Ég valsaði um gamla völlinn þennan mánudagsmorgun, fetaði þannig í fótspor allra gömlu meistaranna sem léku þarna í eina tíð ­ menn eins og Allan Robertson, Morris- feðgar, þríeykið fræga Vardon, Braid og Taylor, Jones, Hagen og Hogan. Þar sem ég gekk upp The Links, götuna sem liggur meðfram síðustu braut gamla vallarins á hægri hönd, varð ég var við enn eina golfvöruverslunina.
Sextíu draumahögg Ég valsaði um gamla völlinn þennan mánudagsmorgun, fetaði þannig í fótspor allra gömlu meistaranna sem léku þarna í eina tíð ­ menn eins og Allan Robertson, Morris- feðgar, þríeykið fræga Vardon, Braid og Taylor, Jones, Hagen og Hogan. Þar sem ég gekk upp The Links, götuna sem liggur meðfram síðustu braut gamla vallarins á hægri hönd, varð ég var við enn eina golfvöruverslunina. Þessi var kennd við Tom Morris, eldri og yngri. Samanlagt sigruðu þeir sjö sinnum á opna breska meistaramótinu, eða bara opna mótinu eins og það heitir í raun. Ég taldi því vissara að sjá hvað þessi verslun hefði upp á að bjóða. Jú, jú, þarna var varningur sem nefndur var Tom Morris þetta og Tom Morris hitt. Margt af þessu hafði ég nú séð áður, en aldrei á ævinni hafði ég séð Tom Morris viskýflösku. Hana varð ég að eignast. Svo ég gaf afgreiðslumanninum merki um að nú yrðu gerð stórinnkaup. Hann hafði augljóslega ekki haft mikið að gera þennan morgun, því hann spratt á fætur og sagði mér allt um Morris- feðga og hvernig hugmyndin um Morris-viskýið varð til. Ég var afar heillaður af þessu öllu saman. Afgreiðslumaðurinn hófst síðan handa við að búa um flöskuna og spurði hvort ég ætlaði að fara út að leika golf ­ var ef til vill hræddur um að ég færi upp á herbergi og drykki allt viskýið. Ég svaraði þessari spurningu neitandi og sagði honum að ég hefði einungis áhuga á að leika gamla völlinn, en hann væri lokaður eins og hver einasti maður í bænum vissi. Því næst spurði ég manninn hvort hann myndi eftir einhverju merkilegu sem gerðist í alþjóðlegu móti áhugamanna, sem haldið var á gamla og nýja vellinum vorið áður. Hann svaraði jafnharðan: "Já, blessaður vertu. Þá setti íslenskur strákur vallarmet á nýja vellinum ­ lék á sextíu höggum." Hann mundi ekki hvað pilturinn hét, enda grimmilegt að leggja það á manninn. Ég sagðist vera á staðnum til að skrifa grein um þetta afrek Arnar og afgreiðslumaðurinn stakk upp á að ég ræddi við manninn, sem bar kylfurnar fyrir Örn í þessum sögulega hring. Hann kvaðst ekki vita hvar hann væri að finna, hrópaði því fram í búðina, þar sem starfsfélagi hans var að raða í hillur: "Hvar er maðurinn bar kylfur Íslendingsins?" Það var auðséð að snilldarleikur Arnar tæpum ellefu mánuðum áður var íbúum enn í fersku minni, svo mjög að hann er kallaður "Íslendingurinn". Maðurinn kom til okkar og sagði að umræddur kylfusveinn héti George Stewart, kallaður kylfusveinninn Dod, eða Dod the Caddie á frummálinu. Sagði hann enn fremur að kylfusveinninn Dod væri fastagestur á krá nokkurri neðar í götunni. Ég skundaði þangað eftir að hafa greitt fyrir viskýið.

Ekki mikill drykkjumaður Þarna var kráin. Ég gekk ótrauður inn, en mætti manni í gættinni. Gat þetta verið kylfusveinninn Dod? Tæplega færi ég að hitta hann svona á förnum vegi. Þegar inn var komið varð ég hvumsa. Þarna sátu nokkrir menn á krá á mánudagsmorgni. Sumir þeirra virtust svo gamlir að þeir hefðu allt eins getað fundið upp golfíþróttina. Þeir hefðu áreiðanlega klæðst skotapilsum ef það væri ekki svona kalt í veðri. Ég tók mér stöðu þarna við barinn og ávarpaði mannskapinn: "Ég er að leita að kylfusveininum Dod." Um leið og ég hafði mælt þessi orð réttu mennirnir hendur sínar á loft, mishratt þó, og bentu út. Ég hélt að þeir væru að reka mig á dyr, en svo var ekki. "Hann var að fara rétt í þessu," sögðu þeir með einum sterkum, skoskum hreim. "Þú hefur örugglega mætt honum fyrir utan," sagði barþjónninn. Það gat nú verið. Það var líklega ekki þess virði að hlaupa eins og fætur toguðu út á hlað, hann væri líklega farinn.

Mér var skapi næst að fá mér stóran bjór til að drekkja sorgum mínum, en lét það eiga sig og spurði kráargesti hvort þeir hefðu símanúmerið hjá kylfusveininum Dod. Nei, enginn hafði það, en mér var bent á aðra krá, sem Dod sótti reglulega. En gömlu mennirnir lögðu ríka áherslu á að gera mér ljóst að Dod þessi sötraði ekki bjór allan daginn. "Hann er samt ekki mikill drykkjumaður," sagði einn eldri mannanna við barinn af fyllstu einlægni. Svo það var ekkert annað að gera en að leggja leið sína á næstu krá.

"Ég er að leita að kylfusveininum Dod," sagði ég og mér var óneitanlega farið að líða eins og ég væri kominn í villta vestrið. "Ég veit hvern þú átt við," sagði konan á bak við barinn. "En hann er ekki hérna núna," bætti hún við. Hún dró þó upp möppu, en í henni voru símanúmer fastagesta kráarinnar. Ég fékk bæði heima- og farsímanúmer Dods og var í sjöunda himni er ég hringdi í Dod og beið fullur eftirvæntingar eftir svari.

Dod svaraði fljótt og bauð mér heim til sín um leið og ég hafði borið upp erindi mitt. Ég lagði leið mína þangað um kvöldið. George Stewart er 43 ára og er frá St. Andrews. Hann býr í nýrri bæjarhlutanum, sem liggur öllu ofar en golfvellirnir við ströndina og verslunargöturnar, ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum. Hann hefur verið kylfusveinn að atvinnu síðan 1980, ber kylfur fyrir "pílagríma" sem leggja leið sína til St. Andrews til að upplifa ógleymanlega stund í vöggu golfíþróttarinnar. Hann hefur farið meira en þrjú þúsund hringi á gamla vellinum sem kylfusveinn. Tvívegis hefur hann verið kylfuberi á opna breska mótinu og fjórum sinnum í Dunhill- keppninni, árlegu móti landsliða sem ávallt er haldið á gamla vellinum.

Búinn að fá nóg Dod segist hafa fyrst borið kylfurnar fyrir Örn á föstudeginum, degi áður en Örn komst á spjöld golfsögunnar í St. Andrews, en þá fengu keppendur að leika æfingahring á gamla vellinum. Sex íslenskir kylfingar tóku þátt í mótinu og voru þeim útvegaðir jafnmargir kylfusveinar. Dod gekk til Arnar, kynnti sig fyrir honum og þannig hófst samstarfið. Á æfingahringnum tók Dod strax eftir því hve högglangur Örn var. "Hann sló alla leið inná flöt á átjándu brautinni og það var ekki einu sinni marktækur meðvindur. Það eru ekki margir sem geta það."

Á laugardagsmorgun lék Örn gamla völlinn á 79 höggum. "Hann var ekki að slá nógu beint, var svolítið villtur í upphafshöggunum og sló mörg járnahögganna of mikið til hægri. Þess vegna átti hann oft mjög erfið vipphögg fyrir höndum, ýmist yfir sandgryfjur þar sem lítið rúm var til þess að stöðva boltann nærri holunni og svo framvegis."

Dod segir að leikur á gamla vellinum hafi gengið hægt. "Það tók okkur tæpar fimm klukkustundir að ljúka leik og við áttum að hefja leik aftur á nýja vellinum stundarfjórðungi áður en klukkan sló fjögur. Við höfðum því lítinn tíma til að hvílast og ég var, satt að segja, búinn að fá nóg. Ég hafði þó tök á að ná mér í hamborgara og smjattaði á honum um leið og ég rétti Erni "dræverinn" og sagði: "Sláðu bara bölvaðan boltann." Margur hefði notað járn í þetta upphafshögg. En ég sagði honum að slá duglega, því brautin var ekki nema um þrjú hundruð metrar ­ fullkomin fyrir Örn. Hann sló alla leið, en boltinn staðnæmdist rétt utan flatarinnar, hægra megin. Því næst vippaði hann upp að holunni og setti púttið í, náði fugli."

Dod er mjög reyndur kylfusveinn og veit hvað hann syngur. Þess vegna vildi hann brýna fyrir Erni að honum væri hollast að hlusta á hann, þótt hann hefði þegar leikið nýja völlinn tvisvar yfir æfingadagana. "Ég sagði við hann: "Ég veit að þú hefur spilað þennan völl tvisvar. En þú skalt hlusta á mig, því ég ætla að hjálpa þér meira, ráðleggja þér hvert er best að miða í upphafshöggunum, gefa þér upp fjarlægðina til fremsta hluta hverrar flatar, holustaðsetningar, brotið í flötunum ­ hvað sem er." Hann svaraði því játandi.

Fyrri níu holurnar voru góðar hjá Erni, en ekkert stórmerkilegt. Ég hef dregið fyrir mann sem hefur leikið þær á 31 höggi. Eftir fyrri níu holurnar sagði ég honum að hann væri hægt og rólega að laga stöðu sína í mótinu, væri nú aðeins þrjú högg yfir pari samanlagt. Við vorum einungis að reyna að laga stöðuna enn frekar. Hann byrjaði síðan frábærlega á seinni níu holunum."

Íhlutun æðri máttarvalda Dod telur að Erni hafi verið ætlað að leika þennan hring á 60 höggum, af æðri máttarvöldum. "Hann var samt ekkert ótrúlega heppinn. Hringurinn þróaðist einhvern veginn þannig að þegar á leið hafði maður einfaldlega á tilfinningunni að næsta pútt færi örugglega ofan í. Hann var mjög sjálfsöruggur á flötunum og það var mjög góður taktur í púttunum."

Á tólftu holunni, sem er 470 metra löng, par 5, sló Örn inná flöt í öðru höggi með 8-járni. Upphafshögg hans var rúmlega 310 metra langt. Örn lék holuna á þremur höggum. Þó Örn hafi leikið þó tólftu af stakri snilld, segist Dod ekki hafa áttað sig á því hve mikið afrek var í uppsiglingu fyrr en á fjórtándu holu. "Þar þurftum við að leita að boltanum í um fjórar mínútur (ef boltinn finnst ekki innan fimm mínútna þarf kylfingurinn að slá aftur af sama stað gegn einu vítishöggi) eftir að hann hafði slegið upphafshöggið of mikið til hægri. Við fundum boltann, sem lá þokkalega í grasinu, og Örn sló hann beint inná flöt og náði enn einum fuglinum. Þá hugsaði ég með mér að það væri eitthvað undarlegt hér á seyði. Það var eins og það gæti ekkert slæmt hent hann þennan daginn. Hann var kominn tíu högg undir parið á einum og sama hringnum ­ og það voru enn fjórar holur eftir.

Örn var mjög nærri því að ná öðrum fugli á fimmtándu braut. Hann notaði aðeins sandjárn í annað höggið, en púttið missti naumlega marks. Hann náði síðan fugli á næstu holu og lék þá sautjándu, sem er erfið par-3 hola, á pari eftir að hafa lent utan flatar.

Á átjánda teig rétti ég honum 2-járn, því það er sandgryfja á miðri brautinni um 240 metra frá teignum. Hann sló síðan inná flöt með 7-járni og gat því leikið völlinn á 59 höggum ef púttið færi í. Það var aftur á móti feti of stutt hjá honum. Ég man að ég sagði honum sérstaklega að sló bara nógu fast, svo boltinn ætti í það minnsta möguleika á að fara ofan í holuna. Ég hugsaði með mér að annaðhvort léki hann á 59 höggum eða 61. Hann sagði þó við mig á eftir að hann hefði bara verið himinlifandi að hafa komið boltanum ofan í holuna. Hann sagði í viðtölum að hann hefði verið mjög taugaóstyrkur undir lokin, en það sást í það minnsta ekki á honum.

Trúðu þessu ekki Þegar ég lagði poka Arnar frá mér fyrir aftan átjándu flötina, spurðu nokkrir kunningjar mínir hvernig mínum manni gengi. Ég sagði að honum gengi nokkuð vel, ætti möguleika á að leika völlinn á 59 höggum ef púttið færi í. Þeir trúðu þessu ekki. Einn þeirra var keppandi, sem ég hafði lofað að bera kylfurnar fyrir daginn eftir, því þegar það loforð var gefið var Örn að leika sautjándu holuna á gamla vellinum um morguninn og var þegar kominn sjö högg yfir parið. Þannig að þegar hann spurði mig við átjándu flötina þegar við vorum að ljúka leik, hvort ég ætlaði að draga fyrir hann daginn eftir, sagði ég: "Veistu það, ég efast um það, því sá sem ég er að draga fyrir núna á möguleika á að leika á 59." Hann trúði því hreinlega ekki. Hann hélt að ég væri að spauga. Fólk kom aðvífandi þegar það vissi hvað var um að vera og óskaði mér til hamingju. Ég benti þeim á það væri ekki ég sem var að spila, heldur Örn."

Erfiður völlur Dod fullyrðir að nýi völlurinn sé án nokkurs vafa erfiðari en sá gamli. "Ég er líka fullviss um að ef nýi völlurinn væri ekki við hliðina á þeim gamla, væri hann notaður reglulega fyrir opna breska meistaramótið. Hann er svo góður. Þó par hans sé aðeins 71 högg, er vallarmatið (SSS) 73 högg, sem undirstrikar hve erfiður völlurinn er."

Ég spyr Dod um aðstæður þennan dag og hvernig tvíeykið hafi brugðist við þeim. Hann svarar: "Veðrið var gott og vindurinn hægur. Flatirnar voru nokkuð hægar, góðar en hægar. Ég aðstoðaði Örn því við að meta brotið í flötunum þegar hann bjó sig undir að pútta, mælti með að hann miðaði nær holunni en ella þegar hann reiknaði með einhverju broti. Hann púttaði því af nokkurri ákveðni.

Einu sinni eða tvisvar vildi Örn ráða ferðinni þegar við völdum kylfu fyrir innáhöggin, en jafnoft tók ég völdin og sagði honum að nota tiltekið áhald þegar hann var ekki sammála. Þetta gekk eins og í sögu."

Gengur með skorkortið á sér Dod segist hafa unnið marga frækna sigra sem kylfusveinn í gegnum tíðina. Hann bar eitt sinn kylfur fyrir einn þriggja keppenda Kanada, sem sigraði í Dunhill- keppninni á gamla vellinum 1994. "Skjólstæðingur" Dods í mótinu var Ray Stewart, sem tryggði Kanada sigur í mótinu með því að leggja Bandaríkjamanninn Fred Couples að velli. Hann segir að vitaskuld hefði það skipt sköpum fyrir sig og fjölskyldu sína, því Dod fékk 7.500 sterlingspund, einn tíunda hluta af verðlaunafé Stewarts, fyrir vikið. Það hafi því, í ljósi þessa, verið ánægjulegasta stundin á ferli hans sem kylfusveinn.

Aftur á móti sagðist hann ekki geta neitað því að hann mundi varðveita methring Arnar innra með sér til æviloka, það sé met sem verði líklega aldrei slegið á nýja vellinum. "Þetta eru ef til vill ekki peningar, heldur hluti af sjálfum mér. Þetta er sögulegt. Þetta er besti árangur sem náðst hefur í St. Andrews frá upphafi. Ég er alltaf með afrit af skorkortinu í jakkavasanum og hef sýnt það mörgum, bandarískum kylfingum sem ferðast hingað, atvinnumönnum og fleirum, þannig að Örn er orðinn ansi frægur, þó ég kunni ekki enn að bera nafnið hans fram," segir Dod, gerir heiðarlega tilraun og hlær. Við tók kennslustund í framburði á nafni kylfingsins unga.

En hvernig brugðust íbúar bæjarins við eftir þennan viðburð? Var vallarmet Arnar í brennidepli á meðal bæjarbúa í vikunni eftir mótið? "Ó, já," segir Dod. "Þetta var umtalaðasta atvikið í mótinu. Fólk átti erfitt með að trúa að þetta hefði gerst. Þetta met á eftir að standa lengur en maður getur ímyndað sér. Ég get bara ekki séð það fyrir mér að einhver slái það. Það getur bara ekki verið."

SAMVINNA tveggja manna, kylfingsins Arnar Ævars Hjartarsonar og kylfusveinsins Dod Stewarts, skóp besta golfhring sem leikinn hefur verið í 600 ára sögu St. Andrews, vöggu golfíþróttarinnar. FORNAR rústir prýða háskólabæinn St. Andrews, en þar er þriðji elsti háskóli Bretlandseyja, stofnaður 1412. KYLFUSVEINNINN Dod, eða George Stewart, eins og hann heitir réttu nafni, með minjagripi um tvö helstu "afrek" sín, mynd frá Dunhill-keppninni 1994 og skorkort Arnar Ævars, sem hann geymir ávallt í jakkavasanum ef vallarmetið skyldi bera á góma. SKORKORT Arnar Ævars Hjartarsonar frá methringnum laugardaginn 23. maí 1998.