HVÍTKALKAÐIR veggirnir í gamla bindingsverksbakhúsinu við Studiestræde veita heillandi bakgrunn fyrir brotakennd verkin, sem unnin eru í ýmis efni. Ekki svo að skilja að verkin sýnist ekki heildstæð eða heil, heldur segist Steinunn Þórarinsdóttir myndhöggvari sjálf líta á verkin sem brot. "Þetta eru sögubrot," segir hún.
Brot af mörgum sögum Í gömlu bindingsverksbakhúsi við Studiestræde í Kaupmannahöfn hefur Steinunn Þórarinsdóttir myndhöggvari raðað upp sögum sínum, eins og Sigrún Davíðsdóttir sá er hún leit þar við.

HVÍTKALKAÐIR veggirnir í gamla bindingsverksbakhúsinu við Studiestræde veita heillandi bakgrunn fyrir brotakennd verkin, sem unnin eru í ýmis efni. Ekki svo að skilja að verkin sýnist ekki heildstæð eða heil, heldur segist Steinunn Þórarinsdóttir myndhöggvari sjálf líta á verkin sem brot. "Þetta eru sögubrot," segir hún. "Brot af sögu minni, af ýmsum sögum, frásagnir, en kannski meira huglægar en hlutlægar," bætir hún við hugsi er hún svipast um á þessari fyrstu sýningu sinni í Danmörku. Sýningin stóð út september í Galleri Krebsen, þar sem Tryggvi Ólafsson hefur oft sýnt áður. Það var einmitt Tryggvi, sem kom Steinunni á framfæri við galleríið er hann sýndi þeim bækling með verkum hennar. Mest af verkunum er unnið fyrir sýninguna í Höfn, sem fer síðan áfram til Kristiansstad í Svíþjóð. Sýninguna segist Steinunn hafa unnið með rýmið í huga, en á sýningunni eru flest verkin ný. Þetta er fyrsta sýning Steinunnar í Danmörku, en hún lærði í Bretlandi og á Ítalíu, svo Norðurlöndin hafa verið nokkuð utan hennar sjóndeildarhrings. Ítalíu hefur hún svo heimsótt aftur, segist lengi hafa haft áhuga á gamalli list og það hafi vafalaust átt sinn þátt í að hún kaus að halda til Ítalíu á sínum tíma og halda svo áfram tengslum við landið. List, sem einmitt er oft aðeins varðveitt í brotum. "Það styrkti mig í að vinna brot af sögum og veitti mér mikinn innblástur," segir Steinunn. Maðurinn og ógnandi andi Maðurinn og mannslíkaminn hefur verið Steinunni stöðugt viðfangsefni. "Maðurinn og umhverfi hans," segir hún, þegar yrkisefnin ber á góma. "Ég kem endalaust auga á nýja fleti þess." En andstætt ákveðinni festu í viðfangsefni þá er efnisnotkunin mjög fjölbreytileg. Í verkum Steinunnar getur að líta gips, pottjárn, blý, ál og gler. Efnið segist hún velja eftir því hvað henni finnist eiga best við hverju sinni. Hugmyndir sínar skissar hún á blað. Sumum hendir hún eins og gerist og gengur, en þeim sem henni finnst hæfa í þrívíð verk velur hún efni við hæfi. Efni, sem hentar framkvæmdinni, hugmyndinni, lit og öðru, sem skiptir máli. "Efnið fer eftir hvaða áhrifum ég sækist eftir," segir hún. Verk Steinunnar eru ýmist seríur eða stök verk, sem þó eru oft með sama tema, sem strax kemur í ljós utan dyra, þar sem tvær mannsfígúrur í áli standa andspænis hvor annarri, en horfa þó framhjá hvor annarri. Þegar inn er komið blasa við fjögur höfuð úr pottjárni og gleri, "Speglun". Tvö og tvö snúa þau saman. Í öðru tvíeykinu gengur glerlag í gegnum höfuðið þar sem munnurinn ætti að vera, í hinu gengur glerlagið í gegn þar sem augun ættu að vera. Glerið gefur yfirbragð þess að það sé bundið fyrir munninn og augun, svo áhrifin eru ekki laus við óhugnað og ógnun. Þessi tilfinning er ekki vakin af því listakonan leiti uppi dökkar hliðar tilverunnar, heldur af því að einföld verk hennar vísa í margar áttir. Við hliðina á höfðunum fjórum er "Móðir" úr gipsi. Klassísk uppstilling konu, þar sem aðeins brjóstin gefa kynið til kynna, vekur hugrenningar til klassískrar listar, en móðirin, sem heldur höndunum í vaggandi stellingu, hefur ekkert barn. Uppi á lofti er "Rauður þráður" þar sem efri hluti konu sveiflar rauðryðguðum þráð, sem smitar rauðum lit á kvenlíkamann. Þetta er aðeins brot af hugmyndaheimi Steinunnar. Hugmyndaheimi, sem bæði skírskotar til klassískrar listar og samtímans í heillandi samspili, sem gefur skoðandanum tækifæri til hugrenningar í fjöldamargar áttir. Hið einfalda yfirbragð lumar á mörgu.

Morgunblaðið/Sigrún Davíðsdóttir MAÐURINN og mannslíkaminn hefur verið myndhöggvaranum, Steinunni Þórarinsdóttur, stöðugt viðfangsefni.