UM ALLAN heim er vaxandi þörf á upplýsingum um land, sem eru grundvöllur fyrir skipulagningu, þróun og stjórnun á gæðum landsins. Það er stöðugt kallað á betri landnýtingu og stjórnun á þróun mála, sem varða land og landnotkun. En hvernig verður skipulagt og stjórnað án þess að hafa nægjanlega þekkingu á og upplýsingar um þann grunn, sem allt byggist á, landið sjálft.
Landupplýsingar og landamerki

Það er mikilvægt, segja Óðinn Elísson og Sigurhjörtur Pálmason, að þeir sem geta haft hagsmuni af glöggum landamerkjum, láti yfirfara þau og hnitsetji með nútímatækni.

UM ALLAN heim er vaxandi þörf á upplýsingum um land, sem eru grundvöllur fyrir skipulagningu, þróun og stjórnun á gæðum landsins. Það er stöðugt kallað á betri landnýtingu og stjórnun á þróun mála, sem varða land og landnotkun.

En hvernig verður skipulagt og stjórnað án þess að hafa nægjanlega þekkingu á og upplýsingar um þann grunn, sem allt byggist á, landið sjálft. Almenn þekking er ekki nægjanleg. Það sem er nauðsynlegt eru upplýsingar í smáatriðum um landnotkun, hver er eigandi landsins, nýting landsins, hver nýtir það, takmörk landsins, kvaðir sem hvíla á landinu, leiguskilmálar o.fl.

Landeignaskrá

Til að varðveita og miðla slíkum upplýsingum eru haldnar svokallaðar landskrár (land records). Uppruna skráningar á landi má rekja langt aftur í tíðina. Til eru heimildir frá Forn-Egyptum um slíkar skrár allt frá 3000 árum f. Kr.

Í skipulags- og byggingarlögum, sem tóku gildi 1. janúar 1998 eru ákvæði þess efnis, að sveitarstjórn getur krafist þess af eigendum landa og jarða, að gerður sé fullnægjandi hnitsettur uppdráttur af nýjum landamerkjum eða lóðamörkum til afnota fyrir landeignaskrá og þinglýsingarstjóra. Skráning landamerkja í landeignaskrá með hnitasetningu er mikil framför og tryggir betur en núgildandi lög um landamerki gera, að mörk, sem landeigendur hafa komið sér saman um, varðveitist og auðvelt sé að endurstaðsetja mörkin, hvenær, sem á því þarf að halda. Það, sem veldur því, að það er í dag orðinn raunhæfur kostur að staðsetja landamerki í viðurkenndu hnitakerfi er fyrst og fremst þær miklu framfarir, sem hafa orðið á allra síðustu árum í gerð landmælingatækja og tilheyrandi hugbúnaði. Þar má fyrst og fremst nefna GPS- mælitæki. Mælingar með þessari aðferð byggjast á staðsetningu út frá gervitunglum og hentar sérstaklega vel á stöðum, sem langt er á milli þekktra fastmerkja, þar sem með venjulegum eldri mælingaaðferðum hefði þurft að framkvæma kostnaðarsamar þéttingar á mælinetinu, áður en hafist yrði handa við mælingar marka.

Lög um landamerki

Eins og áður er getið er skráning lands ævaforn. Hér á landi eru til lagaákvæði um landamerki allt frá þjóðveldisöld. Samkvæmt Grágás var manni skylt að leggja löggarð um land sitt, ásamt þeim, er land átti að því, ef sá krafðist þess, og löggarði var á sama hátt skylt að halda við. En menn þurftu ekki að girða, ef báðir voru sammála að gera það ekki. Þegar land var selt, var seljanda skylt að greina merki og ganga á merki, ef kaupandi krafðist þess. Í Jónsbók eru sömu meginreglur um merkjamál og í Grágás. Þegar sameignarlandi var skipt skyldi, samkvæmt Jónsbók, niðursetja merkjasteina og grafa sem menn urðu ásáttir. En engin önnur trygging en hagsmunir landeigenda var almennt fyrir því. að menn gerðu glögg merki eða héldu landamerkjum vel við. Með landamerkjalögunum 17. mars 1882 var með berum orðum fyrst lögskipað, landeigendur skuli gera merki um lönd sín og halda þeim við, og að gerð skuli landamerkjaskrá fyrir hverja jörð. Tilgangurinn með þessum ákvæðum landamerkjalaganna 1882 var auðvitað sá, að þar með næðist föst og áreiðanleg skipun á þessu málefni, svo ekki yrði eftirleiðis óvissa um landamerki. Sú mun þó ekki hafa orðið raunin.

Með núgildandi landamerkjalögum frá 1919 virðist hafa verið tryggt eins og kostur er, að landeigendur gengu frá landamerkjalýsingum fyrir jörðum sínum og þinglýstu þeim samkvæmt lögunum. En þrátt fyrir það er enn víða óvissa um merki milli landareigna hér á landi.

Hvað er til ráða?

Nú á síðustu árum hafa gengið dómar í Hæstarétti Íslands, þar sem reynt hefur á mörk milli sveitarfélaga og eins mörk milli einstakra landareigna. Með breyttri nýtingu lands, sem orðið hefur á síðustu árum, hefur einnig reynt á atriði, sem áður voru ekki til staðar eins og umferðarrétt og annan afnotarétt sumarbústaðaeigenda. Þegar niðurstaða liggur fyrir í Hæstarétti í landamerkjamáli, má slá því föstu að deiluaðilar hafi lagt í verulegan kostnað. Fullyrða má, að flest þeirra mála er varða landamerki og hafa verið leidd til lykta með atbeina Hæstaréttar hefði mátt koma í veg fyrir, ef landamerkin hefðu verið mörkuð hnitum í viðurkenndu mælikerfi. Oftar en ekki liggja fyrir í deilumálum af þessu tagi ágætar landamerkjalýsingar, en menn eru hins vegar alls ekki sammála um, hvernig þær beri að skilja. Ástæða þess er m. a. að menn greinir á um, hvar tilgreind kennileiti eru, en það getur skipt miklu um hvar mörk liggja. Ástæða þess, að menn greinir á um landamerki er alls ekki alltaf að rekja til þess, að landamerkjalýsingar séu ekki vel gerðar eða greinargóðar. Það, sem skapar vandann, þegar reynir á landamerki er, að þá eru þeir, sem gerðu lýsingarnar löngu fallnir frá og þekking á kennileitum ekki til staðar. Þá er það staðreynd að landið er stöðugum breytingum undirorpið, kennileiti ekki alltaf jafn augljós og ætla mætti af orðalagi sbr. það að stór steinn í árbakka getur 200 árum síðar verið stór steinn á áreyri.

Það er mikilvægt, að sveitarfélög, einstakir landeigendur eða aðrir, sem geta haft hagsmuni af glöggum landamerkjum, geri gangskör að því að yfirfara landamerki og láta hnitsetja þau með nútímatækni. Kostnaður því samfara er tiltöluleg lítill miðað við þann kostnað, sem getur orðið af málaferlum vegna landamerkjadeilna. Það eru gömul sannindi og ný að garður er granna sættir og má með sanni segja, að skýr landamerki séu til þess fallin að koma í veg fyrir deilur. Það er í flestum tilvikum auðveldara að ganga frá landamerkjum áður en til deilna kemur en eftir að þær hafa vaknað. Með breyttum landnotum getur verið brýnt að huga í tíma að skiptingu lands , því bithagi í dag getur orðið eftirsóknarverð sumarhúsabyggð á morgun.

Óðinn Elísson er héraðsdómslögmaður. Sigurhjörtur Pálmason er verkfræðingur.

Óðinn Elísson

Sigurhjörtur Pálmason