík. Björn er kraftmikill að sjá, en sérstæð kímnigáfa hans og kaldhæðni gera hann að frekar erfiðum viðmælanda. Hann á til að snúa út úr og stundum þykist hann ekki heyra spurningar sem upp eru bornar. Honum verður tíðrætt um Skógrækt ríkisins og skógræktarfélög. "Þetta ríkisstyrkta apparat er komið í beina samkeppni við okkur garðplönturæktendur, þrátt fyrir samkeppnislög og samkeppnisstofnun."

Landið dæmt óhæft til ræktunar

Á átta hektara landi eru bæði ræktuð tré og runnar til sölu og ennfremur til að skýla svæðinu. Limgerði úr ýmsum trjátegundum prýða svæðið, til dæmis úr lerki, fjallarifsi, íslenskum reyni, silfurreyni og vitaskuld líka úr víði og birki. Um hina fögru skóga og fjölbreyttu limgerði segir Björn: "Þetta eru nú bara tré sem enginn annar vildi. Við sem ræktum notumst við það sem enginn vill kaupa."

Gróðursæld á staðnum er með ólíkindum, sérstaklega í ljósi þess að landið var áður talið óhæft til ræktunar. Segir Björn það raunar hafa verið ástæðu þess að föður hans var selt landið árið 1966. "Þá voru menn reknir úr Reykjavík með gróðarstöðvar sínar og erfitt var að finna hentugt land fyrir þær. Hér var mýri og ekki hægt að komast yfir nema í vaðstígvélum, sama hversu þurr sumrin voru. Við ræstum landið fram og komum lokræsum fyrir með 3-4 metra millibili til að þurrka landið upp.

Limgerði

Þegar Björn er spurður um ráðleggingar til garðeigenda segist hann ekki vilja hafa vit fyrir fólki. "Hér er til margt vel menntað fólk, landslagsarkitektar til dæmis, sem hafa að atvinnu að ráðleggja fólki. Ég rækta bara tré." Eftir ítrekaðar tilraunir fellst hann þó á að spjalla lítillega um limgerði: "Þegar tré eru notuð í limgerði er nauðsynlegt að hafa stutt bil á milli þeirra til að koma í veg fyrir að stofnar þeirra verði of sverir. Gera þarf ráð fyrir 4 trjám á hvern metra. Limgerði úr trjám þarf að klippa oft og leggja áherslu á að það verði ekki of breitt. Öðru máli gegnir um runna. Á þá vaxa margar greinar sem fylla út í limgerðið. Yfirleitt nægir að hafa tvær runnaplöntur á hverjum metra limgerðisins."

Þegar stór tré eru ræktuð til flutnings er nauðsynlegt að færa þau úr stað og skerða rætur þeirra með reglulegu millibili. "Að jafnaði þarf að rótarskera eða umplanta trjám annað hvort ár fyrstu 8-10 árin, en sjaldnar eftir að trén verða eldri. Þetta þarf að gera þar til tréð skiptir um eiganda og fer á endanlegan dvalarstað. Þá fá ræturnar að vaxa óáreittar meðan tréð lifir."

Tré felld í brjálæðiskasti

Björn segir að á síðustu árum hafi aspir notið mjög mikilla vinsælda. "Þetta eru sterk tré sem vaxa hratt við flestar aðstæður. Auk þess eru aspir lausar við sjúkdóma, enn sem komið er að minnsta kosti." Þegar talið berst að sterku rótarkerfi aspa og því óorði sem á það er komið fer Björn á flug: "Rótarkerfi stórra trjáa er stórt og rætur sækja í vatn. Sé holræsakerfi gallað leita rætur þangað, en sé það heilt leita þær annað. Ógæfu Íslands verður allt að vopni. Eftir áratugabaráttu ræktunarmanna við þröngsýni og afturhald var ræktun heldur að sækja á. Þá uppgötvuðu menn lús á brekkuvíði og var honum næstum útrýmt. Brekkuvíðir hefur varla selst síðan. Nú er það öspin sem úrtölumenn vilja feiga. Umræðan var byrjuð, en magnaðist með furðulegum dómi í Kópavogi síðastliðin vetur, þar sem aspir voru dæmdar óhæfar í görðum. Þær átti að fjarlægja umsvifalaust. Aðdáendur auðnarinnar, bændur og framsóknarmenn í öllum stéttum virðast hafa tekið höndum saman, svo nú fjarlægja menn aspir úr görðum sínum og sama sem ekkert selst af þeim. Sjá menn fyrir sér að á Laufásvegi í Reykjavík stíflist klóak og allur gróður verði felldur í brjálæðiskasti? Hafa menn ekki komið til útlanda þar sem himinhá tré eru í görðum og á gangstéttum? Hvernig skyldu þessar borgir líta út ef Íslendingar byggju þar?"

BJÖRN Sigurbjörnsson segir ómaklega vegið að öspum.MARGAR tegundir er hægt að nota í limgerði, hér sést lerki.

Allur gróður felldur í brjálæðiskasti.

Við notum tré sem aðrir vilja ekki.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.