JÓNSHÚS ­ STARFSEMI Í KREPPU Forseti Alþingis, Ólafur G. Einarsson, hefur hafnað því með bréfi til Félags íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn, að stjórn Jónshúss verði sett af, en þess krafðist stjórnin í opnu bréfi til forseta Alþingis. Ólafur G.

JÓNSHÚS ­ STARFSEMI Í KREPPU

Forseti Alþingis, Ólafur G. Einarsson, hefur hafnað því með bréfi til Félags íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn, að stjórn Jónshúss verði sett af, en þess krafðist stjórnin í opnu bréfi til forseta Alþingis. Ólafur G. Einarsson hefur óskað birtingar á bréfi sínu til Hrafns Sveinbjarnarsonar, formanns Félags íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn, og greinargerð formanns hússtjórnar, Karls M. Kristjánssonar, frá 13. nóvember 1998.

Bréf forseta Alþingis til Félags íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn

Mér hefur borist í hendur "Opið bréf forseta Félags íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn til forseta Alþingis vegna Jónshúss" fyrst frá fréttamanni Ríkisútvarpsins og í pósti frá félaginu í dag 16. nóvember.

Vegna þessa bréfs er eftirfarandi tekið fram:

1. Ekki verður orðið við tilmælum um að leysa stjórn Jónshúss frá störfum. Vantraust yðar á einstökum stjórnarmönnum gefur ekki tilefni til slíkrar aðgerðar.

2. Frá sjónarhóli Alþingis er ekki ástæða til á þessu stigi máls að Félag íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn fari "að leita sér að öðru húsnæði".

3. Tekið er undir lokaorðin í bréfi yðar að samskipti Alþingis og Stúdentafélagsins eigi eftir að batna í nánustu framtíð. Því er sérstaklega fagnað að sá sé ásetningur núverandi stjórnar Stúdentafélagsins. Alþingi hefur ekki nú né áður haft hug á að troða illsakir við Stúdentafélagið.

4. Undirritaður hefur rætt við formann stjórnar Jónshúss í tilefni bréfs yðar. Greinargerð hans fylgir hér með.Jónshús í Kaupmannahöfn

Greinargerð Karls M. Kristjánssonar, formanns hússtjórnar:

Stúdentafélagið í Kaupmannahöfn (áður FÍNK) hefur sent forseta Alþingis opið bréf. Í bréfinu er þess farið á leit að stjórn Jónshúss verði sett af. Stúdentafélagið hefur starfsaðstöðu í Jónshúsi ásamt fleiri félögum. Það er ekki sérstakur fulltrúi notenda hússins og talar sem slíkt einungis fyrir sína hönd. Hér á eftir fer greinargerð sem fyrst og fremst er ætlað að varpa ljósi á stöðu mála í Jónshúsi frá sjónarhóli formanns stjórnar hússins. Stjórn Jónshúss er skipuð af forsætisnefnd Alþingis og ber hún ábyrgð á daglegum rekstri hússins.

Forsaga

Carl Sæmundsen stórkaupmaður gaf Alþingi Jónshús í Kaupmannahöfn, þann 17. júní 1967. Húsið er upphaflega byggt árið 1849 og er því tæplega 150 ára gamalt. Í gjafaafsali Carls kemur fram að Alþingi Íslendinga ráðstafi eigninni jafnan sem virðulegum minnisvarða um Jón Sigurðsson en hann hafði búið í húsinu frá árinu 1852 til dauðadags árið 1879.

Allt til ársins 1991 var skipan í húsinu á þann veg að á fyrstu hæð var rekið félagsheimili, á annarri hæð var íbúð fræðimanns, á þriðju hæð var minningarsafn um Jón Sigurðsson og bókasafn Íslendinga, en á fjórðu hæð var íbúð sendiráðsprests, sem jafnframt gegndi starfi umsjónarmanns. Námsmannafélagið og Íslendingafélagið höfðu skrifstofuaðstöðu í kjallara.

Lengi vel var líflegt félagslíf í Jónshúsi þar sem Íslendingafélögin höfðu aðstöðu í kjallara hússins og á fyrstu hæð. Félögin stóðu m.a. fyrir kaffisölu og ýmsum samkomum. Húsið var oft á tíðum nokkuð vel sótt en þó liggja ekki fyrir neinar tölur um aðsókn á þessu tímabili. Starfseminni var stjórnað af félagsheimilisnefnd, sem var skipuð fulltrúum Íslendingafélagsins og Námsmannafélagsins sem ráku félagsheimilið á eigin kostnað en voru styrkt af Alþingi með því að þau fengu endurgjaldslaus afnot af húsnæðinu og Alþingi greiddi ljós og hita. Félagsheimilisnefnd réð veitingamann sem sá um daglegan rekstur.

Erfiðleikar í rekstri

Undir lok síðasta áratugar hafði dregið úr aðsókn í Jónshús og komu upp kröfur á hendur Alþingis um beinan fjárstuðning til rekstrarins og einnig um aukna starfsaðstöðu Íslendingafélaganna í húsinu. Til að koma til móts við kröfur félaganna hóf Alþingi að greiða styrk til félagsheimilisnefndar. Styrkurinn mun hafa gengið beint til veitingamannsins, en rökin fyrir styrknum voru m.a. þau að veitingamaðurinn þyrfti að sinna ýmiss konar skipulagningu og félagsþjónustu, sem ekki væri beint í hans verkahring en leiddi af stöðu hússins.

Litið var á þessar greiðslur sem tímabundna aðstoð. Keypt var íbúð fyrir fræðimann, sem áður hafði dvalið í húsinu, og um leið fengu Íslendingafélögin aðstöðu fyrir skrifstofur á annarri hæði og þangað var bókasafn Íslendingafélagsins flutt en sendiráðsprestur fékk aðstöðu á þriðju hæð fyrir sig og söfnuð. Einnig var salurinn á fyrstu hæð og aðstaða í eldhúsi bætt verulega. Tilgangurinn með breytingum á skipun mála í húsinu var til að reyna að auka aðsóknina og var það allt samkvæmt óskum félaganna. Ekki tókst að koma frekara lífi í starfsemina og erfiðleikarnir í rekstri hússins héldu áfram, þrátt fyrir tilraun til að bæta hana á ýmsan hátt. Um þetta leyti eða 1994 var stjórn hússins breytt og skyldi hún koma beinna að rekstri hússins en áður. Ráðinn var sérstakur rekstrarstjóri til að skipuleggja reksturinn og tryggja menningarlegra yfirbragð á honum og var tímabundinn styrkur til veitingasölu felldur niður á sama tíma, enda var ætlunin að vertinn beitti sér eingöngu að rekstri félagsheimilisins. Var það von manna að rekstrarstjórinn styddi veitingastarfsemina með óbeinum hætti, m.a. með frumkvæði að menningarlegum uppákomum o.þ.h..

Þrátt fyrir þessa tilraun til þess að bæta reksturinn virtist afkomugrundvöllur veitingasölunnar brostinn. Það var aldrei markmið Alþingis að standa fyrir beinum rekstri veitingasölu í Jónshúsi. Á árinu 1996 sagði rekstrarstjórinn lausu starfi sínu og bar m.a. við ófullnægjandi stuðningi við reksturinn. Þá gafst veitingasalinn endanlega upp á rekstrinum.

Um það leyti upphófust nokkrar væringar í kringum starfsemina í kjölfar ásakana fulltrúa Íslendingafélagsins á umsjónarmann. Formaður hafði skrifað stjórn FÍNK og gert athugasemdir um umgengni og greint frá kvörtunum nágranna um hávaða á skemmtunum. Spöruðu aðilar ekki stór orð í Nýjum hafnarpósti og fjölmiðlum á Íslandi. Jónshúsi var lokað um stuttan tíma. Sendiherra sagði af sér formennsku í kjölfarið enda hafði hann lýst þeirri skoðun sinni að eðlilegast væri að starfsmaður Alþingis í stjórn hefði formennsku á hendi þar sem starfsemin er samtvinnuð við rekstur Alþingis. Núverandi formaður kom þarna við sögu og tók m.a. upp hanskann fyrir umsjónarmann, sem hann taldi ómaklega vegið að.

Ákveðið var að fresta ráðningu rekstrarstjóra og láta reyna á hvort hin almenna sjálfsprottna félagsstarfsemi gæti þrifist við breyttar aðstæður. Stjórn hússins hvatti jafnframt félögin til að leggja sitt af mörkum til að endurvekja veitingasölu þó í annarri mynd væri. Settar voru ákveðnari umgengnisreglur en áður. Var það löngu tímabært og gert í góðri sátt við flesta notendur. Haustið 1997 hóf Íslendingafélagið að standa fyrir kaffisölu á sunnudögum sem mun hafa mælst ágætlega fyrir. Rekstrargrundvöllur þótti ekki sterkur, en er þó enn haldið áfram. Mikilvægt er að það komi fram að rekstur veitingasölu var einungis lítill þáttur í rekstri félagsstarfsins seinni árin. Margvísleg félagsstarfsemi fór og fer þar fram flesta daga á vegum fyrrnefndra félaga, safnaðarins og nokkurra annarra aðila. Þessi starfsemi fer öll fram að frumkvæði félaga en með myndarlegum stuðningi Alþingis í formi endurgjaldslausrar húsnæðisaðstöðu. Einnig aðstoðar Alþingi við að skipuleggja starfsemina, kostar ljós og hita og þrif á sameiginlegu húsnæði og margt fleira. Menningarlegar uppákomur, s.s. tónleikar, hafa haldið áfram eftir að rekstur veitingasölunnar hætti. Það hefur að öllu leyti byggst á frumkvæði félaga og einstaklinga.

Úttekt á rekstrinum

Þrátt fyrir að félagsstarfsemin hafi gengið vel síðustu tvö ár hefur verið óánægja með ástandið hjá fulltrúum helstu félaga Íslendinga í Kaupmannahöfn. Þykir eftirsjá í veitingasölunni, sem er nú einungis einu sinni í viku um vetrartímann. Ýmsir vilja að Alþingi sjái um veitingasöluna þar sem víst þykir að grundvöllur fyrir sjálfbærri starfsemi sé ekki fyrir hendi. Óhjákvæmilegt er að bregðast við breyttum aðstæðum og endurskipuleggja starfsemina. Þá var vitað að sumarið 1998 myndi sendiráðspresturinn, sem var umsjónarmaður hússins og starfsmaður stjórnarinnar, hætta störfum. Átti nýr prestur að taka við umsjón hússins og búa í húsinu? Stjórnin taldi rétt að undirbúa hugsanlegar breytingar. Því fól forseti Alþingis Ríkisendurskoðun að gera úttekt á rekstri Jónshúss, að tillögu stjórnar hússins. Ríkisendurskoðun hóf störf sín í árslok 1997 og skilaði skýrslu í apríl 1998. Í skýrslunni er vakin athygli á lélegri nýtingu hússins og bent á ýmsar leiðir til úrbóta í þeim efnum. Í skýrslu sinni vekur Ríkisendurskoðun sérstaklega athygli á því að sú aðstaða sem Íslendingar í Kaupmannahöfn hafa í Jónshúsi er einstök og þekkist ekki annars staðar hjá Íslendingum erlendis. Talið er mikilvægt að félög Íslendinga taki meiri þátt í rekstrinum en verið hefur, verði um óbreyttan rekstur að ræða.

Bent var á þann kost að selja núverandi fræðimannsíbúð og flytja aðstöðu hans aftur í Jónshús til að auka nýtingu þess. Þá var bent á þann möguleika að fá fleiri rekstraraðila inn í húsið til að bæta nýtingu þess. M.a. var varpað fram þeirri spurningu hvort hugsanlegt væri að sendiráðið vildi flytja í húsið. Fram hefur komið að gefandinn, Carl Sæmundsen, var því mjög fylgjandi á sínum tíma (kemur fram í bréfi hans dags. 28.11. 1975). Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á það sem einn kost af mörgum að félögin víki úr húsinu fyrir annarri starfsemi. Þar er jafnframt bent á að þá þyrfti að veita félögunum aðstoð með styrkjum eða útvegun á öðru húsnæði. Fleiri ábendingar koma fram í niðurstöðu Ríkisendurskoðunar sem ekki verða tíundaðar sérstaklega hér. Niðurstöður skýrslu Ríkisendurskoðunar voru kynntar á samráðsfundi stjórnarinnar með félögunum í júní sl. Þar voru félögin hvött til að koma með eigin ábendingar áður en stjórnin mótaði tillögur sínar.

Staða mála

Það er ljóst að starfsemin í Jónshúsi er í kreppu. Helstu ástæðuna er að finna í því að baklandið, sem stóð undir sjálfbærum rekstri hússins um árabil, hefur breyst. Alþingi hefur komið meira inn í reksturinn síðustu ár og þarf að stórauka stuðninginn ef umgjörðin á að vera sú sama og var fyrr á árum. Því miður hafa margir velunnarar Jónshúss neitað að ræða framtíðina af raunsæi. Stjórnin hefur reynt að nálgast málið af varfærni en uppskorið tortryggni og hinar verstu ásakanir hjá sumum þessara aðila. Fulltrúar stúdenta hafa farið mikinn. Lítið hefur þó farið fyrir tillögugerð frá þeim og e.t.v. ekki við því að búast.

Þegar sendiráðspresturinn, sr. Lárus Þorv. Guðmundsson, lét af störfum í júlí sl. var ákveðið að nýr prestur flytti ekki í húsið. Því réð stjórnin Kristínu O. Bonde strax í starf umsjónarmanns. Með þeim hætti leitaðist stjórnin við að tryggja að ekki yrði truflun á starfseminni, en Kristín fær jafnframt víðtækt umboð til að skipuleggja starfið með félögunum. Kristín hefur annast bókasafn Íslendingafélagsins í Jónshúsi um árabil og séð um konukvöld, sem er merk starfsemi sem lengi hefur haft athvarf í Jónshúsi. Hún hefur sótt flesta samráðsfundi félaganna með stjórn og oft haft uppi málefnalega gagnrýni og verið tillögugóð fyrir hönd notenda. Aðstaða félaganna fyrir starfsemi í húsinu er betri nú en hún var í upphafi enda hefur Íslendingum í Kaupmannahöfn og félögum þeirra verið sýndur mikill velvilji af hálfu Alþingis.

Framtíðin ­ ástæðulítill ótti

Eins og fyrr segir hefur stjórnin ekki mótað tillögur sínar. Þar með er óþarfi að ganga út frá því sem gefnu að félögunum verði ekki ætlaður staður í húsinu. Verði félagsstarf áfram rekið í húsinu má telja að mun minna rými þurfi en nú er til staðar. Því verði leitað eftir aukinni nýtingu með því að fá fleiri aðila inn í húsið. Til greina kemur að flytja fræðimannsíbúðina í húsið á ný. Félög Íslendinga í Kaupmannahöfn hafa takmarkaða getu til að leggja nokkuð af mörkum umfram sjálfboðavinnu, sem oft hefur verið drjúg. Fái þau stuðning annarra, sem nær stendur að styðja almenna félags- og menningarstarfsemi, gæti það auðveldað lausn mála.

Stjórnarinnar bíða erfið verkefni. Það snýr ekki aðeins að nýtingu og starfseminni í Jónshúsi. Fyrir liggur að veggir Jónshúss eru mjög illa farnir af rakaskemmdum frá jarðvegi. Fljótlega þarf að framkvæma stórviðhald á þeim. Hugsanlegt er að loka þurfi húsinu á meðan, sennilega næsta vor. Þegar viðgerð lýkur er æskilegt að breytt fyrirkomulag taki gildi. Skiljanlegt er að velunnarar Jónshúss og forráðamenn hinna ýmsu félaga sem hafa aðstöðu í húsinu hafi áhyggjur af framtíðinni. Það hefur komið skýrt fram að ekki stendur til að "hrekja" félög Íslendinga úr Jónshúsi. Á fundi formanns með félögunum 24. júní sl. var það tekið fram að Alþingi muni reyna að gæta hagsmuna Íslendinga sem hafa átt athvarf í húsinu. Reyndi formaður að fullvissa fundarmenn um að samráð verði haft við félögin um skipulagsbreytingar. Það er einlægur vilji formanns stjórnar Jónshúss að finna megi niðurstöðu í málefnum Jónshúss, sem sæmileg sátt getur orðið um. Til þess þarf góðan vilja allra þeirra sem koma að málum. Samstarf við félög Íslendinga í Kaupmannahöfn hefur oftast verið með ágætum þau 9 ár sem undirritaður hefur komið að rekstri hússins. Er ekki ástæða til að ætla annað en að svo verði áfram. Treysti ég því að Stúdentafélagið muni, ásamt öðrum félögum, vinna með stjórn Jónshúss að því að finna ásættanlega niðurstöðu um framtíð starfseminnar.

Jónshús í Kaupmannahöfn.