Skýrsla nefndar félagsmálaráðherra: Fjárhagsstaða sveitarfélaga almennt versnað síðan 1986 LÖGÐ var fram á ríkisstjórnarfundi á föstudag skýrsla nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði til að kanna orsakir versnandi fjárhagsstöðu sveitarfélaga og gera...

Skýrsla nefndar félagsmálaráðherra: Fjárhagsstaða sveitarfélaga almennt versnað síðan 1986

LÖGÐ var fram á ríkisstjórnarfundi á föstudag skýrsla nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði til að kanna orsakir versnandi fjárhagsstöðu sveitarfélaga og gera tillögur til úrbóta. Kemur þar fram að 12 sveitarfélög þurfa að mati ráðuneytisins að beita hörðum aðhaldsaðgerðum og fá fjárhagslega aðstoð til að komast úr fjarhagsörðugleikum sínum.

Skýrsla þessi, sem að sögn Húnboga Þorsteinssonar, skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu og formanns nefndarinnar er sú fyrsta sinnar tegundar, nær til áranna 1986- 1988. Í fyrstu var farið yfir fjárhag nánast allra sveitarfélaga á landinu, en síðan voru tekin út 28 sveitarfe´lög til nánari athugunar. Af þessum 28 eru 12 talin eiga við mjög mikla fjárhagserfiðleika að etja.

Í grófum dráttum er niðurstaða skýrslunnar sú að fjárhagsstaða sveitarfélaga hefur almennt versnað frá árinu 1986. Eru þar margþættar orsakir að baki: Tekjur jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa verið skertar, mismunandi tekjumöguleikar sveitarfélaga koma niður á sumum þeirra, erfiðleikar í atvinnurekstri, of miklar fjárfestingar miðað við tekjur og stofnun þjónustuútgjalda án þess að tekjur séu fyrir hendi.

?msar tillögur eru gerðar til úrbóta í skýrslunni: Áhersla er lögð áað lögum um tekjustofna sveitarfélaga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sé fylgt eftir, jöfnunarsjóður verði ekki skertur, hert verði skil á ársreikningum sveitarfélaga og gerð fjárhagsáætlana, lánasjóði sveitarfélaga verði einnig gert að lána til skuldbreytinga en ekki bara til framkvæmda og farið verði varlega í ábyrgðir og þátttöku í atvinnurekstri. Varðandi verst settu sveitarfélögin er lagður til verulegur samdráttur í framkvæmdum og fjárfestingum.

Ríkisstjórnin telur að rétta megi stöðu sveitarfélaganna með þeim aðgerðum sem lagðar eru til. Ekki er talin ástæða til að taka fleiri sveitarfélög í svokallaða gjörgæslu ríkisins, frekar en þegar er orðið, þau verst settu ættu að ná sér á strik með ströngum aðhaldsaðgerðum og með aðstoð lána- og jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Auk Húnboga sátu í nefndinni Páll Guðjónsson bæjarstjóri og Þórður Skúlason sveitarstjóri, tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristófer Oliversson, skipulagsfræðingur tilnefndur af Byggðastofnun og Sveinbjörn Óskarsson deildarstjóri, tilnefndur af fjármálaráðherra.