MIKIL umræða hefur spunnist um "ágæti" hinna svokölluðu orkudrykkja en hún hefur einkum beinst að börnum og unglingum sbr. grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu sem bar heitið "Orkudrykkir eru ekki æskilegir fyrir börn og unglinga". Í grein þessari var tíundað hvað það er í þessum orkudrykkjum sem er óæskilegt og hvers vegna.
Neysla orkudrykkja er heldur ekki æskileg fyrir fullorðna Best er að forðast drykki, segir Fríða Rún Þórðardóttir , sem innihalda koffín og mikinn hvítan sykur. MIKIL umræða hefur spunnist um "ágæti" hinna svokölluðu orkudrykkja en hún hefur einkum beinst að börnum og unglingum sbr. grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu sem bar heitið "Orkudrykkir eru ekki æskilegir fyrir börn og unglinga". Í grein þessari var tíundað hvað það er í þessum orkudrykkjum sem er óæskilegt og hvers vegna.

Margir foreldrar hafa komið að máli við mig eftir að greinin birtist og þakkað fyrir umfjöllunina, því neysla á þessum drykkjum var komin langt fram úr hófi hjá sumum og skapstyggð, pirringur og erfiðleikar við að sofna á kvöldin voru eftir því. Orkudrykkirnir sem um ræðir eru Egils orka extra, sem inniheldur skv. auglýsingum "meira af öllu", Magic og HIV, en þessir drykkir innihalda allir koffín auk þess sem sá fyrstnefndi inniheldur ginseng. Ginseng er af mörgum talið skerpa athygli, einbeitingu og lífsþrótt, sem er hið besta mál, sérstaklega það síðastnefnda.

Ég benti á það um daginn að ég hafði heyrt því fleygt að rannsóknir sýndu að ginseng væri ekki æskilegt fyrir konur vegna hugsanlegra áhrifa á hormónastarfsemina, en þetta er einingis talið eiga við ef einhverjar truflanir eru fyrir hendi.

Nú er algengt að sjá fólk með orkudrykk í hendi nánast hvenær sem er dagsins og þá í staðinn fyrir kaffibolla og má segja að margir séu orðnir háðir þessum drykkjum. Hvað koffínmagn snertir er einn Magic eða HIV (ekki viss um Orkuna, þar sem ekki er gefið upp á umbúðum magn þess koffíns sem það inniheldur) á við kaffibolla hvað koffínmagn snertir og er það ekki mikið fyrir þá sem drukkið hafa kaffi, og mikið af því, svo árum skiptir.

Það má líka líta á þetta út frá orkunni og þeirri aukaorku sem fylgir neyslu orkudrykkja. Ef litið er á heilt ár og miðað við að ein dós af Magic, eða l af Orkunni, sé drukkin þó ekki væri nema fimm daga vikunnar í heilt ár erum við að tala um 26.000 he., 31.850 he. og 65.000 he., sem geta auðveldlega breyst í 7,4 kg, 9,1 kg eða 18,6 kg af fituvef ef þessari umframorku er ekki brennt, eins og gildir um alla umframorku.

Koffín verkar örvandi á miðtaugakerfið og eykur þar með getu fólks til að vaka, við þekkjum flest áhrif þess að drekka kaffi eða gosdrykk sem inniheldur koffín rétt fyrir svefninn. Verst er að líkaminn byggir upp þol gagnvart koffíninu eins og öðrum örvandi efnum sem leiðir til þess að fólk þarf alltaf meira og meira til að ná sömu áhrifum.

En hvað ættu fullorðnir, börn og unglingar að drekka í staðinn? Vatn er alltaf besti svaladrykkurinn og ég held að þegar á heildina er litið hafi vatnsdrykkja fólks aukist hin síðari ár miðað við það sem áður var og er það mjög jákvæð þróun. Aftur á móti held ég að börn og unglingar drekki alltof lítið vatn að jafnaði, ætli þau telji það ekki hallærislegt, en aftur á móti of mikið af sætum, mjög orkuríkum drykkjum sem innihalda svo að segja engin næringarefni. Mögulegt er að þetta hafi sitt að segja varðandi aukin offituvandamál meðal barna og unglinga. Aðrir drykkir en vatn, s.s. hreinn ávaxtasafi, magrar mjólkurvörur, kókómjólk, Garpur og sykurskertur ávaxtasafi, eru mun æskilegri, þrátt fyrir nokkurt magn af ávaxta- og mjólkursykri, vegna þess að þeir innihalda einnig ýmis næringarefni s.s. vítamín, steinefni og prótein (mjólkurdrykkirnir).

Úrval svokallaðra íþróttadrykkja hefur einnig aukist til muna. Við þekkjum örugglega flest Leppin- vörurnar, sem margt af okkar besta íþróttafólki notar við æfingar og keppni með góðum árangri, t.d. Vala Flosadóttir, Jón Arnar Magnússon, Martha Ernstsdóttir og Kristinn Björnsson. Þessir drykkir innihalda hóflegt magn svokallaðra flókinna kolvetna (complex carbohydrates) sem eru æskilegri en hreinn sykur. Þessi flóknu kolvetni hækka blóðsykur þess sem neytir þeirra hægar og heldur honum hærri lengur en venjulegur sykur, en það er mjög mikilvægt til að íþróttamaðurinn nái sem bestum árangri og líði sem best við keppni og æfingar og jafni sig fyrr eftir mikið álag. Þessir íþróttadrykkir innihalda einnig ýmis vítamín og steinefni og sumir innihalda einnig prótein, sem geta verið æskileg fyrir þá sem stunda langar æfingar, allt upp í þrjár klst., oft við erfiðar aðstæður. Í Leppin-sportlínunni er einnig til duft fyrir börn og unglinga sem blanda má í vatn og nota í staðinn fyrir venjulegt dísætt djúsþykkni. Þetta duft gefur gott sætt bragð án mikil sykurs og að auki ýmis vítamín og steinefni. Drykk þennan má hæglega frysta og nota sem klaka og í raun er á markaðnum slíkur klaki kallaður orkuflaug og er hann sykurminni en venjulegur klaki.

Niðurstaða þessa alls er að best er að forðast drykki sem innihalda koffín og mikinn hvítan sykur. Lykillinn að því að halda orku og skýrri hugsun í sem bestu lagi yfir daginn er að temja sér hollt og reglubundið mataræði, reglubundinn og nægan svefn, næga vatnsdrykkju og hóflega hreyfingu og útivist.

Höfundur er næringarráðgjafi á Landspítalanum. Fríða Rún Þórðardóttir