MAGNÚS Ingimarsson hljómlistarmaður á að baki langt og farsælt starf, allt frá því hann hóf ungur maður að spila í danshljómsveitum. Hann hefur verið eftirsóttur og afkastamikill útsetjari og píanóleikari um langt árabil og hefur spilað með öllum helstu hljómlistarmönnum landsins síðan snemma á sjötta áratug aldarinnar.

Útsetjari,

píanóleikari

og hljómsveitarstjóri

í nær hálfa öld

MAGNÚS Ingimarsson hljómlistarmaður á að baki langt og farsælt starf, allt frá því hann hóf ungur maður að spila í danshljómsveitum. Hann hefur verið eftirsóttur og afkastamikill útsetjari og píanóleikari um langt árabil og hefur spilað með öllum helstu hljómlistarmönnum landsins síðan snemma á sjötta áratug aldarinnar. Ólafur Ormsson ræddi við Magnús um tónlistarferil hans og það sem hann er að fást við í dag. Magnús Ingimarsson hljómlistarmaður og kona hans, Ingibjörg Björnsdóttir, deildarstjóri og ritari fjármálaráðherra, búa í parhúsi við Hjarðarhaga í Reykjavík. Í næsta nágrenni eru helstu menntastofnanir þjóðarinnar og Reykjavíkurflugvöllur er ekki langt undan og stutt niður í miðborgina. Það gekk á með rigningarskúrum í vesturbænum þegar ég heimsótti Magnús snemma í ágústmánuði. Magnús varð sextíu og fimm ára l. maí síðastliðinn. Hann er fremur hávaxinn, þéttvaxinn, herðabreiður og hárið er svolítið farið að grána. Í útliti er hann ekki ólíkur virðulegum háskólakennara eða vísindamanni. Magnús er þekktur tónlistarmaður og á að baki langt og farsælt starf sem útsetjari, píanóleikari og hljómsveitarstjóri allt frá því að hann hóf ungur maður að spila opinberlega í danshljómsveit. Það er því forvitnilegt að rifja upp eitt og annað á löngum ferli hans gegnum árin. Magnús segist aðspurður hlusta nánast á alla tónlist, en þó helst á raddaðan söng af ýmsu tagi og svo djass. Hann hefur m.a. miklar mætur á kanadíska píanóleikaranum Oscar Peterson og bandaríska tenórsaxófónleikaranum Stan Getz.

Við sátum við stofuglugga á heimili þeirra Magnúsar og Ingibjargar með útsýni yfir garðinn við húsið þar sem gefur að líta myndarlegan trjágróður. Magnús sat í djúpum leðurstól, hallaði sér aftur með hönd undir kinn og lét hugann líða aftur til þeirra tíma þegar hann var ungur drengur. Uppruni og fjölskylda "Ég er fæddur á Akureyri árið 1933. Þaðan lá leið mín með foreldrum mínum og systkinum út á Dalvík, þar sem heitir Árgerði og er rétt sunnan við kaupstaðinn. Ég var þriggja ára þegar við fluttum frá Akureyri og út á Dalvík, en þar vorum við til ársins 1945 að við fluttum til Reykjavíkur. Faðir minn var Ingimar Óskarsson, landskunnur náttúrufræðingur og útvarpsfyrirlesari og var reyndar þekktur víða um lönd sem vísindamaður. Hann er, að ég held, eini heiðursdoktorinn við Háskóla Íslands sem ekki er háskólaborgari. Hann tók aldrei stúdentspróf, en lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar. Eftir það tók við sjálfsnám meira eða minna alla ævi. Hann var t.d. enn að nema ýmis tungumál á sextugsaldri. Hann var ötull við að safna jurtum og var þekktur grasafræðingur. Faðir minn var Svarfdælingur, fæddur á Klængshóli í Skíðadal. Móðir mín var Margrét Kristjana Steinsdóttir, ættuð úr Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Bróðir minn, Óskar, var þýðandi og rithöfundur, hann lést árið l996 og systir okkar er Ingibjörg, starfsmaður við Kennaraháskólann. Pabbi var kennari fyrstu árin eftir að við fluttum suður, en síðar starfsmaður við Hafrannsóknarstofnun í áratugi. Ég lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar, en fór ekki í menntaskóla, heldur ákvað ég að fara í prentnám í Prentsmiðjunni Eddu vorið 1949. Ég held að pabba hafi þótt þetta miður. Á sínum tíma hafði hann ekki efni á að halda áfram námi eftir að hann lauk gagnfræðaprófi. Hann ætlaðist auðvitað til þess, þegar peningar voru til, að við systkinin gengjum menntaveginn, sem bróðir minn reyndar gerði." Tónlistaráhugi kviknar í foreldrahúsum ­ Hvenær kviknaði áhugi þinn fyrir tónlist? "Ég var 3 eða 4 ára þegar ég fór að strengja teygjur á nagla á vegg og reyna að finna út einhverja hljóma. En mamma mín hafði lært á orgel fyrir vestan. Hún var vinnukona hjá því fræga tónskáldi Sigvalda Kaldalóns. Vinnukonur þar á bæ námu einhvern orgelleik og mamma kenndi mér fyrstu nóturnar á orgelið heima í stofu á mínu æskuheimili. Pabbi hafði einnig ánægju af tónlist. Hann spilaði reyndar einn á fiðlu á böllum á Árskógsströnd á sínum unglinsárum í kringum 19l0 og hann var stundum á gamalsaldri enn að spila á fiðluna fyrir barnabörnin. Ég fór síðar í orgelnám hjá "Sigga í Holti", sem kenndi á orgel þar í sveitinni fyrir norðan. En eftir að ég kom suður varð ekki meira úr skipulögðu tónlistarnámi í bili. Ég eignaðist harmonikku og fór að spila á hana um fermingaraldur og nokkrum árum síðar var ég farinn að vinna mér inn peninga með harmonikkuleik. Um þetta leyti fór ég að kíkja nánar á tónfræði, hljóðfærafræði og hljómsveitaútsetningu. Það var svo löngu síðar eða á miðjum aldri að ég fór í kennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík og nam þar heilmikið til viðbótar." Í prentverki og spilamennsku frá 1952 til 1960 Magnús vann í Prentsmiðjunni Eddu jafnframt því að spila með nokkrum helstu danshljómsveitum Reykjavíkur allt fram til hausts 1960, seinustu mánuðina var hann verkstjóri setningardeildar í prentsmiðjunni, en sneri sér þá alfarið að músík. "Árið 1952 byrjaði ég að spila á harmonikku með GK-tríóinu. Við spiluðum lítillega í Reykjavík á vetrum en á sumrin spiluðum við á dansleikjum á Snæfellsnesi, Grundarfirði, Hofgörðum, Arnarstapa, Búðum og víðar." En ferill harmonikkuleikarans Magnúsar Ingimarssonar var brátt á enda. Í byrjun árs 1955 veiktist hann hastarlega og lá nokkra mánuði á sjúkrahúsi. Þegar hann svo útskrifaðist á vordögum var hann svo máttfarinn að ekki þýddi að reyna að spenna á sig nikku, en það voru til fleiri hljóðfæri ­ píanóið lá beint við og Magnús sneri sér að því án tafar. "Sú ákvörðun átti aldeilis eftir að draga dilk á eftir sér. Þarna áttu sér stað viss straumhvörf í lífi mínu. Við vorum góðir vinir ég og Ásgeir Sigurðsson (seinna skólastjóri Tónlistarskólans á Selfossi). Við vorum oft að pæla í útsetningum og þá ekki síst fyrir karlaraddir, en okkur þótti miður að eiga þess ekki kost að heyra neitt af þessu sungið. Svo einhvern daginn sagði annar hvor okkar: ­ Við skulum bara stofna kór eða kvartett til að syngja þetta. Og svo fór að tveimur kunningjum okkar, Sigurði Sívertsen og Vilhjálmi B. Vilhjálmssyni var gert að fara að syngja, og úr þessu varð söngkvartett sem hlaut nafnið Marzbræður. Og áður okkur varði vorum við komnir í bullandi bisniss, upptroðslur og plötugerð, við sungum inn á nokkrar hljómplötur, ekki mörg lög einir sér, en því meira sem bakraddir með Ingibjörgu Þorbergs, sem þá var ein af stjörnum Íslenskra tóna, plötuútgáfufyrirtækis Tage Ammendrups, þess ágæta brautryðjanda á kynningu íslenskra dægurlaga. Sumarið 1955 fór ég nokkrar ferðir út á landsbyggðina með hljómsveit Karls Jónatanssonar og spilaði þá aðallega á gítar, en á það hljóðfæri hafði ég oft þurft að leika, fyrst með Marzbræðrum, síðan með hljómsveit Carls Billich og Jan Moraweks á revíukabarettum Tage Ammendrups og jafnvel í plötuupptökum með Skapta Ólafssyni. Ég lék í ágætri hljómsveit Stefáns Þorleifssonar 1955-56. Þar voru innanborðs ekki ómerkari menn en Árni Egilsson og Viðar Alfreðsson auk okkar Stefáns og söngkvennanna þingeysku, Leiksystra. Þessi hljómsveit spilaði víða en sumarið 1956 nær eingöngu í klúbbum á Keflavíkurflugvelli. Á þeim umtalaða stað "Vetrargarðinum" lék ég á píanó í hljómsveit Jóhannesar Eggertssonar veturinn 1956-57. Vetrargarðurinn var í Tívolígarðinum í Vatnsmýrinni og hafði svona miður gott orð á sér. Þar var oft mikið fjör og mikil þröng. Vetrargarðurinn var þó ekki mjög frábrugðinn öðrum skemmtistöðum í Reykjavík þar sem vín var ekki selt. Þó hékk þar í lofti ofan við hljómsveitina gömul skipsbjalla, mikil að vöxtum, og bar hljómsveitarmönnum að ljósta hana þungu höggi með kólfinum ef þeir yrðu varir við einhverjar óspektir í salnum, en hann var langur og mjór, en spilarar staðsettir upphækkaðir fyrir miðjum vegg svo þeir sáu vel yfir mannþröngina. Við bjölluhringinguna sem mun hafa heyrst alla leið upp á Skólavörðuholt tróðu nokkrir fílefldir dyraverðir sér inn eftir salnum til þess að stoppa slagsmálin,en þeim var oftast löngu lokið þegar á vettvang var komið. En aldrei fóru þessi hraustmenni tómhent til baka! Þessir dyraverðir voru miklir að burðum og óárennilegir. Ég spurði samt einn, nálægt lokunartíma, af hverju hann væri að taka smálögg af stráklingi sem var þarna nýsloppinn inn. Þessi rekstur byggðist fyrst og fremst á pelafylliríi eins og hjá öðrum "vínlausum" húsum. "Skiptu þér ekki af þessu, við vitum alveg hvað við erum að gera," sagði þessi vörður laganna. "Nú eru komnar 80 heilflöskur inn í húsið og það er akkúrat það sem við ráðum við"! Víða hefur þetta verið með svipuðum hætti í húsum sem ekki höfðu vínveitingaleyfi, og sýnir þetta vel breytingarnar á þessum málum í rúm fjörutíu ár." ­ Og eftir að þú hættir í Vetrargarðinum, þá ferðu yfir á Hótel Borg? "Já og lék þar með hljómsveit Jónasar Dagbjartssonar frá því í maí 1957 og fram á sumar 1958. Borgin var óhemju vinsæl á þeim árum og yfirleitt alltaf fullt út úr dyrum, fimm kvöld vikunnar." Framsóknarhúsið og Jón Múli Veturinn 1958-59 var Magnús í hljómsveit Gunnars Ormslev, sem var þá nýkomin úr frægri för til Rússlands þar sem menn fengu ýmis heiðursmerki fyrir frábæran hljóðfæraleik. "Þarna um veturinn 1958-59 var Ormslev kominn í Framsóknarhúsið (nú Listasafn Íslands) með hljómsveit sína nokkuð breytta frá því í Rússlandsförinni og ég var í þeirri hljómsveit. Ég tók svo við hljómsveitarstjórninni í Framsóknarhúsinu haustið 1959 en hafði spilað á Hótel Borg um sumarið með Birni R. Einarssyni, landsþekktum hljóðfæraleikara og söngvara sem ég hef alltaf haft miklar mætur á, söngkona með hljómsveitinni það sumarið var Anna María Jóhannsdóttir Konráðssonar og var hún að sjálfsögðu öllu sínu fólki til sóma. Í hljómsveitinni minni í Framsóknarhúsinu spiluðu með mér Gunnar Sigurðsson, Gunnar Mogensen og Pétur Jónsson (nú búsettur í Portúgal) og svo hin þekkta söngkona Sigrún Jónsdóttir sem var t.d. með KK sextettinum. Þennan vetur var tekinn til sýningar söngleikur þeirra Múla- bræðra, Rjúkandi ráð, í Framsóknarhúsinu, annar í röðinni, (Deleríum bubonis hafði verið sýndur í Iðnó nokkrum árum fyrr.) Rjúkandi ráð var dúndursýning með Kristin Hallsson, Steinunni Bjarnadóttur, Erling Gíslason og Sigurð Ólafsson o.fl. í frararbroddi.. Ég útsetti öll lög Jóns Múla fyrir söngleikina Rjúkandi ráð 1960, Allra meina bót 1961 og Járnhausinn 1965. Einnig gerði ég nýjar útsetningar við lögin í Deleríum bubonis í uppfærslu Þjóðleikhússins á jólum 1968." Með hljómsveit Svavars Gests Svavar Gests var einn kunnasti tónlistarmaður landsins á sjötta og sjöunda áratug aldarinnar. Hann var einnig mjög vinsæll útvarpsmaður og stjórnaði um árabil vinsælum útvarpsþáttum. "Ég var ráðinn í hljómsveit Svavars Gests sem píanóleikari og útsetjari haustið 1960 og starfaði þar til 1. september 1965 en þá lagði Svavar hljómsveitina niður." ­ Þið voruð mikið á ferðinni í útvarpinu á þessum árum ? "Jú, Svavar varð þjóðkunnur útvarpsmaður og stjórnaði skemmtiþáttum í útvarpinu í nokkur ár. Þeir hlutu óhemju vinsældir, enda margt smellið þar á ferð. Það var í þættinum "Sunnudagskvöld með Svavari Gests" sem Fjórtán fóstbræður létu fyrst heyra í sér. Þeir sungu syrpu af þekktum lögum í hverjum þætti og gerðu mikla lukku. Lagasyrpur þessar komu svo seinna út á plötum. Fjórtán fóstbræður voru úrvals söngmenn og einstaklega indælir piltar og bættist þar margur góður drengurinn í minn vinahóp. Seinna stofnuðu þeir sitt eigið útgáfufyrirtæki, FF- hljómplötur og undir þessu merki gerðum við tvær hljómplötur sem við tókum upp úti í London 1974. Það var ákaflega skemmtilegt." Og var ekki hljómsveit Svavars Gests einmitt á þessum árum upp úr 1960 mjög vinsæl? "Jú, hljómsveit Svavars Gests var mjög vinsæl á þessum árum enda Svavar laginn á að fá til liðs við sig duglega hljóðfæraleikara og söngvara. Hann var að mörgu leyti harður húsbóndi, en sennilega sá eini hérlendis sem vissi hvernig reka átti danshljómsveit. Hann var snjall auglýsinga- og fjármálamaður og traustur stjórnandi. Það þótti eftirsóknarvert að komast í hljómsveitina hans, það var góð vinna og vel launuð. Á sumrin var ferðast um landið og haldnar skemmtanir og dansleikir alla daga vikunnar fram á haust. Þetta var krefjandi og erfið vinna, og reyndi alloft á "móralinn" þegar við sátum í rútu saman oft allan daginn, stóðum á sviðinu saman allt kvöldið og jafnvel sváfum saman á nóttunni. (Aðstæður á gististöðum voru á þeim árum ekki alltaf með besta móti.) En eftir smáhnökra fyrsta sumarið gekk allt eins og í sögu. Okkur var oft ruglað saman, mér og nafna mínum Péturssyni sem m.a. spilaði með Valdimar Örnólfssyni í morgunleikfimi útvarpsins í áratugi. Þetta olli aldrei neinum vandræðum og við brostum bara að þessu. En í fyrstu sumarferð minni um landið með hljómsveit Svavars var að sjálfsögu komið við á Dalvík. Ég mun hafa á leiðinni þangað lýst æskustöðvum mínum allfjálglega og gefið rogginn í skyn að Dalvíkingar myndu stoltir taka hinum landsþekkta sveitunga sínum opnum örmum. Við samkomuhúsið tók á móti okkur roskinn maður, sem ég reyndar kannaðist við frá árum áður, hann heilsaði Svavari með virktum og sneri sér svo að mér: ­ Já, og þú ert svo þessi frægi Magnús Pétursson! Mér var strítt á þessu í mörg ár." Með hljómsveit á Röðli Magnús var með eigin hljómsveit í 5 ár á Röðli við Skipholt í Reykjavík og þaðan eiga margir dansgestir góðar minningar. "Hljómsveitin var stofnuð um áramótin 1965-66 og spilaði á sínum fyrsta dansleik á nýársdag og skemmti síðan gestum Röðuls sex kvöld í viku allt til vorsins 197l. Á sumrin tóku við oftast langt "frí" og við héldum skemmtanir úti á landsbyggðinni, m.a. í tengslum við héraðsmót Sjálfstæðisflokksins sem þá höfðu verið haldin um árabil. Veturinn 1971-72 spilaði hljómsveitin í Leikhúskjallaranum , en þá um vorið lagði ég hljómsveitina niður og hætti þá endanlega að standa fyrir danshljómsveit. Ég átti því láni að fagna að í hljómsveitinni minni var með mér úrvalsfólk og þessi ár voru sérstaklega ánægjuleg og eftirminnileg. Í fyrstu sungu með hljómsveitinni Anna Vilhjálms og Vilhjálmur Vilhjálmsson, síðar Þuríður Sigurðardóttir og síðustu árin Pálmi Gunnarsson og Einar Hólm Ólafsson. Allir þessir "krakkar" voru og eru afbragðs söngvarar og sum þeirra eru enn að á fullu. Gítarleikararnir mínir, þeir Garðar Karlsson og Birgir Karlsson settu nú aldeilis líka svip á bæinn, svo og Alfreð trommuleikari fyrstu árin. Þuríður var ekki nema sautján ára þegar hún byrjaði að syngja með okkur á Röðli. Ég var vel kunnugur föður hennar, Sigurði Ólafssyni söngvara, en ég þurfti næstum að sverja eið til að fá dóttur hans til starfans. Hann hafði kynnst þessum "bransa" vel ­ og ég yrði að passa hana! Aldrei reyndi neitt á þessa pössun. Þuríður var og er ljúf og indæl stúlka, varð vinsæl söngkona og eignaðist marga aðdáendur. Ég minnist þess að á einhverju sumarferðalaginu einhversstaðar fyrir austan hafði strákur, skrítinn nokkuð, fest ást á Þuríði og kvöld eitt, sumarið 1970, þegar hljómsveitin var þar á ferð, lét hann til skarar skríða og kallaði Þuru á sinn fund baksviðs ­ sagðist lengi hafa langað til þess að gefa henni mynd af sér, en engin slík væri tiltæk, rétti henni samt ljósmynd að gjöf ­ "þessi yrði að nægja í bili". Myndin var af kaupfélaginu á staðnum! Þuríður hefur alla tíð verið heldur hláturmild, en þetta gerði nær út af við hana, þótt hún skynjaði vel hlýjan hug þessa fatlaða pilts." Dægur- og danstónlist breytist með árunum og hefur alltaf gert. Og að því kom að mér fannst sú músík sem varð að framleiða fyrir dansgesti árið 1972 svo vel væri, ekki henta mér (margt er fertugum ófært) svo ég ákvað að hætta sem danshljómsveitarstjóri þá um vorið. Fjölhæfur listamaður. "Þegar Svavar hætti með hljómsveitina 1965 sneri hann sér alfarið að plötuútgáfunni og fljótlega kom ég að vinnu á ný hjá SG-hljómplötum sem útsetjari og upptökustjóri. Á næstu árum var mikið að gerast í stúdíói Svavars í Ármúlanum, stanslausar upptökur og á hverri hljómplötunni á fætur annarri. Þetta voru miklar nótnaskriftir og langir vinnudagar. Margs konar perlur voru þarna á sveimi, frábær harmonikuplata Braga Hlíðbergs, hernámsár Gísla Rúnars, Einsöngvarakvartettinn, svo eitthvað sé nefnt og ekki má gleyma þremur hljómplötum með Silfurkórnum, en í þeim hópi kynntist ég mörgum góðum söngvurum sem ég átti svo eftir að vinna með seinna. Samskiptum okkar Flosa Ólafssonar er erfitt að lýsa. Samstarf okkar hófst í Rjúkandi ráði í Framsóknarhúsinu 1960 og því er vonandi enn ekki lokið. Flosi hefur mjög sérstaka kímnigáfu, sem mér féll í geð, og okkar samvinna var mjög farsæl og með okkur tókst rótgróin vinátta. Við gerðum saman einhver ógrynni af sjónvarpsþáttum, einkum áramótaskaupum, nokkra útvarpsþætti, og ekki síst gamanóperuna Ringulreið, sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu 1975. Í öllum þessum útvarps- og sjónvarpsþáttum og í Ringulreið samdi ég ógrynni af lögum sem aðeins heyrðust einu sinni og einnig var svo um ýmsa þætti fyrri ára. Tónsmíðum mínum hef ég lítið haldið á lofti og svo ljóðum sem eru allnokkur. Það er kannski svolítið á skjön við mínar væntingar að þekktasta lagið eftir mig skuli vera "Það er svo geggjað að getað hneggjað"! Eftir að ég hætti með hljómsveit mína 1972, vann ég við allt sem til féll í músík. Stærsti hlutinn var útsetningar og upptökustjórn í hljóðverum. Ég skrifaði mikið á þeim árum fyrir strengjahljómsveitir og blásara til upptöku í stúdíóum með "popp"hljómsveitum. Þá var ég við kórstjórn af öllu tagi . Þetta voru oft kórar sem ég útsetti fyrir og stjórnaði í upptökustúdíói við hljómplötugerð eða kórar sem ég starfaði með utan hljóðvera. Þeir voru allmargir en lengst stjórnaði ég Lögreglukór Reykjavíkur, eða í 9 ár, og við hjónin fórum með þeim ágætu strákum í tvær ferðir til Norðurlanda á sameiginleg mót norræna lögreglukóra í Kaupmannahöfn 1975 og Stokkhólmi 1980. Þessar ferðir voru einstaklega vel skipulagðar og mjög skemmtilegar. Minning um að hafa stjórnað 240 manna karlakór á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn 1975 mun eflaust lifa lengi." Magnús byrjaði að nýju að vinna í Prentsmiðjunni Eddu árið 1978 sem setjari, jafnframt því sem hann starfaði við eitt og annað tengt tónlistinni. Hann tók við starfi yfirverkstjóra í Eddu sumarið 1981, og hætti þá næstum að sinna músík, enda ekki rúm fyrir hana meðfram þessu erfiða og krefjandi stjórnunarstarfi. En átta árum síðar var því embætti skipt upp í framleiðslustjóra og sölustjóra. Kom það síðartalda í hlut Magnúsar og var hann sölustjóri til ársloka 1994. En þá var hluta starfsfólks prentsmiðjunnar Eddu (þ.á m. Magnúsi.) sagt upp störfum eftir sameiningu hennar og G. Ben prentstofu, í nokkra mánuði hét fyrirtækið G. Ben-Edda, en síðan keypti Prentsmiðjan Oddi þessa samsteypu sem nú heitir Prentsmiðjan Grafik hf. Magnúsi þykir þessi ráðstöfun hafa raskað verulega sínum högum Hann hafi á sínum tíma, eftir mikinn þrýsting, fórnað músíkinni fyrir vel launað fyrirhugað framtíðarstarf sem yfirmaður í prentsmiðjunni og þessi brottrekstur eftir margra ára strit hafi orkað mjög tvímælis og telur Magnús brottreksturinn jaðra við óhæfuverk.

"Og reyndar verður sú gjörð aldrei fyrirgefin. En það gekk nokkuð vel að söðla um í músíkina aftur. Ég fékk hlutastarf sem kennari í Söngskólanum í Reykjavík, en þar hef ég t.d. verið að æfa samsöng á ýmsum stigum, allt frá unglingadeild og til óperudeildar efstu bekkja. Söngskólinn hefur í nokkur misseri staðið fyrir kvöldnámskeiðum fyrir fólk, sem áhuga hefur á söng (óháð föstu námi í skólanum) og hef ég komið þar nokkuð við sögu sem leiðbeinandi og kórþjálfari. Síðan gekk það nokkuð vel að endurnýja ýmis sambönd varðandi útsetningar og píanóleik, eða öllu heldur að láta það spyrjast að Magnús hefði snúið sér aftur að músíkinni og væri "til í hvað sem er" eins og Anna Vilhjálms söng hér um árið. Og nú er ég þegar aftur tekinn til við útsetningar af öllu tagi eins og fyrr, fyrir kvartetta og kóra og jafnvel harmonikuhjómsveitir víða um landið. Stórsveit Reykjavíkur (Bigband Sæbjörns Jónssonar) bíður eftir útsetningum fyrir sjóið á Broadway í lok september, svo margt er svo sem á döfinni. Og þessu til viðbótar er ég alltaf af og til að leika á píanó í síðdegis- og kvöldsamkvæmum." Sérðu eftir því að hafa ekki lært meira í músík ?

"Nei, ég sé ekki eftir því . Ég er nokkuð viss um að það sem ég hef verið að vinna á mínum tónlistarferli hefði ekki verið mikið betur gert þótt ég hefði verið meira skólagenginn. Talandi um útsetningar er það staðreynd að þar kemur að meðfædd sérgáfa. Það gæti einhver sagt:. - Ég ætla að læra að verða útsetjari! En það er ekki hægt nema að vissu marki. Þetta er spurning um hugmyndaflug og vissa leikni (bilið á milli tónsmíða og útsetninga er reyndar mjög lítið) en síðan koma fræðin til sögunnar og klára dæmið. Ég held að ég væri ekki ánægðari nú þó svo ég hefði farið í eitthvert langskólatónlistarnám. Þá lægju eflaust eftir mig einhverjar sinfóníur og óratóríur, en hefðu áheyrendur mínir í gegnum árin viljað frekar fá svoleiðis Magnús?"

Í SJÓNVARPSSAL snemma á sjöunda áratugnum. Frá vinstri Magnús, Adda Örnólfs, Alfreð Alfreðsson, Birgir Karlsson, Gunnar Ormslev, Árni Scheving, Hafsteinn Guðmundsson og Vilhjálmur Guðjónsson.

VIÐ hljóðritun fyrir S.G hljómplötur. Magnús nýtur aðstoðar eiginkonunnar.

HLJÓMSVEIT Magnúsar Ingimarssonar í ágúst 1966. Frá vinstri Vilhjálmur Vilhjálmsson, Alfreð Alfreðsson, Anna Vilhjálms, Birgir Karlsson og Magnús.

HLJÓMSVEIT Magnúsar í sjónvarpssal 1970. F.v. Þuríður Sigurðardóttir, Pálmi Gunnarsson, Birgir Karlsson, Einar Hólm og Magnús.

SÖNGKVARTTETTINN Marsbræður l953. Fv. Ásgeir Sigurðsson, Sigurður Sívertsen, Magnús og Vilhjálmur B. Vilhjálmsson.

Í HEIMSÓKN hjá Lilju og Flosa í Borgarfjörðinn sumarið 1997. Þeir félagar rifja hér upp gamlar perlur.

MAGNÚS með nemendum sínum úr óperu-og söngleikjadeild Söngskólans í Reykjavík vorið 1998. (Hjá Magnúsi standa Ása Hlín Svavarsdóttir, leikstjóri og Iwona Jagla, píanóleikari.)