Ólafur Sverrisson: Hagnaður af sölu Samvinnubanka vinnur ekki upp tap rekstur síðasta árs ÓLAFUR Sverrisson stjórnarformaður Sambandsins segir aðekki þurfi að óttast um afkomu Sambandsins, en losa þurfi um meira af peningum heldur en með sölu 52% hlutar í...

Ólafur Sverrisson: Hagnaður af sölu Samvinnubanka vinnur ekki upp tap rekstur síðasta árs

ÓLAFUR Sverrisson stjórnarformaður Sambandsins segir aðekki þurfi að óttast um afkomu Sambandsins, en losa þurfi um meira af peningum heldur en með sölu 52% hlutar í Samvinnubankanum Hann segir hagnað vera af sölunni, sem dugi þó ekki til að vega upp taprekstur síðasta árs. Hann segir að of sterkt sé að orði kveðið að erlendir lánadrottnar hafi verið farnir að ókyrrast. "En, þeir fylgjast með okkur."

Hann segir ástæðu sölunnar einfaldlega vera þá, að Sambandið þurfi að losa fjármuni, ýmislegt hafi verið gert í því, en það stærsta hafi verið þessi sala.

Ákvörðunin á sunnudag var ekki einróma. "Þessi naumi meirihluti, fimm atkvæði gegn fjórum, var nú ekki eingöngu málefnalegur, heldur sumpart vegna þess að menn vildu fresta ákvörðun, kanna aðra möguleika fyrst, þetta á við suma þeirra sem voru á móti, ekki alla." Hinir, sem greiddu atkvæði á móti, vildu alls ekki selja hlutinn í Samvinnubankanum, að sögn Ólafs.

Hann var spurður hvaða áhrif sala hlutarins í Samvinnubankanum hefði á stöðu Sambandsins, hvort óttast þurfi um fyrirtækið og lífsnauðsynlegt sé að selja fleiri eignir. "Ég held að það þurfi ekki að óttast um afkomu Sambandsins, en það þarf að losa um meira af peningum heldur en þetta sem núna losnar við sölu bankans."

Ólafur segist telja að skuldir Sambandsins séu á bilinu 9 til 10 milljarðar króna. Eiginfjárstaðan hefði batnað við sölu Samvinnubankans, þar sem söluverðið væri nokkuð mikið hærra en bókfært verð bréfanna er. "Hins vegar var taprekstur á síðasta ári, þannig að þessi sala vinnur það tæplega upp." Ólafur kveðst ekki treysta sér tilað nefna tölur um hve mikið tap varð á rekstrinum á síðasta ári.

Morgunblaðið ræddi við Ólaf þarsem hann var staddur í London í gærkvöldi, en þangað fór hann þegar að afloknum stjórnarfundinum á sunnudag. Guðjón B. Ólafsson forstjóri Sambandsins var staddur í Detroit í Bandaríkjunum í gær og tókst ekki að ná tali af honum.