"ÞESSI fundur einkenndist mjög af umræðum um ástandið vegna efnahagskreppunnar í Asíu og þeim afleiðingum sem hún getur haft fyrir heiminn allan," sagði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra eftir fund sem hann sat í fyrradag hjá þróunarnefnd Alþjóðabankans.
Rætt um kreppuna í Asíu á fundi þróunarnefndar Alþjóðabankans

Tugmilljóna fjölgun íbúa undir fátæktarmörkum

"ÞESSI fundur einkenndist mjög af umræðum um ástandið vegna efnahagskreppunnar í Asíu og þeim afleiðingum sem hún getur haft fyrir heiminn allan," sagði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra eftir fund sem hann sat í fyrradag hjá þróunarnefnd Alþjóðabankans.

Utanríkisráðherra situr í þróunarnefnd Alþjóðabankans sem fulltrúi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. "Þarna var aðallega rætt um kreppuna í Asíu og hættuna á því að hún berist til Suður-Ameríku ekki síst vegna ástandsins í Rússlandi. Kreppan í Asíu hefur haft gífurleg áhrif og talið er að þeim hafi fjölgað úr 40 milljónum í 90 milljónir, sem búa undir fátæktarmörkum þar, á tiltölulega stuttum tíma. Fundurinn er mjög upptekinn af þessum málum," sagði utanríkisráðherra.

Hann minnti á að miklar framfarir hefðu orðið víða í Asíu og vonir bundnar við að alþjóðasamfélagið gæti snúið sér af meiri krafti að því að aðstoða í öðrum heimshlutum. "Nú lítur hins vegar allt út fyrir að styrkja þurfi stofnanir í Asíu verulega til að ráða við mál sín því ef kreppan í Asíu heldur áfram getur það orsakað kreppu í öllum heiminum. Hins vegar eru flestir sammála um að hægt sé að koma í veg fyrir það ef gripið er til nauðsynlegra ráða," sagði Halldór Ásgrímsson en sagði jafnframt að svo virtist sem erfitt væri hjá þjóðum heims að ná samkomulagi um meiri fjárframlög til þessara mála.

Utanríkisráðherra nefndi sem dæmi í þessu sambandi að þegar til umræðu var áætlun um skuldbreytingu fátækustu þjóða heims fyrir nokkrum árum, sem tvö ríki hafa þegar gengið í gegnum og fimm til viðbótar eru að undirbúa, hafi Norðurlöndin lagt fram 40% fjármagns í sérstakan sjóð í því skyni. Norðurlöndin eigi hins vegar aðeins 3% hlutabréfa í Alþjóðabankanum.