FLUGFÉLAGIÐ Loftur, Loftkastalinn öðru nafni, sýnir að vanda ný verk á leikárinu en tekur einnig upp verk frá fyrra ári. Aðrar uppákomur eru boðaðar. Svik (Betrayal) eftir Harold Pinter verður frumsýnt í október. Verkið er eitt vinsælasta verk hins kunna breska höfundar, en hefur ekki verið sýnt áður á Íslandi. Gunnar Þorsteinsson þýðir Svik og leikstjóri er Baltasar Kormákur.
Loftkastalinn flýgur milli landshluta Vinsældir og menningarverðmæti

FLUGFÉLAGIÐ Loftur, Loftkastalinn öðru nafni, sýnir að vanda ný verk á leikárinu en tekur einnig upp verk frá fyrra ári. Aðrar uppákomur eru boðaðar.

Svik (Betrayal) eftir Harold Pinter verður frumsýnt í október. Verkið er eitt vinsælasta verk hins kunna breska höfundar, en hefur ekki verið sýnt áður á Íslandi. Gunnar Þorsteinsson þýðir Svik og leikstjóri er Baltasar Kormákur.

Hattur og Fattur, nýtt íslenskt barnaleikrit eftir Ólaf Hauk Símonarson í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar, verður frumsýnt um áramót. Hattur og Fattur eru persónur sem margir þekkja og eru mörg vinsæl barnalög tengd þeim, m.a. sungin á barnaheimilum landsins. Ólafur Haukur leiðir nú fram þessar persónur eftir fimmtán ára fjarveru.

Mýs og menn, hið klassíska verk Johns Steinbecks, er í leikstjórn Guðjóns Pedersen. Verkið var sett síðast á svið fyrir tuttugu árum. Með hlutverk þeirra Georgs og Lennys fara þeir Hilmir Snær Guðnason og Jóhann Sigurðarson. Þetta verður jólafrumsýning Loftkastalans.

Hart barist

Rent er nýr bandarískur söngleikur eftir Jonathan Larson. Leikurinn verður í nýjum sal við Loftkastalann í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Karl Ágúst Úlfsson þýðir, leikstjóri er Baltasar Kormákur og tónlistarstjóri er Jón Ólafsson. Söngleikurinn var frumsýndur í New York 1995 og er lauslega byggður á óperu Puccinis La Boheme. Rent segir frá "ungu fólki sem berst við að njóta lífsins í hörðum heimi eiturlyfja og á tímum alnæmis. Þátttakendur í söngleiknum verða flestir af fremstu leikhúslistamönnum þjóðarinnar og aldrei að vita nema einhverjar nýjar stjörnur komi fram á sjónarsviðið," segir í kynningu. Frumsýnt verður í mars.

Bjallan er nýtt verk eftir Ólaf Hauk Símonarson sem stendur til að frumsýna á Renniverkstæðinu á Akureyri samhliða því að frumsýna það í Loftkastalnum í samstarfi við Renniverkstæðið. Frumsýning er áætluð í lok ársins eða byrjun þess næsta.

Um mánaðamótin september- október mun þekktur spænskur flamencohópur verða með nokkrar sýningar í Loftkastalanum. Í hópnum verður einn efnilegasti flamencodansari Spánverja, sígauninn Jairo sem er einungis sextán ára að aldri og talið er að muni jafnvel bráðlega skyggja á skærustu stjörnu flamencodansins, Joachim Cortes.

Verk sem tekin verða upp frá fyrra ári eru Bugsy Malone eftir Alan Parker, Fjögur hjörtu Ólafs Jóhanns Ólafssonar og Listaverkið eftir Yasmina Reza.

Eins og undanfarin ár verður Loftkastalinn vettvangur alls kyns listviðburða. Í anddyrinu er Gallerí Loftkastalans þar sem myndlistarmaðurinn Arnór Bieldfeldt sýnir nú, en í næsta mánuði verður kynnt rússnesk myndlist.

Breið stefna

Að sögn Baltasars Kormáks er stefna Loftkastalans metnaðarfull. Hún á að vera sem breiðust, höfða í senn til fjöldans og hafa menningarlegt gildi. Hann minnti á að fengnir hefðu verið til samstarfs sumir af bestu leikurum landsins eins og til dæmis Hilmir Snær og Jóhann Sigurðarson í Músum og mönnum og í Svikum Guðrún Gísladóttir, Hjalti Rögnvaldsson og Jóhann Sigurðarson.

Baltasar Kormákur nefndi að Bjallan yrði frumsýnd samtímis á Akureyri og í Reykjavík, leikarar flygju á milli. Leitað hefði verið eftir samstarfi við Akureyrarbæ.

Á sama tíma að ári verður sýnt í Vestmannaeyjum, enda hefur það "slegið rækilega í gegn" að sögn Baltasars Kormáks. Önnur verk hafi verið sýnd á nokkrum stöðum í einu þannig að Loftkastalinn sé "eiginlega sannkallað þjóðleikhús".

Hvað er það sem greinir Loftkastalann frá öðrum leikhúsum?

"Þetta er einkarekið fyrirtæki með þá stefnu að setja upp vinsælar sýningar og skilja eftir sig menningarverðmæti. Við höfum leitað til fyrirtækja um stuðning og verið vel tekið, en lítið sem ekkert fengið frá ríki og borg þrátt fyrir mikinn áhorfendafjölda. Við viljum hafa sem ódýrasta miða en stöndum illa að vígi í samkeppni við þá sem undirbjóða miðaverð á þegar niðurgreiddum miðum. Okkur finnst tími til kominn að okkur verði sýnd verðskulduð athygli opinberra aðila."

ÞRJÓTARNIR úr söngleiknum Bugsy Malone sem Loftkastalinn tekur upp frá fyrra ári.

FJÖGUR hjörtu. "Metnaður Loftkastalans er að fá ætíð bestu leikhúslistamennina hverju sinni," segir Baltasar Kormákur.