Gamanleikur eftir Neal og Ferner í þýðingu Emils Thoroddsens. Leikstjóri: Óskar Jónasson. Lýsing: Elvar Bjarnason. Leikmynd: Frosti Friðriksson. Búningar: Brynja Emilsdóttir og Helga Guðmundsdóttir. Tónlist: Teitur Björn Einarsson, Sigríður Vala Gunnarsdóttir. Leikendur: Ýmir Ö. Finnbogason, Gautur Sturluson, Helgi M. Jónsson, Björn Hólmsteinsson, Sverrir I. Gunnarsson, Edda M.
Að hverju hló afi?

LEIKLIST

Herranótt MR

Tjarnarbíó

ÞORLÁKUR ÞREYTTI

Gamanleikur eftir Neal og Ferner í þýðingu Emils Thoroddsens. Leikstjóri: Óskar Jónasson. Lýsing: Elvar Bjarnason. Leikmynd: Frosti Friðriksson. Búningar: Brynja Emilsdóttir og Helga Guðmundsdóttir. Tónlist: Teitur Björn Einarsson, Sigríður Vala Gunnarsdóttir. Leikendur: Ýmir Ö. Finnbogason, Gautur Sturluson, Helgi M. Jónsson, Björn Hólmsteinsson, Sverrir I. Gunnarsson, Edda M. Júlíusdóttir, Lovísa Árnadóttir, Ása B. Eckhardt, María Stefánsdóttir, Dóra Jóhannsdóttir, Grímur Hjörleifsson, Haraldur H. Guðmundsson, Þóra J. Kjarval, Þóra M. Þorgeirsdóttir. Frumsýning fimmtudaginn 4. mars.

ÞEGAR ég heyrði að Herranótt ætlaði að setja upp Þorlák þreytta leist mér ekki alltof vel á blikuna. Farsar nærast oft og tíðum á samtíma sínum, og að nokkrum áratugum liðnum missir fyndni þeirra marks og eftir stendur feyskin beinagrindin ein í textanum, og farsastextar eru alla jafna ekkert eyrnayndi, svona einir og sér. Og aukinheldur bjóða margir farsar upp á meira "fútt" en Þorlákur þreytti, sem er satt að segja orðinn pínulítið lúinn eftir áratuga andvökur og helst til lengi að koma sér til skila. En farsar spegla líka samtíð sína. Þeir eru söguleg heimild um orðfar, klæðnað, hátterni, tíðaranda, siðferði og já, síðast en ekki síst, hvað kom (í þessu tilviki) afa og ömmu til að hlæja.

Óskar Jónasson, kvikmyndaleikstjóri og skrípari með meiru, leikstýrir Herranótt að þessu sinni. Óskar nýtir sér ýmsar brellur úr þöglu kvikmyndunum til að lífga upp á Þorlák og tekst oftast vel til. En það er natnin við endursköpun tíðarandans sem fyrst og fremst blæs lífi í þessa sýningu og gerir hana að forvitnilegri og góðri skemmtun. Uppsetningin kastar af sér þröngum farsastakkinum og verður að nokkru leyti könnunarleiðangur um horfna tíð. Þessi nálgun hentar leikhópnum ágætlega og eykur gildi Þorláks þreytta sem skólasýningar til mikilla muna. Mjög er vandað til allrar umgerðar. Sviðsmynd og leiktjöld eru sérlega vel unnin og búningar góðir.

Leikendur standa sig upp til hópa ágætlega og fara betur með textann en gengur og gerist á skólasýningum. Ýmir Örn Finnbogason sem Þorlákur þreytti veldur sínu hlutverki vel. Ásdís Berglind Eckardt sem eiginkona hans, blekkt og blekkjandi, er fyrirferðarmikil eins og ísjakinn sem stoppaði Títanik þegar hún kemst í gang. Tónskáldið í meðförum Gauts Sturlusonar er allt á valdi tilfinninganna eins og vera ber og Adda unnusta hans, leikin af Maríu Stefánsdóttur, blíð og heimasætuleg eins og þær voru víst Evudæturnar í þá tíð. Það er eggjandi elegans yfir látbragði og framkomu Dóru Jóhannsdóttur sem söngkonunnar hægt upprennandi, Stefaníu Íslandi. Og ég er viss um að pilturinn í gúmmístígvélunum, leikinn sveitalega sannfærandi af Grími Hjörleifssyni, er ættaður af einhverju eyðibýlinu í Húnaþingi og hefur heyrt Rís þú unga Íslands merki tíu ára gamall og engin lög síðan.

En af því að þetta er nú gamanleikrit þá er vert að geta þess, að smellnasta atriðið í sýningunni er ekki úr Þorláki þreytta sjálfum heldur ættað frá aðstandendum sýningarinnar og er einkar Óskarslegt. Þegar skipt er um leiktjöld milli annars og þriðja þáttar kemur Þóra Margrét Þorgeirsdóttir vaskleg og einbeitt fram á sviðið, rétt eins og enginn annar sé þar, og á í nokkrar mínútur athygli salarins óskipta við ákaflega óvænta iðju. Hafi skrattinn einhvern tímann sloppið úr sauðarleggnum gerði hann það þarna.

Guðbrandur Gíslason