Björn Bjarnason menntamálaráðherra afhjúpar afsteypu af styttu Einars Jónssonar Charcots og Pourquoi pas? minnst í Saint-Malo Björn Bjarnason menntamálaráðherra afhenti um helgina afsteypu af styttu eftir Einar Jónsson til minningar um franska rannsóknarskipið Pourquoi Pas? í borginni Saint-Malo í Frakklandi.
Björn Bjarnason menntamálaráðherra afhjúpar afsteypu af styttu Einars Jónssonar

Charcots og

Pourquoi pas?

minnst í

Saint-Malo

Björn Bjarnason menntamálaráðherra afhenti um helgina afsteypu af styttu eftir Einar Jónsson til minningar um franska rannsóknarskipið Pourquoi Pas? í borginni Saint-Malo í Frakklandi. Margrét Elísabet Ólafsdóttir fylgdist með afhendingunni.

Saint-Malo. Morgunblaðið.

BJÖRN Bjarnason menntamálaráðherra afhenti á laugardag bretónsku borginni Saint-Malo í Frakklandi að gjöf, frá ríkisstjórn Íslands, afsteypu í bronsi af styttu Einars Jónssonar, til minningar um Charcot skipherra og áhöfnina af rannsóknarskipinu Pourquoi pas? Í tilefni af viðtöku gjafarinnar efndi borgarstjóri Saint-Malo og þingmaðurinn René Couanau til móttöku fyrir ráðherrann, sendiherra Íslands í París, Sverri Hauk Gunnlaugsson, Hrafnhildi Schram, forstöðumann Listasafns Einars Jónssonar, og konsúl Íslands í Caen, Steinunni Filippusdóttur Le Breton.

Dagskrá dagsins hófst með hátíðlegri messu í kirkju Saint-Croix þar sem sonur skipstjórans á Pourquoi pas?, Alexis Le Conniat prestur í Saint-Brieuc, aðstoðaði við messugjörðina. Kirkjan er skammt frá lítill vík, í bæjarhlutanum Saint- Severin, þar sem afsteypunni var valinn staður. Dótturdóttir Charcots, frú Vallin-Charcot, hafði hönd í bagga með að ákveða staðsetninguna. Hún valdi þessa vík inn af Rance-firði, með tilliti til þess að handan hans stendur húsið sem afi hennar bjó í. Styttan vísar í átt til hússins og um leið í norður, til Íslands. Eftir messu gengu boðsgestir að staðnum, sem er fyrir neðan veginn að Solidor, varðturni frá 14. öld. Við endann á litlum blómagarði, sem kúrir milli vegarins og víkurinnar, þar sem litlir bátar vagga í sjónum, beið styttan undir fána borgarinnar eftir því að verða afhjúpuð. Nokkur mannfjöldi hafði þegar safnast þar saman og út um glugga í nálægum húsum gægðust höfuð forvitinna íbúa.

Á heimaslóð Pourquoi pas?

Sjálf athöfnin hófst með inngöngu sjóliða, sem stilltu sér upp í heiðursvörð við enda garðsins. Síðan afhjúpaði Björn Bjarnason styttuna og tók við fána Saint-Malo frá borgarstjóranum. Styttan er táknræn og sýnir stóran verndarengil sem gnæfir yfir hóp smávaxinna manna. Þeir virðast stefna í átt til himins undir leiðsögn engilsins og rísa upp eins og stafn á skipi. Í ávarpi sínu á eftir sagði ráðherrann frá hinu "ljóðræna myndskáldi", myndhöggvaranum Einari Jónssyni, sem gerði styttuna skömmu eftir að Pourquoi pas? fórst í Straumfirði 16. september 1936 með nær allri áhöfn; aðeins einn maður komst lífs af. Ráðherrann þakkaði einnig Vallin-Charcot, fyrir að leggja sitt af mörkum til að afsteypan og áletruð steinhellan sem hún stendur á, kæmust til Saint- Malo, þaðan sem Pourquoi pas? lagði úr höfn í rannsóknarferðir sínar. Vallin-Charcot gat sjálf ekki verið viðstödd athöfnina. Fyrir hennar hönd var á staðnum fjölskylduvinurinn doktor Vogel, sonur Vogels skipstjóra, góðvinar Charcots. Fyrir tilviljun áttu þeir sinn síðasta samfund í Reykjavík aðeins nokkrum dögum áður en Pourquoi pas? fórst.

Eftir ávarp borgarstjórans og þingmannsins René Couanau, fengu viðstaddir tíma til að virða styttuna fyrir sér, þar sem hún stóð umvafin sólargeislum, sem brutust fram úr skýjunum á réttu augnabliki. Í troðningnum sem þá myndast reynir lágvaxinn og fínlegur gamall maður að nálgast Björn Bjarnason. Þetta er Le Conniat prestur. Hann er með í fórum sínum bók, sem hann skrifaði um föður sinn og vill endilega gefa ráðherranum áritað eintak. Annar nákominn ættingi, Henri Juhel, 76 ára sjómaður og frændi Raymond Renault, sjóðliða, sem fórst með Pourquoi pas? aðeins 25 ára, vill fá mynd af sér með ráðherranum. "Ég man vel eftir slysinu og frænda mínum," segir hann. "Hann vildi ekki fara með í þessa ferð, af því hann ætlaði að gifta sig. En Charcot kom og sótti hann."

Áhugi á samskiptum við Ísland

Að athöfninni lokinni er gestum boðið að drekka vinarskál í ráðhúsi Saint-Malo. Þar færir Couanau borgarstjóri menntamálaráðherra og sendiherra Íslands minnispening borgarinnar og bók um Pourquoi pas?, sem Hrafnhildur Schram þiggur einnig að gjöf. Gjafir Íslands til borgarstjórans og fulltrúa menningarmála, Louis Pottier, er bók um Einar Jónsson og hljómdiskur með íslenskum þjóðlögum í flutningi Menntaskólans við Hamrahlíð. Í hádeginu snæddi sextán manna hópur fjögurra rétta sælkeramáltíð í boði borgarinnar á veitingahúsinu Grand Hotel des Thermes við ströndina. Þar lét borgarstjórinn í ljós áhuga á frekari samskiptum við Ísland, ekki síst í tengslum við fiskvinnslu; hann sagðist ekki frábitinn þeirri hugmynd að fá íslensk sjávarútvegsfyrirtæki til Saint Malo. Björn Bjarnason sagðist myndu koma þessum vilja á framfæri við samráðherra sína.

Eftir málsverðinn var farið í heimsókn í sögusafn borgarinnar, sem nýlega áskotnaðist málverk af Charcot. Um leið var tækifærið notað til að skoða sýningu um skipherrann, þar sem meðal annars gefur að líta greinar úr íslenskum dagblöðum af slysinu á Pourquoi pas? Þar er einnig hægt að sjá hve oft Charcot kom til Íslands. Fyrst 1912 og síðan næstum árlega á Pourquoi pas? á árunum 1925 til 1936, á leið í rannsóknarleiðangra til Grænlands og Jan Mayen. "Íslendingar virðast muna vel eftir Charcot og halda nafni hans ekki síður á lofti en Frakkar," segir doktor Vogel undrandi og ánægður. Heimsókninni lauk með sýningu á kvikmynd Kristínar Jóhannesdóttur um strandið, Svo á jörðu, í boði menntamálaráðherra.

HRAFNHILDUR Schram, forstöðumaður Listasafns Einars Jónssonar, Rut Ingólfsdóttir, eiginkona ráðherrans, og Björn Bjarnason menntamálaráðherra, með fána St. Malo borgar í hendinni. Til hægri er sökkull styttunnar eftir Einar Jónsson. Á hann er letrað: Í minningu Charcot skipherra og áhafnar Pourquoi pas? sem fórst 16. september 1936. Gjöf frá íslenska lýðveldinu.