Sitthvað bendir til þess að nú sé reynt að blása lífi að nýju í stjórnarfrumvarp til nýrra leiklistarlaga sem dagaði uppi á síðasta þingi vegna þess hversu hörð mótmæli urðu innan leikhúsgeirans um ákveðna þætti þess.
Liggur eitthvað á? "Ef hagsmunir leikhúslistafólks væru hafðir að leiðarljósi ætti Þjóðleikhúsið skilyrðislaust að njóta sérstöðu sinnar"Sitthvað bendir til þess að nú sé reynt að blása lífi að nýju í stjórnarfrumvarp til nýrra leiklistarlaga sem dagaði uppi á síðasta þingi vegna þess hversu hörð mótmæli urðu innan leikhúsgeirans um ákveðna þætti þess. Hvert félagið og samtökin af öðru gekk fram og lýsti frumvarpið nánast ónýtt, sérstaklega var þrennt sem stakk í augu, kaflinn um ráðningartíma Þjóðleikhússtjóra, skipan Þjóðleikhúsráðs og að ekki skyldi minnst á grónar leiklistarstofnanir einsog Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar, Íslensku óperuna, íslenska dansflokkinn að ónefndri áhugaleiklistarhreyfingunni sem á fleiri vegu en einn er grundvöllur þess leiklistarstarfs sem á sér stað í landinu.

Kosturinn við nýja frumvarpið er sagður hversu einfalt og skýrt það er. Í stað tveggja lagabálka áður, (lög um Þjóðleikhús og leiklistarlög) er nú sett á einn stað í knöppum og hnitmiðuðum texta allt það sem skiptir máli, nánari útfærsla og meðferð smáatriða verður í höndum stjórnenda Þjóðleikhússins annars vegar og embættismanna og ráðherra í menntamálaráðuneytinu hins vegar. Rökstuðningurinn að baki þessari einföldun er sá, að óþarft sé að tíunda alla skapaða hluti í lögunum, flest af því sem tínt er til í núgildandi lögum er hvort sem er bara útfærsluatriði í praxís. Eða hvað?

Leiklistarlagafrumvarpið sem lá fyrir í vor hafði á sér afskaplega skýrt yfirbragð. Það var embættismannafrumvarp. Einmitt þess vegna urðu svo mikil mótmæli við frumvarpið, það þjónaði síst hagsmunum þeirra sem það tekur til, leikhúsfólksins. Það er t.a.m. ekki í samræmi við heildarhagsmuni leikhúsfólks að opnað sér fyrir þann möguleika að sami einstaklingur geti gegnt embætti Þjóðleikhússtjóra um aldur og ævi. Listræn stjórnun leikhúss felst að stórum hluta í að velja listamenn til samstarfs. Þar ræður stefna, vilji og smekkur hins listræna stjórnanda. Sitji hann lengur í embætti en 10 ár (sem er núverandi hámark), t.d 15 eða 20 ár, þá hefur stefna hans, vilji og smekkur afgerandi áhrif á persónulegan feril alls fjölda leikhúsfólks. Hugsunin að baki 10 ára hámarksreglunnar er sú að með henni er komið í veg fyrir að ferill einstakra leikhúslistamanna mótist af listrænum smekk tiltekins einstaklings. Afnám þessarar reglu þjónar hins vegar hagsmunum embættismannakerfisins og mun vera í samræmi við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna frá 1996. Ef hagsmunir leikhúslistafólks væru hafðir að leiðarljósi ætti Þjóðleikhúsið skilyrðislaust að njóta sérstöðu sinnar sem ríkisstofnun hvað þetta varðar.

Umræða um þetta mál hefur einnig verið með hálffeimnislegum hætti þar sem svo getur litið út sem þeir er mest tala fyrir takmörkun ráðningartímans séu með því að reyna að tryggja að núverandi Þjóðleikhússtjóri sitji ekki lengur í embætti en út sitt síðara tímabil. Það verður að hafa það, því seint mun sú staða koma upp að enginn gegni embætti Þjóðleikhússtjóra. En menn skyldu heldur ekki gleyma því að reynslan sýnir að leiklistarlögum er ógjarnan breytt oftar en á 20-30 ára fresti.

Nauðsynlegt er einnig að rifja upp í þessu samhengi alla þá orðræðu sem átti sér stað fyrir nokkrum árum um kosti þess að listamenn nytu reglubundins hreyfanleika í starfi. Þar urðu ýmsir sárari en svo að grói og þó ekki væri nema þeirra vegna getur leikhúsfólk ekki sett hugsjónina sem þar bjó að baki á útsölu eftir aðeins átta ár.

Frá upphafi hefur Þjóðleikhúsráð verið samsett af fjórum fulltrúum skipuðum af fjórflokkunum á Alþingi ásamt einum fulltrúa Félags íslenskra leikara. Ekki þótti leikhúsfólki þetta vera björgulegt fyrirkomulag í byrjun og fann því flest til foráttu og alveg var þetta á skjön við hugmyndir undirbúningsnefndar um stofnun Þjóðleikhússins sem skilaði tillögum sínum til menntamálaráðherra á því herrans ári 1947. Í þeim tillögum var hvergi minnst á Þjóðleikhúsráð og sannleikurinn er sá að hugmyndin um sérstakt pólitískt skipað Þjóðleikhúsráð fæddist í kolli stjórnmálamannanna. Um skipan Þjóðleikhúsráðs hefur þó ríkt góð sátt um langt skeið.

Í nýja frumvarpinu er gert ráð fyrir grundvallarbreytingu á skipan ráðsins, þó þannig að fulltrúar í ráðinu verði áfram fimm en nú skipi menntamálaráðherra þrjá án tilnefningar og hinir tveir verði skipaðir af hagsmunasamtökum leikhúsfólks. Rökin fyrir þessari breytingu eru þau að núverandi skipan Þjóðleikhúsráðs eigi sér ekki hliðstæðu í ríkiskerfinu en önnur rök er ekki að finna í skýringum með frumvarpinu. Á það hefur verið bent að með þessari breytingu sé ekki verið að leggja niður pólítíska skipan ráðsins, heldur herða á henni, sitjandi menntamálaráðherra hafi frjálsar hendur um skipan meirihluta ráðsins. Önnur breyting sem í þessu felst er tilfærsla skipunar meirihluta ráðsins frá löggjafarvaldinu (Alþingi) yfir til framkvæmdavaldsins (ráðherra) og er það sagt vera í samræmi við ábyrgð ráðherra á stofnuninni. Engu að síður má spyrja hvort Þjóðleikhúsráð sé ekki einfaldlega úrelt hugmynd; ef núverandi skipan þykir ekki eiga við lengur, hvers vegna er þá ekki horfið alveg til upphafsins og ráðið slegið af eins og það leggur sig og annars konar stjórnskipan innan stofnunarinnar tekin upp. Leikhús má reka með ýmsum hætti.

VIÐHORF eftir Hávar Sigurjónsson