UMHVERFISMÁL skjóta upp kollinum á margvíslegan hátt. Á Edinborgarhátíðinni var til dæmis í fyrra fluttur grænmetisballett (Ballet vegetal) í nafni umhverfisverndar og Myndhöggvarafélag Reykjavíkur heldur glæsilega sýningu á umhverfislistaverkum fyrir þá sem fara eftir strandlengju höfuðborgarinnar í sumar og njóta náttúru og menningar.

VISTMENNING

EFTIR MARÍU H. MAACK

Í vistmenningu felast í stuttu máli aðferðir og hönnun sem gerir flestum heimilum og samfélögum kleift að auka við sjálfsþurftarbúskap sinn, virða náttúrulegt umhverfi og nýta vistvænar tækninýjungar sem létta á umhverfisvandamálum samtímans.UMHVERFISMÁL skjóta upp kollinum á margvíslegan hátt. Á Edinborgarhátíðinni var til dæmis í fyrra fluttur grænmetisballett (Ballet vegetal) í nafni umhverfisverndar og Myndhöggvarafélag Reykjavíkur heldur glæsilega sýningu á umhverfislistaverkum fyrir þá sem fara eftir strandlengju höfuðborgarinnar í sumar og njóta náttúru og menningar.

Tekið hefur verið á umhverfisvernd á ýmsum stigum undanfarin ár. Ríkisstjórnir setja lög og reglur, sveitarstjórnir huga að staðardagskrám en ennþá er einstaklingnum frjálst að velja hversu mikið hann fléttar umhyggju fyrir náttúrunni inn í sitt daglega líf. Hér verður fjallað um hugmyndafræði sem tengist starfsvettvangi arkitekta og skipulagsfræðinga en er fyrst og fremst beint til þeirra sem vilja taka virkan þátt í sjálfbærri þróun samfélagsins og ganga til daglegra verka með náttúruvernd i huga.

Permaculture ­ Vistmenning

Sólheimar í Grímsnesi (www.smart.is/solheimar) hafa tekist á hendur að kynna fyrir almenningi hugmyndafræði sem öll sjálfbær samfélög byggja á og nefnist permaculture, ­ hugtak sem ástralski vistfræðingurinn Bill Mollison dró af orðunum permanent agriculture ­ landbúnaður til framtíðar. Þar sem orðið agriculture má bókstaflega þýða sem ræktunarmenning og hugmyndafræðin á að henta mönnum jafnt í borg og sveit er hér notast við nýyrðið vistmenning yfir þetta hugmyndakerfi. Hugmyndirnar eru mjög fjölbreyttar en byggja á traustum grænum þræði: Það sem er gott fyrir náttúruna er gott fyrir okkur.

Vistmenning tekur til þriggja meginþátta:

* Lífræn ræktun fyrir hvert heimili; fylgt er hringrásum náttúrunnar í heimilishaldinu þannig að garður, svalir og gluggakistur eru nýttar til að efla sjálfsþurftarbúskap. Lífrænn úrgangur er nýttur í þágu ræktunar og jarðvegsgerðar.

* Hönnun sem miðast við sparsama og skynsama notkun á náttúrulegum auðlindum, nýtingu á heimafengnu hráefni og vistvænar tæknilausnir. Hönnunin skal létta mönnum heimaræktun og skapa virðingu fyrir náttúrulegu umhverfi mannvirkja. Skólalóðir og almenningslóðir ættu einnig að nýtast til að efla náttúruleg ferli í samfélaginu og viðhalda fjölbreytni í lífríkinu. Hver hluti gegnir margþættu hlutverki í því að viðhalda sjálfbærni á staðnum.

* Félagskerfi sem miðar að því að flestir íbúar hafi áhrif og beri ábyrgð á nýtingu nánasta umhverfis og skilji hlutverk sitt í viðhaldi þess. Tekið er tillit til hópa með sérþarfir og reynt að gefa öllum færi á að nálgast náttúruna. Hvatt er til kaupa á staðbundinni framleiðslu og vöruskiptum. Vistmenning á að henta hvers konar trúarbrögðum og stjórnkerfum enda er byggt á hefðum hvers staðar í landnýtingu og lifnaðarháttum.

Í vistmenningu felast í stuttu máli aðferðir og hönnun sem gerir flestum heimilum og samfélögum kleift að auka við sjálfsþurftarbúskap sinn, virða náttúrulegt umhverfi og nýta vistvænar tækninýjungar sem létta á umhverfisvandamálum samtímans. Aðferðirnar þarf að aðlaga hverjum stað og því er oft horft til gamalla starfshátta og lausna til að flétta inn í nútímalifnaðarhætti. Allt sem miðar að því að spara orku, endurnýta efni og efla heimafengið vinnuafl en jafnframt að hlúa að framleiðslugetu náttúrunnar hentar undir merkjum vistmenningar. Nú eru reglulega haldin námskeið úti um allan heim til að fólk geti tileinkað sér þessar aðferðir og hafist handa við að efla sjálfbæra þróun heimafyrir.

Sumarið 1998 var haldið fyrsta námskeið um vistmenningu hérlendis. Aðalkennari var Skotinn Graham Bell (höfundur bókanna: The Permaculture Garden og The Permaculture Way). Á Sólheimum spreyttu menn sig á að útbúa blandaðan garð með nytjajurtum ofan á illgresisstóði en einnig var fjallað um nýtingu villtra plantna, skógrækt til blandaðra nytja og ýmis samfélagsmál skoðuð í ljósi umhverfisverndar. Einnig var komið inn á hönnun og nýtingu vistrænna hugmynda í skólum, stofnunum og í fyrirtækjarekstri. Gefnir hafa verið út bæklingar um nokkur þemu vistmenningar og fást þeir á Sólheimum.

Ræktun fyrir heimilið hlúir að jörðinni

Nútímaheimili eru yfirleitt hvíldarstaður útivinnandi fólks. Því virðist það vera afturhvarf til fortíðar að hvetja menn til að nýta heimili og húsgarða til ræktunar í þágu heimilisins. Og hver hefur tíma til slíks nú á dögum? Burtséð frá niðurgreiðslum og markaðsverði þá sýnum við umhyggju fyrir jörðinni með því að velja vöru sem er heimafengin og allra mest með því að rækta í okkar nánasta umhverfi hluta af fæðu heimilisins. ­ Það eru ófáir Íslendingar sem rækta garðinn sinn, ef til vill mætti gera meira af því að verja hluta hans til matjurtaræktunar ­ kartöflur innan um blómstrandi runna. Rifs, sólber, stikkilsber og hindber innan um víðihekkið.

Í hönnun vistmenningar er gert ráð fyrir að matjurtir geti verið notaðar til skrauts og skjóls en ef við ætlum að leggja vinnu í að rækta okkur til matar þarf að huga að því hvernig plássið nýtist best til að fá hámarksuppskeru með sem minnstri vinnu. Það er gert með því að láta náttúruna um stóran hluta vinnunnar en jafnframt koma hlutunum haganlega fyrir. Matjurtagarður er best kominn sem næst eldhúsinu og verkfærin ættu ekki að vera langt undan. Margar garðjurtir eru í rauninni ætar og má blanda með öðru grænmeti til að auka á fjölbreytnina. Ef séð er til þess að aðstæður henti vel fyrir ánamaðka og örverur er hægt að láta þau um að stinga upp matjurtabeð og losa okkur við lífræna ruslið úr eldhúsinu í leiðinni. Auðveldast er að vinna í upphækkuðum beðum sem bætt er í moltunarefni ár frá ári og láta gróðurinn þekja sem mest af yfirborðinu til að skyggja á væntanlegt illgresi. Samræktun vissra tegunda getur dregið úr afföllum af völdum sníkjudýra, en alltaf þarf að gera ráð fyrir að garðeigandinn verði ekki aleinn um uppskeruna. ­ Í mörgum tilfellum er þó hægt að nýta óvininn á einhvern hátt. Vorsalat gæti verið úr hundasúrum, ungum fíflablöðum og arfa! Arfi inniheldur mikið C-vítamín, spánarkerfill er bragðgott grænmeti og fíflablóm eru frábær steikt!

Trjágróður gegnir mjög margþættu hlutverki. Velja skal tegundir með tilliti til helstu vindátta, vaxtarhraða og nytja sem hægt er að hafa af hverju tré, hvort sem það eru jarðvegsbætur vegna niturbindingar eða sem róluupphengi fyrir börnin. Um leið og skjól myndast í íslenskum görðum hækkar meðalhitastigið og öll ræktun verður auðveldari. Tré eru einnig talin draga úr hávaða og rykmengun, og þau eru langöflugustu koltvísýringsbindarar sem fást. Við lauffelli bætist stöðugt nýtt efni til jarðgerðar á staðnum.

Tjarnir geta temprað hitasveiflur í garðinum og yfirbreiðslur, skjólgarðar og gróðurskálar lengja ræktunartímann svo að með lagni er hægt að rækta fleira. Ræktun í anda vistmenningar hvetur einnig til að halda dýr í görðum. Þau skaffa áburð, geta etið matarafganga og draga þar með úr sorpi frá heimilinu, einnig geta þau haldið meindýrum í skefjum. Ef notaðar eru litlar tamdar endur er hægt að láta þær reyta arfa og nýta þær síðan í kæfu þegar líða tekur á haustið! Þessar upptalningar eru dæmigerðar fyrir vistmenningu: hlutar heildarinnar eru valdir með tilliti til margs konar nytja. Til eru margar góðar bækur um hönnun nytjagarða. (Á bókasafni Sólheima t.d.: Bill Mollison: Permaculture, Kourik: Designing and Maintaining your Edible.)

Húsið ­ jarðvegur fjölskyldunnar

Vistmenning gerir ráð fyrir að mannabústaðir séu úr náttúrulegu hráefni og endurnýting eldra húsnæðis miðast við orkusparnað, ræktun og heilsusamlegt efnisval úr staðbundnu auðfengnu hráefni en einnig virðingu gangvart byggingarhefðum hvers svæðis. Þannig hafa verið gerðar tilraunir með að byggja úr heyböggum í Bandaríkjunum (The Farm) og staðfengnum leir. Í Skotlandi er hlaðið úr grjóti en timburhús að skandinavískri fyrirmynd eru þó áberandi í sjálfbærum samfélögum (Findhorn, Skotlandi). Þess er gætt að fella húsið að garðinum og byggðina að landslaginu. Húsin eiga að vera hönnuð til ræktunar, jafnt og söfnun regnvatns, einangruð með náttúrulegum efnum og veita jafnt mönnum og villtum dýrum skjól ­ t.d. eru sett fuglahús ofan við ræktunarbletti til að dritið lendi þar sem það nýtist til að halda jarðvegnum frjósömum! Kræklóttur viður úr nærliggjandi skógum verður að frumlegum húsgögnum. Þetta gefur ákveðinn heildarsvip sem hægt er að útfæra bæði smekklega og aðlaðandi og á ekkert skylt við búhokur fátæklinga til forna. Efnið er notað með reisn og hugkvæmni. Það sem endanlega sker úr um hvort hönnunin heppnast er auðvitað hvernig það hentar íbúunum. Víða í Evrópu eru nú gerðar tilraunir með vistvæn hús þar sem orkunýtni og náttúrulegt byggingarefni setur svip sinn á hönnunina. Garðtré mynda skjól og veggjagróður einangrar gegn kulda og hita. Garðskálar fanga sólarhitann neðanvert á suðurhluta húsa og hlýja loftið stígur síðan upp á efri hæðir. Reiknað er með staðfenginni orku til húshaldsins (sólarrafhlöður, sólarpanell á þaki og vindmyllur) en kæligeymslur fyrir matvæli minna á jarðhýsi við íslenska bæi.

Að loka hringrásunum heimafyrir

Staðbundnar lausnir þurfa einnig að taka til úrgangsmála. Lífrænn úrgangur úr eldhúsinu fer auðvitað í safnhaug garðsins eða ræktunarbeð næsta árs. Lífrænar leifar eru yfirleitt um þriðjungur heimilissorps og því minnkar talsvert sorp frá heimilum sem nýta þær heimafyrir. Víðast hvar erlendis hefur verið mikið lagt upp úr því að draga úr sorpmyndun með því að flokka það og senda í endurvinnslu. Sums staðar er þetta gert einfaldlega með því að hækka sorphirðugjald verulega en útfærslurnar látnar einstaklingunum eftir. Í vistmenningu er gert ráð fyrir að fullnýta sem mest heimafyrir og versla sem mest umbúðalaust við heimamenn.

Talsvert meira þarf að hafa fyrir því að hreinsa skólp (seyru) en að endurnýta þurr úrgangsefni sem fá að rotna og verða að jarðvegi. Þurrkamrar hafa haldið velli víða i Skandinavíu og þeir standa fyrir sínu þar sem spara þarf vatn. Þar sem menn halda sig við hörðustu umhverfisvernd á heimavelli (nærvernd!) er mannlegur úrgangur skildur að í þurrefni og þvag og hvort meðhöndlað í sínu lagi án þess að blanda vatni saman við (dæmi um þetta má sjá í vistvænum byggingum í Svíþjóð t.d. á Thingvalla og Ekotopia í Aneby (frumkvæði styrkt af EB).

Gert er ráð fyrir staðbundinni hreinsun á frárennsli. Ætlast er til að lífrænu efnin nái að brotna niður áður en frárennslið blandast ám, vötnum eða rennur í sjó. Komið er upp kerfi sem skapar kjöraðstæður fyrir bakteríur sem brjóta niður lífrænar leifar í opnum loftunarkerfum ­ bæði með sérstökum gróðri en einnig einföldum búnaði sem eykur loftstreymi um skólpið (margir kannast við þetta í tengslum við Waldorf-setrið í Sviss).

Allur tæknibúnaður sem sparar orku (t.d. tölvupóstur og tölvustýribúnaður fyrir hita- og loftunarkerfi) er sjálfsagður í húsi vistmenningarinnar á meðan allt sem fellur undir óþarfa sóun sést ekki. Þannig er alls ekki útilokað að sjá háþróaða nútímahönnun í bland við eldri tæknilausnir sem byggja á vogarstangarafli. Og hinn framsækni vist- maður ferðast um á hjóli sem kemst hraðar og fer betur með bakið en hefðbundin fjallahjól!

Ríó-sáttmálinn gerir ráð fyrir þátttöku allra þegna í náttúruvernd

Í Ríó-reglunum er gert ráð fyrir að taka þurfi mið af vilja fólks við nýtingu og skipulag á nánasta umhverfi. Í vistmenningu er gengið lengra og fólk hvatt til að miða hverfi og byggðakjarna við samhjálp og samnýtingu sem stuðlar að orkusparnaði og félagslegri ræktun, ­ á skólalóðum og á vinnustöðum.

Í leikskólum er gert ráð fyrr að nemendur hafi matjurtagarða og jafnvel nokkur dýr. Þar geta þeir séð t.d. hvernig kartöflur verða til og nýtast í eldamennsku. Kálið af þeim fer í safnhauginn sem er ræktað í næsta ár. Auðvitað er ekki hægt að breyta öllum skólum í sjálfsþurftarbú, en nýting skólalóðarinnar til að kanna og auka skilning á ferlum náttúrunnar er ákaflega nærtækt, þroskandi verkefni. Um leið og nýr skóli er tekinn í notkun væri því vistmenningarlegt að mæla staðbundnar vindáttir um veturinn og láta fyrstu árganga nemenda gróðursetja tré til skjóls að vori. Ber af runnum væri hægt að nýta í skólaeldhúsinu, og sums staðar er auðvelt að auka á fjölbreytni harðgerðra tegunda sem krakkar nýta til leikja og skapandi starfa. Þannig er árstíðabundin framvinda á skólalóðinni hluti af daglegu lífi starfsliðs skólans. Nemendur og kennarar eru "íbúar" skólans og ættu því að koma jafnmikið að hönnuninni og arkitektar.

Á sama hátt er hvatt til orkusparnaðar á vinnustöðum, endurnýtingar, flokkunar sorps og virðingar gangvart náttúrulegum auðlindum. Einnota umbúðir sjást ekki, pappír er fullnýttur og sendur til endurvinnslu, enda auðvelt, aðgengilegt og gert að ábyrgð hvers starfsmanns. Þetta verður hluti daglegra starfa og metnaður fyrirtækisins að ná framförum í umhverfisvernd.

Í skipulagi vistvænna byggðakjarna er gert ráð fyrir að almenningssamgöngur, hjólreiðar og göngur hafi forgang framyfir bílamannvirki og bílvegir verða að falla að ræktunarlandslaginu fremur en að garðar séu skipulagðir kringum bílastæði. Í Þýskalandi hafa almenningssamgöngur víða verið efldar í stað þess að leggja meiri kostnað í umferðarmannvirki sem auka enn á umferð og mengun. Þannig er forsenda skipulagsins byggð á sátt við náttúruna fremur en stefnt sé að því að beygja náttúruna undir mannvirki. Reiknað er með náttúrulegum ferlum í stað þess að halda þeim í skefjum. Með staðbundnum lausnum er unnið að því að taka á stóru umhverfisvandamálunum og ábyrgð á umhverfinu færð inn í heimilishaldið og viðskiptasjónarmið.

Þegar fólki er gerð ljós ábyrgð sín í verndun umhverfis til framtíðar og því gert auðveldara að fylgja henni eftir eru flestir jákvæðir gagnvart breytingunum. Lausnir í anda vistmenningar er bæði hægt að flétta inn í lifnaðarhætti manna eins og þeir eru í dag en einnig er hægt að stuðla að breytingum með því að taka þær inn í skipulag og hönnun nýrra staða. Víst er að tímarnir kalla ekki eingöngu á umræður heldur aðgerðir sem auka umhverfisvernd og stuðning við frumkvæði þar að lútandi.

Höfundurinn er líffræðingur.

FYRSTU skref tilraunagarðs á Sólheimum. Breitt yfir illgresi og búið í haginn fyrir jarðvegslífverur.

DEKKJUM er staflað upp fyrir kartöflurækt. Grösin koma upp úr moltunarstæðunni sem veitir skjól og kartöflurnar sóttar milli dekkja.

AUÐVELDARA er að vinna við upphækkuð beð. Blandaður gróður tryggir fjölbreytta uppskeru.

MARGNOTA hús ­ græni tankurinn er til vatnssöfnunar (Earthward, Tweed Horizon, Skotlandi).

LYFTA sem knúin er af læk. Þegar hólf neðst á öðrum klefanum fyllist sígur hann niður og dregur hinn upp með þeim farþegum sem komnir eru. (Center for Alternative Technology, Wales.)

KÆLIGEYMSLA fyrir 10 heimili. Jafnt hitastig helst í jarðhýsinu, sem er einangrað og loftað með sérstökum búnaði.

LÍFRÆN skólphreinsikerfi nýta vatnagróður og örverur til að brjóta niður áburðarefni í fráveituvatni. Þau eru gróskumikil og snotur.