29. desember 1998 | Minningargreinar | 483 orð

Bogi Þorsteinsson

Bogi Þorsteinsson Bogi Þorsteinsson, fyrrverandi formaður Körfuknattleikssambands Íslands, er látinn. Í huga okkar, eldri leikmanna, sem störfuðum með honum meðan hann var formaður KKÍ, skipar hann stóran sess.

Körfuknattleikssamband Íslands var stofnað árið 1961. Bogi var aðal hvatamaður að stofnun þess, fyrsti formaður og gegndi því starfi í 8 ár. Þó að körfuknattleikurinn hafi verið stundaður áður en Bogi hóf störf sem formaður þá urðu þáttaskil með tilkomu þess. Bogi var heimsmaður og hafði breiðari yfirsýn yfir íþróttina og betri sambönd en almennt tíðkaðist. Má í þessu tilviki nefna að með starfi sínu sem flugumferðarstjóri á Keflavíkurflugvelli var hann í góðu sambandi við yfirmenn hersins á Vellinum og með þessu samstarfi kom hann á keppni milli hermanna Nato á Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurúrvals en í þá daga voru allir landsliðsmennirnir úr Reykjavíkurliðunum. Þannig opnaðist leið körfuknattleiksmanna að glæsilegu íþróttahúsi á Keflavíkurflugvelli. Var þetta ómetanleg reynsla fyrir þá leikmenn sem valdir voru í landslið því á Íslandi var ekkert löglegt keppnis- eða æfingahús í körfuknattleik fyrr en með opnun Íþróttahallarinnar árið 1965. Hingað fékk hann þjálfara frá Bandaríkjunum sem héldu hér þjálfaranámskeið. Með störfum sínum innan Alþjóða körfuknattleikssambandsins opnaði hann nýjar leiðir. Unglingalandsliðið í körfuknattleik var sent í Evrópukeppni sumarið 1963 og landslið karla í æfingaferð til Bandaríkjanna um áramót 1964­'65. Með þessum ferðum undirbjó Bogi framtíð körfuboltans um ókomna tíð. Áður en Bogi hóf störf sem formaður körfuknattleikssambandsins hafði íþróttin aðallega verið iðkuð af Íslendingum sem störfuðu á Keflavíkurflugvelli, nemendum á Laugarvatni, framhaldsskólum í Reykjavík auk Ármanns, ÍR og KR. Í dag hefur hún þróast í að verða næstvinsælasta íþróttagreinin á Íslandi, ekki síst fyrir þá fyrirhyggju og áhuga sem hann lagði í íþróttina. Eftir að Bogi hætti sem formaður hafði hann sem áður brennandi áhuga á íþróttinni. Sem dæmi um framsýni hans vann hann að stofnun Minniboltanefndar árið 1971. Ein meginstefna nefndarinnar var að hvert lið yrði að hafa 10 leikmenn, hver leikmaður mætti ekki leika allan leikinn og allir að leika að minnsta kosti fjórðung leiksins. Ekki var keppt um gull og silfur heldur fengu prúðasta liðið og leikmaðurinn sérstaka viðurkenningu og allir sem þátt tóku í mótinu minjagrip. Þetta er í dag einn meginþátturinn í stefnumótun ÍSÍ sem samþykkt var á ársþingi ÍSÍ árið 1996. Þetta lýsir framsýni Boga Þorsteinssonar, sem með réttu má nefna föður körfuknattleiksins á Íslandi.

Fyrir framlag sitt til íþróttamála hlaut Bogi æðstu viðurkenningu Körfuknattleikssambands Íslands, eða heiðurskross, auk þess sem hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.

Fyrir hönd okkar KR-inganna sem ólust upp undir handleiðslu hans þá virðum við hann fyrir hans ómetanlegu störf. Fyrir okkur var Bogi heimsmaðurinn, hvort sem hann kom fram fyrir hönd Íslands á erlendri grund, eða í samskiptum við okkur sem leikmenn. Við munum minnast Boga sem mikils heiðursmanns.

Ég get ekki látið hjá líða að senda nánasta vini hans, Inga Gunnarssyni og konu hans, sem hafa reynst honum ómetalegur styrkur í veikindum hans samúðarkveðjur.

Fyrir hönd eldri KR-inga,

Kolbeinn Pálsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.