Suður-Afríka: Mandela látinn laus innan örfárra vikna? Jóhannesarborg. Reuter, Daily Telegraph.

Suður-Afríka: Mandela látinn laus innan örfárra vikna? Jóhannesarborg. Reuter, Daily Telegraph.

NELSON Mandela, leiðtogi Afríska þjóðarráðsins (ANC), sagðist í gær vongóður um að hann yrði látinn laus úr fangelsi innan örfárra vikna, að sögn eiginkonu hans, Winnie Mandela.

Þetta er í fyrsta sinn sem slík ummæli eru höfð eftir Mandela frá því hann var handtekinn árið 1962 og dæmdur í lífstíðarfangelsi 1964 fyrir að hafa skipulagt uppreisn gegn minnihlutastjórn hvítra manna í Suður-Afríku. Sjö blökkumannaleiðtogar voru handteknir á sama tíma og hann en þeir voru látnir lausir í fyrra. Mandela er íhaldi í bóndabæ um 60 km frá Höfðaborg.

Winnie Mandela sagði að eiginmaður sinn hefði sagt sér að undirbúa heimkomu hans. Hún kvaðst ekki vita gjörla hvenær hann yrði látinn laus en sagði það ekki lengur spurningu um mánuði, heldur örfáar vikur.

Suður-afrískir embættismenn segjast búast við því að Mandela verði látinn laus í lok þessa mánaðar eða fljótlega eftir að þing landsins kemur saman á ný eftir jólahlé 2. febrúar. Afríska þjóðarráðið og ýmsir leiðtogar blökkumanna hafa sagt að samningaviðræður við stjórnvöld komi ekki til greina fyrr en Mandela verði látinn laus. Chris Hani, yfirmaður skæruliðasveita Afríska þjóðarráðsins, sagði í gær að búast mætti við hörðum árásum skæruliðanna í SuðurAfríku í ár.