TÚNFISKVEIÐI hefur heldur betur glæðst hjá japönsku túnfiskveiðiskipunum sem nú stunda veiðar innan íslensku lögsögunnar. Eitt skipanna fékk í síðustu viku 31 túnfisk á einum degi en það er mesta dagsveiði frá því að tilraunaveiðar Japananna hófust innan lögsögunnar á síðasta ári. Flest japönsku túnfiskveiðiskipin eru nú að veiðum um 130 sjómílur suður af Stokksnesi.
Japanskt skip fékk 31

túnfisk á einum degi

Íslandsmetið í veiðunum

tvíslegið á skömmum tíma

TÚNFISKVEIÐI hefur heldur betur glæðst hjá japönsku túnfiskveiðiskipunum sem nú stunda veiðar innan íslensku lögsögunnar. Eitt skipanna fékk í síðustu viku 31 túnfisk á einum degi en það er mesta dagsveiði frá því að tilraunaveiðar Japananna hófust innan lögsögunnar á síðasta ári. Flest japönsku túnfiskveiðiskipin eru nú að veiðum um 130 sjómílur suður af Stokksnesi. Veiði hefur verið með ágætum síðustu vikur og er meðalveiðin hjá skipunum um 8 til 10 fiskar á dag.

Meðalþyngd túnfiskanna er um 120 kíló og því meðalaflinn um eitt tonn á dag. Aflinn fór hinsvegar upp í 31 túnfisk, eða um 3,7 tonn, á einum degi hjá einu skipanna í síðustu viku og segir Hörður Andrésson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, það vera mesta dagsafla frá því tilraunaveiðar Japana innan íslensku fiskveiðilögsögunnar hófust síðasta ári. Hann segir annað japanskt skip hafa fengið 27 fiska á einum degi fyrr í þessum mánuði og því hafi Íslandsmetið verið tvíslegið á skömmum tíma. Mesta dagsveiði innan lögsögunnar á síðasta ári var 23 fiskar. Hörður segir veiðina hafa verið hvað besta um þetta leyti í fyrra og því megi varla búast við að metið verði slegið aftur á þessu ári.

Tíma ekki í land

Hörður segir túnfiskkvóta japönsku skipanna 2.500 tonn og afli þeirra á Íslandsmiðum dragist frá honum. Einstöku skipi sé ekki úthlutað sérstökum kvóta og því sé í raun um ólympískar veiðar að ræða. Skipin fái vistir og eldneyti á miðunum því á meðan veiðin sé þetta góð tími Japanarnir ekki að eyða fjórum til fimm sólarhringum í að sigla til hafnar.

Íslenskir eftirlitsmenn frá Hafrannsóknastofnun eru um borð í fimm japönskum túnfiskveiðiskipum en einnig eru um borð fulltrúar útgerða hér á landi sem hafa sýnt veiðunum áhuga. Samkvæmt heimildum Versins er gert ráð fyrir að Byr VE komi úr breytingum í Póllandi um miðjan þennan mánuð og geti þá þegar hafið túnfiskveiðar.