VEL hefur veiðst í Hítará að undanförnu, en vorveiði á sjóbleikju stendur þar í apríl. Veiði lýkur nú um mánaðamótin og menn hefjast ekki handa í ánni á ný fyrr en laxinn byrjar að ganga í júní. Á föstudaginn fyrir viku veiddust níu bleikjur og voru þá komnar ellefu á land. Eitthvað veiddist um helgina og á mánudaginn var síðan besti dagurinn, en þá veiddust 23 bleikjur.
Eru þeir að fá 'ann?

Bleikjan

gaf sig í Skiphyl

VEL hefur veiðst í Hítará að undanförnu, en vorveiði á sjóbleikju stendur þar í apríl. Veiði lýkur nú um mánaðamótin og menn hefjast ekki handa í ánni á ný fyrr en laxinn byrjar að ganga í júní.

Á föstudaginn fyrir viku veiddust níu bleikjur og voru þá komnar ellefu á land. Eitthvað veiddist um helgina og á mánudaginn var síðan besti dagurinn, en þá veiddust 23 bleikjur. Megnið af umræddum afla var tekið í Skiphyl, sem er gríðarstór hylur neðst í ánni. Það er ekki nýtt að vorbleikjan veiðist þar, en það styttist í göngutíma bleikjunnar og sjávarfalla gætir í Skiphyl. Veiði var þó lengst af lítil eða engin framan af apríl vegna ísa sem lágu á ánni. Það var ekki fyrr en farið var að hlýna að menn komu út agni og fiskur fór að taka. Hítarárbleikjurnar hafa flestar vegið á bilinu 1 til 3 pund.

Skot og skot ...

Menn eru almennt á því að veiði hafi ekki verið eins góð í Þorleifslæk og í fyrra. Sem fyrr er þó talsvert af fiski í læknum og það eru að koma skot og skot. Af einum veiðimanni fréttist t.d. sem fékk sjö fiska á einum morgni og voru þeir upp í 5 pund. Annar sem heyrðist af var með sex eftir daginn og taldi ekki með annað eins af smáum silungum sem hann sleppti. Það eru líka margar lýsingar af mönnum sem eru að fá einn, tvo eða engan eftir daginn.

Sumardagar

Hafnir eru sérstakir "Sumardagar" í versluninni Veiðihornið, sem margur þekkti ugglaust betur undir nafninu Veiðimaðurinn í Hafnarstræti. "Sumardögunum " lýkur á sunnudaginn. Á "Sumardögum" verða nýjustu veiðivörurnar kynntar og má þar nefna veiðihjól frá Okuma, veiðistangir, jakka, vöðlur og fleira frá Ron Thompson, öndunarvöðlur, skór og stangir frá Scierra, ítölsk veiðigleraugu frá Aqua, flugustangir frá Sage og fluguhjól frá ATH. Sérstök kynningartilboð og afslættir verða í gangi alla helgina.

Veiði hefur verið góð í Geirlandsá, hér er Þórhallur Guðjónsson með væna sjóbirtinga, sá stærri er 7,5 pund.