ÁHERSLUR eru að breytast í heilbrigðismálum. Áður skipti mestu máli að lækna sjúkdóma en núna er hvers konar upplýsinga- og forvarnarstarf að verða mikilvægari þáttur í heilbrigði. Hlutverk félagasamtaka verður þýðingarmeira. Á Íslandi hefur t.d. SÁÁ lyft grettistaki varðandi áfengis- og fíkniefnasýki og sá árangur sem Krabbameinsfélag Íslands hefur náð á sínu sviði er ómetanlegur.
Hvað geri ég fyrir mig? Heilbrigði er einn veigamesti þáttur lífsgæðanna og það er einstaklingurinn sjálfur sem mestu getur ráðið um heilsu sína, segir Skúli Thoroddsen í greinaflokki um karla og krabbamein. ÁHERSLUR eru að breytast í heilbrigðismálum. Áður skipti mestu máli að lækna sjúkdóma en núna er hvers konar upplýsinga- og forvarnarstarf að verða mikilvægari þáttur í heilbrigði. Hlutverk félagasamtaka verður þýðingarmeira. Á Íslandi hefur t.d. SÁÁ lyft grettistaki varðandi áfengis- og fíkniefnasýki og sá árangur sem Krabbameinsfélag Íslands hefur náð á sínu sviði er ómetanlegur. Heilbrigði er einn veigamesti þáttur lífsgæðanna og þegar öllu er á botninn hvolft er það einstaklingurinn sjálfur sem mestu getur ráðið um heilsu sína, hafi hann til þess þekkingu, þroska og vit. Heilbrigðiskerfið mun verða að leggja aukna áherslu á þessa einföldu staðreynd, því auk ávinnings af auknum lífsgæðum er það er líka þjóðhagslega hagkvæmt. Evrópusambandið, ESB, hefur að markmiði í heilbrigðismálum að ná árangri til verndar heilbrigði Evrópubúa. ESB vill efla samstarf aðildarþjóðanna og eftir atvikum styðja aðgerðir gegn sjúkdómum og helstu sjúkdómsvöldum með því að efla rannsókir um ástæður þeirra og útbreiðslu. En einnig með því að koma upplýsingum á framfæri til fólks um það hvernig koma megi í veg fyrir tiltekna sjúkdóma eða minnka líkur á að þeir nái að festa rætur. Um þessar mundir er ESB að ganga frá áætlun um varnir gegn sjúkdómum af völdum mengunar, en áður hafa verið samþykktar áætlanir um baráttu gegn eiturlyfjum, gegn eyðni, um heilsueflingu, um rannsóknir á sjaldgæfum sjúkdómum og um krabbamein. Ísland hefur tekið þátt í sumum þessara verkefna og vonir standa til að samstarfið við ESB eflist á komandi árum, en sem kunnugt er þekkja sjúkdómar ekki landamæri frekar en vindurinn sem blæs. Á hverju ári, í október, hefur ESB staðið fyrir svonefndri "Evrópuviku gegn krabbameini". Í fyrra var vikan helguð konum og krabbameini en í ár tengist vikan upplýsingaátaki fyrir karlmenn um þær krabbameinstegundir sem frekar herja á þá. Á næsta ári er gert ráð fyrir sérstöku tóbaksvarnarátaki, en sem kunnugt er eru tóbaksreykingar einn meginkrabbameinsvaldurinn, þótt fleiri þættir komi vissulega til. Krabbamein er sjúkdómur sem í mörgum tilvikum má koma í veg fyrir eða minnka verulega líkurnar á að hann þróist hjá einstaklingi. ESB hefur gefið út tíu einföld ráð sem unnt er að tileinka sér í þessum tilgangi, en þau eru; 1) að reykja ekki og forðumst reyk frá öðrum, 2) takmörkum neyslu áfengra drykkja, 3) auka neyslu ferskra ávaxta og grænmetis og trefjaríkrar fæðu, 4) forðast ofþyngd og mikilvægt er að hreyfa sig reglulega, 5) vörumst óhófleg sólböð, 6) fylgja reglum um meðferð krabbameinsvaldandi efna, 7) leita strax til læknis verði maður var við hnúð eða sár sem ekki grær eða fæðingarblett sem breytir lit, 8) leita til læknis vegna stöðugs hósta eða hæsis, breytinga á þvag- eða hægðavenjum eða vegna óvæntra þyngdarbreytinga, 9) konur fari reglulega í leghálsskoðun, 10) konur skoði brjóst sín vel og fari reglulega í brjóstamyndatöku. ESB leggur með þessum einföldu ráðum áherslu á einstaklingsbundnar forvarnir gegn krabbameini. Sambandið styður einnig við bakið á aðildarlöndunum með fjármögnun verkefna í því skyni að efla vitund almennings. Heilbrigðisráðuneytið og Krabbameinsfélag Ísland taka nú í annað sinn þátt í "Evrópuviku gegn krabbameini". Höfundur er lögfræðingur og starfar sem sérfræðingur hjá framkvæmdastjórn ESB að heilbrigðismálum. Skúli Thoroddsen