Ljóðárur eftir Kristjönu Emilíu Guðmundsdóttur. Gerður Helga Helgadóttir teiknaði myndir, Grímur Marínó Steindórsson hannaði kápu. Ásprent/pob, Akureyri. Ásútgáfan Akureyri 1998 ­ 74 bls. LJÓÐÁRUR er fjórða bók skáldsins. Hún skiptist í þrjá kafla: Létt flýgur ljóðið, Daggartárin perla og Svo björt ertu móðir. Það er heildarblær yfir tveim fyrri hlutum bókarinnar.

Liljur vallarins

BÆKUR

Ljóð

LJÓÐÁRUR

Ljóðárur eftir Kristjönu Emilíu Guðmundsdóttur. Gerður Helga Helgadóttir teiknaði myndir, Grímur Marínó Steindórsson hannaði kápu. Ásprent/pob, Akureyri. Ásútgáfan Akureyri 1998 ­ 74 bls.

LJÓÐÁRUR er fjórða bók skáldsins. Hún skiptist í þrjá kafla: Létt flýgur ljóðið, Daggartárin perla og Svo björt ertu móðir. Það er heildarblær yfir tveim fyrri hlutum bókarinnar. Þar eru ljóðin flest órímuð og virðist rýni sem skáldinu takist þar betur og sum þeirra ljóða snerta lesanda eins og aðeins það bezta í ljóðlist getur gert.

Samhljómur ljóðanna er sterkur og yfir þeim hvílir viss heiðríkja sem virkar eins og hægt sé að snerta þann hlutkennda veruleika sem felst í orðum með næmi fingurgómanna.

Rás tímans felst víða í einfaldleika lóðsins: /Skammt virðist / síðan ég stóð við hné / ömmu minnar / og hlýddi á sögur / nú stendur lítill glókollur / við hné mér / og hlýðir á sögu /.

Það er eins og trúin á hið fagra í náttúrunni og hið góða í manninum hafi yfirburði í ljóðunum, þótt oft drjúpi sorg og sársauki úr penna: / þegar myrkrið / lykur jörðina / og byrgir okkur sýn / þá festir Guð stjörnur / um allan himininn / til þess að lýsa / okkur mönnunum /.

Ljóðið um Reagan og Gorbatsjov er ekki dýrt kveðið, á varla heima í bókinni: / Á Íslandi / leiðtogar áttu fund / í Höfða settust / niður um stund / Um heimsfriðinn / ræddu þeir merku menn / alþjóð vænti / þar afreka senn /.

Rímuðu ljóðin í þriðja hluta bókarinnar virðast sanna að skáldinu lætur betur að yrkja óbundið. Hvað um það sýnast Ljóðárur með því athyglisverða sem kemur út af ljóðabókum á þessari vertíð.

Stundum vísa útlínuteikningar veginn til ljóðanna ­ stundum ekki. Kápumynd laðar að. Útlit bókarinnar er vandað.

Jenna Jensdóttir

Kristjana Emilía Guðmundsdóttir