FRAMKVÆMDIR standa nú yfir á vegum Rarik við lagningu háspennustrengs í Mývatn um Kálfastrandavoga, frá Höfða að Garði, sem mun leysa af hólmi loftlínuna sem þar liggur. Háspennustrengurinn sem er 12 kV, 3×25 q verður alls um 3,8 km að lengd og þar af eru um 2,8 km í vatninu.
Háspennulína í Mývatnssveit færð til Strengur lagður í Mývatn

á löngum kafla

FRAMKVÆMDIR standa nú yfir á vegum Rarik við lagningu háspennustrengs í Mývatn um Kálfastrandavoga, frá Höfða að Garði, sem mun leysa af hólmi loftlínuna sem þar liggur. Háspennustrengurinn sem er 12 kV, 3×25 q verður alls um 3,8 km að lengd og þar af eru um 2,8 km í vatninu.

Tryggvi Þór Haraldsson, umdæmisstjóri Rarik á Norðurlandi eystra, sagði að í kjölfar þess að nýr vegur var lagður um Kálfastrandavoga sé háspennulínan sem þar liggur og komin er til ára sinna, nú mjög nærri veginum. "Auk þess liggur línan ofan í einni af helstu náttúruperlum landsins og hafa heimamenn ítrekað óskað eftir því að hún verði færð. Með tilliti til aldurs línunnar var ákveðið að endurnýja hana með strenglögn sem lögð er að mestu í vatnið," sagði Tryggvi Þór.

Að norðanverðu tengist strengurinn í línu rétt norðan við Höfða, austan vegar. Strengurinn þverar veginn rétt sunnan Höfða og fer þar í vatnið. Hann liggur í vatninu suður að eiðinu yfir Kálfaströnd þar sem hann er tekinn upp. Þaðan er strengurinn plægður vestur fyrir Belgjarnes og aftur út í vatnið og liggur hann í vatni alveg suður undir Garð. Þar er strengurinn tekinn upp og tengist háspennulínunni aftur.

Strengurinn ekki áberandi sjáanlegur

Tryggvi Þór sagði að ný spennistöð væri sett upp fyrir Höfða og lágspennustrengur settur í stað línu. Einnig er ný spennistöð sett upp fyrir Kálfaströnd og lágspennustrengur lagður í vatnið en álman þangað felld niður. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður um 7,4 milljónir króna.

Tryggvi Þór sagði að tímasetning framkvæmdanna hefði verið valin nú í október að höfðu samráði við sveitarstjórn Skútustaðahrepps, landeigendur og Náttúruvernd ríkisins. Fulltrúi frá Náttúruvernd ríkisins hefur veitt ráðleggingar og haft eftirlit með lögninni. Að sögn Tryggva Þórs er ekki gert ráð fyrir að strengurinn valdi röskun við vatnið eða að hann verði áberandi sjáanlegur þar sem hann liggur í vatninu.

Morgunblaðið/Kristján STARFSMENN Rarik, þeir Gunnlaugur Gunnlaugsson, Helgi Jónsson og Ásbjörn Gíslason, vinna við að tengja háspennustrenginn saman á pramma úti á Mývatni, við Kálfaströnd.ÞESSI háspennulína, sem liggur að Höfða, mun brátt heyra sögunni til, þar sem nýr strengur hefur verið lagður í vatnið á þessum slóðum.