"ÉG HELD að allir séu sammála um það að þörf sé á því að ferskleikamæla fisk og framtíðarsýnin er í raun sú að hægt verði að nota svonefnt skynmat sem hraðvirka og þægilega aðferð til að meta fisk,
Fiskiðnaðurinn þarfnast fljótvirkrar aðferðar til að meta ferskleika fisks

Unnið að samræmingu

aðferða við fiskmatið"ÉG HELD að allir séu sammála um það að þörf sé á því að ferskleikamæla fisk og framtíðarsýnin er í raun sú að hægt verði að nota svonefnt skynmat sem hraðvirka og þægilega aðferð til að meta fisk," segir Guðrún Ólafsdóttir matvælafræðingur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (RF) en svokölluð Fair Flow ráðstefna um aðferðir til að meta ferskleika fisks var nýlega haldin á vegum stofnunarinnar.

Guðrún var meðal fyrirlesara á ráðstefnunni og kynnti evrópskt samstarfsverkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu (ESB) og ber heitið Mat á ferskleika fisks. Aðrir fyrirlesarar voru m.a. Andrew Pepper frá bresku matvörukeðjunni Tesco, Hjördís Sigurðardóttir gæðastjóri Bakka á Bolungarvík, Emilía Martinsdóttir efnaverkfræðingur hjá RF og Ólafur Magnússon frá Tæknivali hf. Þau síðastnefndu kynntu annað verkefni Íslendinga og Hollendinga sem styrkt er af ESB og ber heitið Tölvuvætt skynmat í fiskvinnslu.

Flair Flow er heiti á átaki Evrópusambandsins sem miðar að því koma á framfæri rannsóknum sem styrktar hafa verið af ESB og af því tilefni kynnti Guðrún það verkefni sem hún hefur unnið að ásamt þátttakendum frá 14 öðrum löndum í Evrópu. Markmið verkefnisins var að samræma og meta mismunandi aðferðir sem notaðar eru við ferskleikamat á fiski í öllum þátttökulöndunum og að sögn Guðrúnar var niðurstaðan m.a. sú að skynmat sé sú aðferð sem mest sé notuð til þess að mæla ferskleika fisks. Við skynmat er ferskleiki fisksins metinn út frá því hvernig gæði ákveðinna þátta eru, til dæmis augun, tálkn, roð og lykt fisksins.

Guðrún bendir á að búið sé að gefa út bók um verkefnið og niðurstöður þess og ber hún heitið Methods to Determine the Freshness of Fish in Research and Industry en einnig, segir hún, hefur verið gefinn út níu síðna bæklingur á ensku sem hefur að geyma samantekt á þeim aðferðum sem notaðar eru til að mæla ferskleika fisks. Ber bæklingurinn heitið Aiming at Fast and Objective Analytical Methods .

"Í bæklingnum er til dæmis góð samantekt á aðferðum til að meta ferskleika fisks með tækjum, en stefnan er sú að þróa hraðvirk tæki fyrir fiskiðnaðinn. Er það til þess að mæta þeirri þörf sem fiskiðnaðurinn hefur fyrir fljótvirk og áreiðanleg mælitæki," segir hún. Þessum bæklingum, segir Guðrún, á að dreifa til aðila fiskiðnaðarins en ennfremur hefur hún hugsað sér að hann verði nýttur við kennslu.

Tölvuvætt skynmat

Eins og áður hefur komið fram var annað Evrópuverkefni kynnt á ráðstefnunni sem ber heitið Tölvuvætt skynmat á fiskvinnslu eða QimIT (Quality Index Method Information Technology). Að sögn Guðrúnar er það verkefni styrkt af ESB og unnið í samvinnu Íslendinga og Hollendinga. Íslensku fyrirtækin sem taka þátt í því verkefni eru Tæknival hf., Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins, fiskvinnslufyrirtækið Bakki á Bolungarvík og fiskmarkaður Suðurnesja.

Verkefnið gengur út á það, að sögn Guðrúnar, að tölvuvæða skynmatið til að auðvelda ferskleikamælingu fisksins. Hugmyndin er sú að setja alla þætti skynmatsins inn á tölvuforrit, en við það er notuð svokölluð gæðastuðulsaðferð með einkunnarskölum. Ætlunin með forritinu er sú, að hægt verði að leiða matsmann í gegnum þær spurningar sem þarf að svara þegar verið er að meta fiskinn. Þannig getur hann gefið hverjum eiginleika fisksins einkunn.

Guðrún segir einnig að það sem sé ekki síst sérstakt við þennan tölvubúnað sé það að í honum verði myndir af fiskum sem séu mismunandi ferskir, þannig að viðkomandi matsmaður geti séð hvernig fiskur á að líta út, þegar verið er að meta hann og gefa honum einkunn. "Þetta er því mjög þægilegt til þess til dæmis að þjálfa matsmenn," segir hún og bendir á að nú sé sífellt að verða erfiðara að finna fólk sem kann að meta fisk. Guðrún segir ennfremur að um sé að ræða tveggja ára verkefni sem ljúki um aldamótin. "Þá mun verða tilbúið skynmatsforrit fyrir algengar fisktegundir og rækju," segir hún.