MÁLEFNI Foldu hf. voru til umræðu á fundi atvinnumálanefndar Akureyrarbæjar í gær. Eins og komið hefur fram á fyrirtækið í miklum rekstrarerfiðleikum og hefur tæplega 50 starfsmönnum þess verið sagt upp störfum.
Formaður atvinnumálanefndar um rekstrarvanda Foldu hf. Fjölga verður hluthöfum

MÁLEFNI Foldu hf. voru til umræðu á fundi atvinnumálanefndar Akureyrarbæjar í gær. Eins og komið hefur fram á fyrirtækið í miklum rekstrarerfiðleikum og hefur tæplega 50 starfsmönnum þess verið sagt upp störfum.

Valur Knútsson, formaður atvinnumálanefndar, sagði að sú úttekt sem gerð var á rekstri Foldu af Iðnþróunarfélagi Eyjafjarðar gæfi mönnum tilefni til að vinna áfram að málefnum fyrirtækisins og að vissulega væri möguleiki í stöðunni. Valur sagði að máli Foldu hafi verið vísað til bæjarráðs og var honum falið að kynna skýrsluna fyrir bæjarráðsmönnum. Hann vildi hins vegar ekki ræða efni hennar opinberlega að svo stöddu.

Valur sagði m.a. nauðsynlegt að fá nýja hluthafa að fyrirtækinu en auk þess þyrfti að hagræða og minnka skuldir. "Það er verið að kanna rekstrargrundvöll fyrirtækisins að uppfylltum ákveðnum atriðum af bæjarins hálfu. Þá á Landsbankinn það húsnæði sem starfsemi Foldu er rekin í og einnig á bankinn veð í vélum og tækjum. Framtíð fyrirtækisins veltur því á Landsbankanum og öðrum stórum kröfuhöfum."

Uppsagnarfrestur framlengdur

Valur sagði nauðsynlegt að hraða þeirri vinnu sem nú væri í gangi, en það kæmi væntanlega fljótt í ljós hvort þeir aðilar sem þarna koma að málum hafi áhuga á endurreisn fyrirtækisins. Uppsagnarfrestur starfsmanna rann út 1. október sl. en var framlengdur fram í miðjan nóvember vegna fyrirliggjandi verkefna næstu vikurnar.