Í VIÐTALI við Bjarna Hinriksson myndasöguhöfund í gær á bls. 60 féll úr hluti textans vegna mistaka. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum og síðari hluti viðtalsins birtur hér óskertur: "Utan Evrópu eru Bandaríkjamenn með mikla hefð fyrir myndasögunni. Annars eru Japanir stærstu framleiðendur myndasagna í heiminum.
Brot viðtals við Bjarna Hinriksson sem féll út í gær

Vinnur að grafískri

vísindaskáldsögu

Í VIÐTALI við Bjarna Hinriksson myndasöguhöfund í gær á bls. 60 féll úr hluti textans vegna mistaka. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum og síðari hluti viðtalsins birtur hér óskertur:

"Utan Evrópu eru Bandaríkjamenn með mikla hefð fyrir myndasögunni. Annars eru Japanir stærstu framleiðendur myndasagna í heiminum. Sú útgáfa á það sammerkt með útgáfu í Bandaríkjunum og í Frakklandi að stærsti hlutinn er afþreyingarefni, en síðan er einnig töluvert af metnaðarfyllri sögum. Hins vegar hefur þessi japanska útgáfa lítið ratað til Evrópu, svo við þekkjum ennþá mjög lítið þeirra höfunda."

Staðan á Íslandi

Bjarni nam myndasögugerð í myndlistarskóla í Angoul^eme í Frakklandi í fjögur ár en kom til Íslands árið 1989. "Fljótlega eftir að ég kom heim fór ég að tala við þá sem ég vissi að höfðu áhuga á myndasögum. Halldór Baldursson, Þorri Hringsson, Jóhann Torfason, Ólafur Engilbertsson og Þórarinn Leifsson stóðu með mér að útgáfu Gisp, fyrsta myndasögublaðsins sem gefið var út hérlendis. Í fyrsta blaðinu kom Bragi Halldórsson einnig mikið við sögu. Fyrstu fjögur tölublöðin komu nokkuð reglulega út, og 1993 var sýning á Kjarvalsstöðum þar sem við leiddum saman franskar og íslenskar myndasögur. Vegleg sýningarskrá var gefin út í tengslum við sýninguna. En alls komu út 7 tölublöð af Gisp.

­ Hver er staða myndasögunnar hérlendis?

"Núna eru þrjú ár síðan síðasta tölublað Gisp kom út. Hópur yngri höfunda hefur gefið út blaðið Blek, og hafa komið út 2­3 tölublöð. En ekki hefur mikið annað verið á döfinni í myndasögunni."

­ Hver er ástæða þess?

"Það var einfaldlega of erfitt að gefa út blað eins og Gisp reglulega. Við vorum litlir útgefendur og gátum ekki fylgt þessu vel eftir. Íslenskir útgefendur hafa ekki sýnt þessu formi mikinn áhuga, þrátt fyrir að ég telji að talsvert stór hópur sé hérlendis sem lesi myndasögur. "Hvað mig sjálfan varðar hefur ekkert birst eftir mig hérlendis síðan Gisp hætti. En ég hef verið að vinna sögur, og sumar hafa birst erlendis. Gefið var út safnritið Gare du Nord með sögum norrænna höfunda í Frakklandi og síðar á Norðurlöndunum, þar sem ég átti tvær sögur.

Síðan hef ég verið að vinna mest í tveimur verkefnum. Annars vegar er það grafísk vísindaskáldsaga, Digitus Sapiens, sem kemur út núna fyrir jólin. Ég vinn hana með feðgunum Þóri S. Guðbergssyni og Kristni Þórissyni, en þeir semja textann og eiga hugmyndina að sögunni. Það má segja að þetta sé mikið myndskreytt bók, sem teygir sig yfir í myndasöguna. Hitt verkefnið sem ég er að vinna að er bók unnin úr Eddukvæðum og vinn ég það með Jóni Karli Helgasyni bókmenntafræðingi. Vonir standa til að hún komi út í Frakklandi."

En enginn verður feitur af því að teikna myndasögur hérlendis þó að ég voni að sú staða breytist einhvern tíma. Myndasagan er mjög spennandi form því maður hefur frelsi til að skapa hvað sem er rétt eins og í skáldsögunni."

Sýningin í Alliance Française í Austurstræti 3 er opin alla virka daga frá kl. 15­18.

Morgunblaðið/Jón Svavarsson BJARNI Hinriksson myndasöguhöfundur.