3. febrúar 1999 | Fastir þættir | 859 orð

Hennar tími er liðinn Sumir hafa viljað finna tengsl á milli Sólborgar á Svalbarði og Solveigar á Miklabæ er var á dögum rúmri

Áramótahvellurinn í Sjónvarpinu virðist liðinn hjá, a.m.k. ætla ekki að verða frekari eftirmál vegna Dómsdags, myndar Egils Eðvarðssonar um Sólborgarmálið. Ýmsir hafa haft samband við undirritaðan og viljað miðla af fróðleik sínum um þetta ógæfulega mál.
Hennar tími er liðinn Sumir hafa viljað finna tengsl á milli Sólborgar á Svalbarði og Solveigar á Miklabæ er var á dögum rúmri öld fyrr. Báðar fyrirfóru þær sér og báðar gengu þær aftur.

Áramótahvellurinn í Sjónvarpinu virðist liðinn hjá, a.m.k. ætla ekki að verða frekari eftirmál vegna Dómsdags, myndar Egils Eðvarðssonar um Sólborgarmálið. Ýmsir hafa haft samband við undirritaðan og viljað miðla af fróðleik sínum um þetta ógæfulega mál. Nokkrar viðbætur og leiðréttingar hafa komið fram sem sjálfsagt er að koma að en einnig hefur þjóðarsálin bært örlítið á sér og bætt við sögusögnum og slúðri er spratt í kjölfar málsins á sínum tíma. Það er annars merkilegt hvað lítið virðist hafa verið fjallað um Sólborgarmál lengi frameftir öldinni og ekki er minnst á það í Öldinni sem leið 1861­ 1900 . Bendir það til að málið hafi ekki vakið mikla athygli. Nema ritstjórum "Aldarinnar" hafi sést yfir það eða ekki talið það ómaksins virði. Var mér bent á að Þórarinn Grímsson Víkingur hafi fyrstur rifjað upp málið í bók sinni Mannamál er út kom 1957.

Einn viðmælandi minn sem ólst upp í Þistilfirði sagðist aldrei hafa heyrt á Sólborgarmál minnst þá hann var að alast upp. Sagnfræðingurinn Guðjón Friðriksson, sem rannsakað hefur öðrum mönnum betur lífssögu Einars Benediktssonar, segir fáa hafa minnst á Sólborgarmál í sín eyru og engan gefið í skyn atburðarásina sem lögð er til í Dómsdegi. Eiríkur Kristjánsson bóndi á Borgum í Þistilfirði hefur aðra sögu að segja og segist hafa heyrt talað um Sólborgarmál á þeim nótum sem Dómsdagur sagði frá. Hann segir afa sinn hafa farið illa út úr jarðakaupum við Júlíus Sigurðsson, mág Einars, árið 1905. Var að sögn Eiríks talið fullvíst að Einar hefði staðið á bakvið þau viðskipti enda um að ræða jarðir í Þistilfirði sem Einar keypti nokkrum dögum eftir að Sólborg fyrirfór sér. Þessi viðskipti Einars eru til skjalfest og kaupsamningur dagsettur á Raufarhöfn 23. janúar 1893. Voru þetta jarðirnar Borgir, Kollavík og Kollavíkursel í Þistilfirði. Sendi Eiríkur mér ljósrit af kaupsamningunum, máli sínu til staðfestingar. Telur hann að bein tengsl séu á milli framgöngu Einars í Sólborgarmáli og jarðakaupanna.

Guðjón Friðriksson vill eyða öllum meintum tengslum jarðakaupa Einars við Sólborgarmál. Einar Benediktsson hafi ávallt staðið í viðskiptum og jarðakaupin sjálfsagt löngu ákveðin áður en hann lagði upp í Þistilfjarðartúrinn. Megi telja líklegt að Einar hafi þarna verið að versla í umboði föður síns og þannig hafi jarðirnar síðar komist í eigu Júlíusar úr dánarbúi Benedikts Sveinssonar. Einar var enda lengi í túrnum og réttaði í fleiri málum áður en hann snéri aftur heim til Héðinshöfða. Jarðakaupin eru samt til marks um að Einar hefur ekki verið með öllu banginn og haldið sínu striki þrátt fyrir harmleikinn á Svalbarði.

Handritshöfundurinn og leikstjórinn Egill Eðvarðsson valdi þann kost að blanda sér ekki í umræðurnar um myndina. Væri samt fróðlegt að vita hvort hann hafi heyrt orðróm um þá atburðarás sem hann lýsir eða hvort hún sé alfarið hans hugarsmíð. Kannski má það einu gilda. Egill kaus að láta verkið tala og þagði sjálfur meðan þjóðin blés. Svo er það búið. Tími jólamyndarinnar er liðinn.

Einhverjir hafa spurt hvað orðið hafi um Árnínu, dóttur Sólborgar, þá er var á fjórða ári er móðir hennar lést. Hún mun hafa komist til fullorðinsára, sest að í Eyjafirði og átt þar afkomendur. Sólborg mun því vera lang- eða langa-langamma einhverra sem nú eru uppi. Sigurjón bróðir Sólborgar kynntist konu í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Rannveig hét hún og hafði verið dæmd fyrir að bera út barn sitt. Sigurjón og Rannveig tóku saman og bjuggu alla tíð á Raufarhöfn. Í grein er Sveinn Valdimar Jónasson og Vigdís Sigurðardóttir skrifa í Morgunblaðið laugardaginn 30. janúar er sagt að Sigurjón og Rannveig hafi átt dóttur saman er lést á níunda ári. Var til þess tekið hversu barngóð þau voru.

Sumir hafa viljað finna tengsl á milli Sólborgar á Svalbarði og Solveigar á Miklabæ er var á dögum rúmri öld fyrr. Nöfn þeirra hafa svipaða hljóman. Báðar fyrirfóru þær sér og báðar gengu þær aftur en svo mun einnig um fleiri. Einar Benediktsson orti um Miklabæjar- Solveigu og séra Odd og gekk svo á vit örlaganna á Svalbarði í Þistilfirði fáum árum síðar. Miklabæjar-Solveig kom fram á miðilsfundi á fjórða áratug þessarar aldar er varð til þess að Skagfirðingar grófu loks bein hennar í vígðri mold í Glaumbæjarkirkjugarði. Í Langnesingasögu er út kom á síðasta ári er þess getið að mikið hafi verið lagt í líkklæði Sólborgar og barnsins. Þykir það benda til þess að útför hennar hafi verið með formlegri hætti en gefið hefur verið í skyn til þessa. Sólborg hafi jafnvel strax verið greftruð í kirkjugarðinum á Svalbarði en ekki lent innan garðsins þegar hann var síðar stækkaður eins og oftast hefur verið álitið.

Merkilegt við þetta mál er að þó ekki séu liðin nema rúm 100 ár, hefur þegar skapast svigrúm fyrir getgátur og sögusagnir. Alþýðusagan er fljótari að sveipast gleymsku og dulúð en embættismannasagan íslenska sem til skamms tíma hefur verið hin eina Íslandssaga. Þarna slær sögunum saman í heimsborgaranum og embættismanninum Einari Benediktssyni annars vegar og alþýðustúlkunni ógæfusömu úr Þistilfirði hins vegar. Hennar tími var skammur og er löngu liðinn.

VIÐHORF eftir Hávar SigurjónssonAðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.