JEVGENÍ Prímakov, forsætisráðherra Rússlands, hvatti almenning í Rússlandi í gær til að sýna stillingu en í dag hafa verkalýðsfélög og kommúnistar boðað til verkfalla sem þau spá að verði þau mestu frá því Sovétríkin liðu undir lok. Aðrir drógu það í efa í gær og bentu á, að verkalýðshreyfingin í Rússlandi væri mjög veik og ekki líkleg til stórræðanna.
Verkföll og mótmælaaðgerðir boðaðar um allt Rússland í dag

Prímakov hvetur fólk

til að sýna stillingu

Moskvu. Reuters.

JEVGENÍ Prímakov, forsætisráðherra Rússlands, hvatti almenning í Rússlandi í gær til að sýna stillingu en í dag hafa verkalýðsfélög og kommúnistar boðað til verkfalla sem þau spá að verði þau mestu frá því Sovétríkin liðu undir lok. Aðrir drógu það í efa í gær og bentu á, að verkalýðshreyfingin í Rússlandi væri mjög veik og ekki líkleg til stórræðanna.

Sagðist Prímakov skilja vel að margir þeirra sem hygðust taka þátt í mótmælunum hafa fyllstu ástæðu til að vera óánægðir. Hann biðlaði hins vegar til fólks að sýna stillingu því ekki þyrfti miklar gárur á hafinu til að sigla rússnesku þjóðarskútunni í kaf. Hét Prímakov því jafnframt að laun fólks yrðu greidd, og það fyrr en síðar, og sagði efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar í burðarliðnum.

Alexei Súríkov, varaformaður Sambands sjálfstæðra verkalýðsfélaga, sagði fyrr í gær, að 28 milljónir manna að minnsta kosti myndu leggja niður vinnu til að mótmæla ringulreiðinni og skortinum í landinu. Launin, jafnvel þegar þau fást greidd á annað borð, eru orðin lítils virði en meginkrafa verkalýðsfélaganna er samt, að útistandandi laun, um 330 milljarðar ísl. kr., verði greidd án tafar. Auk þess verða hafðar uppi kröfur um að Borís Jeltsín forseti segi af sér.

Búist var við, að fjölmennustu mótmæli yrðu í Moskvu og Pétursborg en þátttakan er þó talin munu fara mikið eftir veðri. Var spáin ekki sem best.