HÖFUM við komið okkur upp ókind sem við ráðum ekki lengur við? Þetta hvarflaði að mér þegar ég las athugasemdir fyrrverandi orkumálastjóra við grein um orkumál á Íslandi. Þar segir hann orðrétt: "Alþingi getur að sjálfsögðu afturkallað virkjunarleyfið fyrir Fljótsdalsvirkjun en kynni það ekki að baka ríkissjóði skaðabótaskyldu gagnvart Landsvirkjun er næmi a.m.k.
Stíflugerðarmenn og stóriðjublinda

Það á enginn maður að hafa leyfi til að snerta við þessu landi, segir Páll Steingrímsson. Það væri ófyrirgefanlegur glæpur.

HÖFUM við komið okkur upp ókind sem við ráðum ekki lengur við? Þetta hvarflaði að mér þegar ég las athugasemdir fyrrverandi orkumálastjóra við grein um orkumál á Íslandi. Þar segir hann orðrétt: "Alþingi getur að sjálfsögðu afturkallað virkjunarleyfið fyrir Fljótsdalsvirkjun en kynni það ekki að baka ríkissjóði skaðabótaskyldu gagnvart Landsvirkjun er næmi a.m.k. verulegum hluta þessara 2­3 milljarða, eða jafnvel enn hærri fjárhæðum?" (Mbl. 29. júlí sl.) Fyrir utan það hvað hér er um óskýrar stærðir að ræða kom mér spánskt fyrir sjónir að ríkið væri skaðabótaskylt gagnvart sjálfu sér.

Fjárveitingar til Landsvirkjunar eru af ríkisfé þ.e.a.s. veltufé af allri raforkusölu í landinu. Erlend lán sem stjórn Landsvirkjunar fær heimildir til að taka eru tryggð af ríkissjóði. Hvaða rétt hefur Landsvirkjun til skaðabóta gagnvart þeim sem standa undir framkvæmdum hennar? Hefur Landsvirkjun komið sér í þá sérstöðu að geta vasast með ríkisfé að vild og geta að auki krafist bóta ef hugmyndir annarra fara í berhögg við vanhugsaðar framkvæmdir? Hvers konar Vatikan er Landsvirkjun að verða?

Umræddir 2­3 milljarðar sem Landsvirkjun gæti tapað er fé sem þegar hefur verið varið til svokallaðrar hönnunar og undirbúnings vegna Fljótsdalsvirkjunar. Þrír milljarðar hljóma í eyrum sem ómælanleg stærð. Það er þó ekki andvirði nema hálfra Hvalfjarðarganga sem menn spiluðu nótnalaust af fingrum fram á mettíma.

Á síðastliðnum 20 árum hefur Landsvirkjun leikið sér með rúmlega 78 milljarða, 2­3 milljarðar eru því aðeins dropi í hafið. Ef það breytti einhverju mundi ég með glöðu geði leggja 1/3 launa minna til æviloka í sjóð sem yrði til þess að hlífa íslenskum vinjum fyrir stóriðjuvirkjunum. Á þessa yfirlýsingu mega skattstjóri og fjármálaráðherra minna mig hvenær sem er.

Eru þeir líka laglausir?

Öðru hvoru koma upp raddir um að við ættum að fara varlegar í sakirnar. Vatnsorka og virkjunarmöguleikar séu ekki ótæmandi og að þau svæði sem koma til greina fyrir virkjanir hafi kannski annað gildi sem rétt sé að meta áður en í óefni er komið. Athugasemdir í þessa átt koma frá almenningi og vísindamönnum.

Þeir sem hins vegar sitja í umboði þjóðarinnar virðast allir einu marki brenndir. Þingmenn sem einhverra hluta vegna eru knúnir til að tjá sig um gerðir tengdar virkjunarmálum, ýmist þora ekki eða vilja ekki tjá sig af ótta við að styggja kjósendur. Ráðherrarnir sem málefni Landsvirkjunar heyra undir stýra einir öllum gerðum. Fyrir þeim eru virkjunarmál trúmál þar sem tilgangurinn einn helgar meðalið.

Það er ekkert skrítið að í forsvar fyrir Landsvirkjun veljist menn sem eru dofnir fyrir náttúrufegurð og auðlegð sem liggur í óspilltu landi. Jafnvel ónæmir á perlur sem Ísland skartar. Þeir tengjast flestir verkfræði, tæknifræði eða fjármálaumsvifum. Það eru þeirra ær og kýr og engum er allt gefið. Því miður er það þannig að þeir sem ráða ferðinni í virkjunarmálum virðast litblindir og formskynslausir. Þeir geta allt eins líka verið laglausir.

Þar sem velta er svo stór og raun er á hjá Landsvirkjun verða eldhugarnir ofan á. Þeir sjást aldrei fyrir og knésetja viðstöðulítið alla sem í vegi standa. Það styrkir líka stöðu þeirra þegar ráðherrar iðnaðar-, fjármála- og umhverfismála gerast já-bræður þeirra í einu og öllu. Það er engu líkara en þeir séu klónaðir fyrir Landsvirkjun.

Lengi átti maður von á að einhver þingmanna þjóðarinnar hreyfði andmælum þegar um svo stórfelld náttúruspjöll er að ræða sem fyrirhugaðar stórvirkjanirnar munu valda. Það var því gleðiefni þegar Morgunblaðið birti nýverið pistil eftir Hjörleif Guttormsson þar sem hann hvetur til endurskoðunar á orkumálum í landinu og bendir á í hvert óefni stefnir. En mikið væri óskandi að fleiri þingmenn rumskuðu.

Ófreskja sem gleypir gullin

Það eru einkum tvö hálendissvæði sem ég þekki, sem mér finnst glæpur að hrófla við. Það eru Þjórsárverin og Eyjabakkar norðan Vatnajökuls. Ég kynntist umræddum landssvæðum við kvikmyndagerð og þekki þau allnáið.

Í Þjórsárverum er afar sérstætt gróðurlendi. Þar verpir líka fjórði hluti allra heiðargæsa í heiminum. Um Eyjabakkana er svipaða sögu að segja. Þar eru mikilvæg beitilönd íslenska hreindýrastofnsins á sumrin og uppeldissvæði kálfanna. Á fellitíma eru þarna líka um 10.000 ófleygar heiðargæsir sem lifa á gróðrinum milli árkvíslanna. Sjálfsagt hefur þetta verið svona lengi, en það er ekki langt síðan menn uppgötvuðu hvílík mergð er þarna af fugli, sem á allt sitt undir svæðinu sem stefnt er að að sökkva. Það á enginn maður að hafa leyfi til að snerta við þessu landi. Það væri ófyrirgefanlegur glæpur sem allir Íslendingar með glóru í höfðinu verða að bindast samtökum um að fyrirbyggja.

Alltaf er verið að staglast á arðsemi virkjana og raforkuframleiðslu, en ég held að í minni lífstíð hafi enginn baggi verið ríkissjóði þyngri en einmitt erlendar skuldir þar sem lán til virkjanaframkvæmda vógu hvað þyngst. Raforkuverð til almennings er hvergi hærra á Norðurlöndum en hér hjá okkur, ekki einu sinni í Danmörku. Orkan, sem hér er keppst við að virkja til stóriðju, er seld á undirverði sem enginn Íslendingur fær notið. Áhugi erlendra milljarðamæringa byggist á því. Í þeirra augum er Ísland þróunarland sem sjálfsagt er að mjólka meðan stjórnvöld í landinu eru svo skammsýn að vilja fórna öllu til að koma á og viðhalda þessum viðskiptum. Jafnvel að leiða útsölurafmagn um sæstreng til Evrópu ef þannig tækist að losna við það.

Eftir því sem ég kemst næst er fjárhagslegur ávinningur af vatnsvirkjunum mjög umdeildur. Ég mundi allavega taka með fyrirvara fullyrðingum sem kæmu frá Norsk Hydro. Fyrir þá er ávinningurinn augljós. Lægsta verð og bestu kjör sem bjóðast í heiminum. En erum við skyldug til að leggja þeim þetta upp í hendurnar og fórna til þess einu því dýrmætasta sem landið skartar? Af hverju virkja þessir menn ekki heima hjá sér? Það væri fróðlegt að vita.

Mér finnst alltaf að gagnvart okkur Íslendingum leiki Norðmenn tveim skjöldum. "Litli frændi" er um margt uppátektarsamur og jafnvel skemmtilegur, en það verður að hafa á honum mátulegt taumhald, annars er hann vís með að eigna sér allt sem Norðmönnum er kærast, hvort sem um er að ræða andleg eða veraldleg verðmæti. Og þessir "Grikkir norðursins" plata okkur alltaf í viðskiptum.

Alþingi á formálalaust að afturkalla virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Fljótsdalsvirkjun. Virkjunin væri glapræði. Við verðum að ná tökum á ófreskjunni áður en hún gleypir gullin okkar. Íslendingar gætu allt eins vel búið við hamingju á þessari merkilegu eyju í önnur þúsund ár. En það gera þeir ekki ef við lógum landinu.

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.

Páll Steingrímsson

Ljósmynd/Sigurgeir Sigurjónsson Heiðargæsir