FLEIRI fíkniefnamál hafa komið til kasta rannsóknarlögreglunnar í Hafnarfirði á þessu ári en undanförnum árum, að sögn Eðvarðs Ólafssonar, fulltrúa lögreglunnar. Nýverið hefur lögreglan haft hendur í hári sölumanna í bænum. Magnús Jón Árnason, yfirkennari í Víðistaðaskóla, vakti athygli á þessari þróun á fundi með foreldrum nemenda í 9. og 10. bekk og hvatti þá til að vera á varðbergi.

Fíkniefnamálum

í Hafnarfirði

fer fjölgandi Yfirkennari Víðistaðaskóla hvetur foreldra barna í efstu bekkjum grunnskólans til árvekni

FLEIRI fíkniefnamál hafa komið til kasta rannsóknarlögreglunnar í Hafnarfirði á þessu ári en undanförnum árum, að sögn Eðvarðs Ólafssonar, fulltrúa lögreglunnar. Nýverið hefur lögreglan haft hendur í hári sölumanna í bænum. Magnús Jón Árnason, yfirkennari í Víðistaðaskóla, vakti athygli á þessari þróun á fundi með foreldrum nemenda í 9. og 10. bekk og hvatti þá til að vera á varðbergi. Eðvarð sagði ákaflega auðvelt virtist að nálgast fíkniefni þrátt fyrir auknar aðgerðir lögreglu. Neytendur væru á öllum aldri en þó að mestu leyti ungt fólk. Sýnilegt væri að aldur neytenda væri að færast neðar og því væri sjálfsagt fyrir foreldra grunnskólabarna að vera á verði. Segir 14­16 ára unglinga vera í stórhættu vegna ágangs sölumanna

Eðvarð sagði að flestir neytendanna, sem lögreglan hefði þurft að hafa afskipti af, væru í kringum tvítugt. Aldurinn væri þó að færast neðar og hann sagði 14­16 ára unglinga í stórhættu. Hann sagði og sölumennina nú orðið einskis svífast. Þeir otuðu efnunum að unglingunum og leituðu uppi þá sem líklegastir væru til að láta freistast. "Við höfum haft ansi mörg mál til meðferðar. Það eru aðallega hass og amfetamín sem koma við sögu. Þetta er mikill ófögnuður og hrikalegt til þess að vita að ungt fólk skuli fara út í fikt, sem oft veldur því að menn ánetjist efnunum, því öllum ætti að vera ljós skaðinn af fíkniefnum," sagði Eðvarð. Enginn veit hvar fíkniefnavandinn slær sér niður "Í ljósi upplýsinga sem ég hafði fengið bæði hjá lögreglunni og félagsmálayfirvöldum í bænum fannst mér ástæða til að vekja athygli foreldra á vandanum og fá þá til samstarfs um að reyna að sporna við þessum ófögnuði sem er sagður fljóta um bæinn," sagði Magnús Jón Árnason, yfirkennari í Víðistaðaskóla, við Fréttavef Morgunblaðsins. "Það er afar brýnt að allir haldi vöku sinni, lögreglan, félagsmálayfirvöld, skólarnir og foreldrar og leggist á eitt um að vinna gegn þessari vá. Það veit enginn hvar hún slær niður," sagði Magnús Jón. Trúnaður á ýmsum stigum getur tafið varnarbaráttu Hann sagði trúnað á ýmsum sviðum, bæði hvað lögreglu, félagsmálayfirvöld og skóla varðar, flækja baráttuna gegn fíkniefnum. Vegna þessa trúnaðar bærust upplýsingar treglega eða alls ekki milli aðila. Þá sagði Magnús kennara standa frammi fyrir þeim vanda og þeirri samviskuspurningu hversu mikinn trúnað þeir ættu að sýna ef nemendur kæmu að máli við þá og vildu skýra frá fíkniefnanotkun. "Segi ég þeim að ég vilji fara með málið alla leið er hættan sú að þeir fari í baklás og vilji ekki upplýsa neitt. Oft getur verið um kjaftasögur að ræða. En spurningin er hversu mikinn trúnað við kennarar eigum að veita í svona málum. Þetta er alveg nýtt fyrir okkur," sagði Magnús.