VÍKTOR Tsjernomyrdín, sendimaður Rússa á Balkanskaga, átti í gær viðræður við Gerhard Schröder, kanslara Þýskalands, um Kosovo- málið og sagði að þeim loknum, að nokkuð hefði miðað. Tók Schröder undir það en ítrekaði, að Slobodan Milosevic, forseti Júgóslavíu, yrði að fallast á meginkröfur NATO.
Tsjernomyrdín í viðræðum við NATO-leiðtoga og stjórnina í Belgrad

Enn engin lausn á Kosovo-deilunni í sjónmáli

Serbar farnir að reka burt fólk af albönskum ættum í Serbíu

Belgrad, Bonn, London. Reuters.

VÍKTOR Tsjernomyrdín, sendimaður Rússa á Balkanskaga, átti í gær viðræður við Gerhard Schröder, kanslara Þýskalands, um Kosovo- málið og sagði að þeim loknum, að nokkuð hefði miðað. Tók Schröder undir það en ítrekaði, að Slobodan Milosevic, forseti Júgóslavíu, yrði að fallast á meginkröfur NATO. Júgóslavíustjórn skoraði í gær á Alþjóðadómstólinn í Haag að stöðva loftárásir NATO og hefur kært fyrir honum 10 aðildarríki bandalagsins.

Áður en Tsjernomyrdín hélt frá Moskvu kvaðst hann vera með "ákveðnar tillögur" um lausn Kosovo-deilunnar en ekkert var á þær minnst að loknum fundinum með Schröder í Bonn. Ætlaði Tsjernomyrdín að fara þaðan til Rómar og síðan til Belgrad. Strobe Talbott, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær, að enn væri mikið óunnið í því að samræma stefnu NATO-ríkjanna og Rússlands í málinu en ljóst virðist, að Rússum hafi enn ekki orðið mikið ágengt gagnvart Milosevic. Borislav, bróðir hans, sem er sendiherra Júgóslavíu í Moskvu, sagði í gær, að stjórnin í Belgrad gæti aðeins fallist á borgaralega eftirlitsmenn í Kosovo, frá óháðum ríkjum og Rússlandi.

Tsjernomyrdín átti einnig símaviðtal við Al Gore, varaforseta Bandaríkjanna, í gær um samsetningu hugsanlegs friðargæsluliðs og hann er væntanlegur til Bretlands snemma í næstu viku.

Kæra NATO

Júgóslavíustjórn hefur kært 10 aðildarríki NATO fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag og krefst þess, að hann úrskurði án tafar, að loftárásirnar séu brot á alþjóðalögum. Haft er eftir heimildum, að dómarar við dómstólinn séu að koma saman til að taka afstöðu til kærunnar en þeir hafa ekki enn svarað kæru, sem stjórnvöld í Bosníu settu fram í Bosníustríðinu 1992 til 1994, en í henni er stjórnin í Belgrad sökuð um þjóðarmorð.

James Rubin, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði í gær, að kæra Belgradstjórnarinnar væri fáránleg og ómerkileg.

Breska stjórnin sagði í gær, að brottrekstur Vuk Draskovic úr Júgóslavíustjórn væri til marks um vaxandi óeiningu meðal ráðamanna þar í landi og Robin Cook, utanríkisráðherra Bretlands, skoraði á stjórnina í Belgrad að leyfa sýningu viðtals, sem BBC , breska ríkisútvarpið, átti við serbneska stjórnarandstöðuleiðtogann Vuk Obradovic. Sagt er, að þar gagnrýni hann Belgradstjórnina harðlega og krefjist afsagnar Milosevic.

Árásir á flugvöll í Svartfjallalandi

Herflugvélar NATO gerðu nærri 30 árásir á flugvöll við Podgorica, höfuðborg Svartfjallalands, í gær en talsmenn NATO segja, að serbneski flugherinn hafi flutt þangað herflugvélar og loftvarnabúnað eftir að aðrar herbækistöðvar og flugvellir voru eyðilögð. Þá var flugvöllurinn bækistöð fyrir serbneskar þyrlur, sem notaðar hafa verið í átökunum við liðsmenn Frelsishers Kosovo. Að sögn yfirvalda í Svartfjallalandi lést einn óbreyttur borgari og þrír slösuðust í árásunum.

Að minnsta kosti 5.000 flóttamenn frá Kosovo komu til Makedóníu í gær en þar eru allar búðir yfirfullar. Paula Ghedini, talsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sagði í gær, að Serbar væru nú einnig farnir að reka burt fólk, sem er af albönsku bergi brotið en býr í Serbíu. Fréttir væru um, að 6.000 til 10.000 manns frá Presevo í Suður-Serbíu væru nú á leið til Makedóníu.

Jamie Shea, talsmaður NATO, sagði í gær, að bandalagið ynni ekki að því, að Svartfjallaland segði sig úr lögum við júgóslavneska sambandsríkið. Stjórnvöld þar eru hlynnt vestrænum ríkjum og andvíg stjórninni í Belgrad en Shea sagði, að Milo Djukanovic, forseti landsins, hefði sagt, að hann væri "andvígur Milosevic en hlynntur Júgóslavíu".Flugskeyti/32 reuters HERFLUGVÉLAR NATO réðust í gær á olíuhreinsunarstöð í borginni Novi Sad í Norður-Serbíu og útsendingar serbneska sjónvarpsins hættu í gærkvöld er endurvarpsstöð skammt frá Belgrad var eyðilögð. Sagði í útvarpinu, að unnið væri að viðgerð.