MEIRA en 1,2 milljónir Norðmanna hyggjast taka þátt í allsherjarverkfalli í næstu viku til að mótmæla fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Kjells Magne Bondeviks sem lagt var fram á mánudag. Munu Norðmenn hvarvetna leggja niður störf í tvo tíma fimmtudaginn 15. október og er þetta umfangsmesta vinnustöðvun í Noregi ef frá eru talin verkföll launþegasamtakanna.
Andstaða við norska fjárlagafrumvarpið Allsherjarverkfall skipulagt

Ósló. Morgunblaðið.

MEIRA en 1,2 milljónir Norðmanna hyggjast taka þátt í allsherjarverkfalli í næstu viku til að mótmæla fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Kjells Magne Bondeviks sem lagt var fram á mánudag. Munu Norðmenn hvarvetna leggja niður störf í tvo tíma fimmtudaginn 15. október og er þetta umfangsmesta vinnustöðvun í Noregi ef frá eru talin verkföll launþegasamtakanna.

Ástæða verkfallsins er sú að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir afnámi opinbers frídags og þótt ekki sé tiltekið hvaða frídagur verði afnuminn er talið líklegt að annar í hvítasunnu gæti orðið fyrir valinu. Fjárlagafrumvarpið felur að öðru leyti í sér mikla lækkun ríkisútgjalda en stjórn Bondeviks hyggst einnig hækka skatta og ýmis gjöld. Hefur stjórnarandstaðan þegar lýst mikilli óánægju með frumvarpið.