MAREL hf. færði í gær Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði að gjöf nýjan hátæknibúnað fyrir fiskvinnslu. Gjöfinni er ætlað að tryggja að skólinn sé ávallt með besta búnað sem í boði er fyrir fiskvinnslur. Í Fiskvinnsluskólanum fer fram kennsla í helstu greinum fiskvinnslufræða og eru útskrifaðir nemendur eftirsóttir starfskraftar í fiskvinnslu og skyldum iðnaði hérlendis sem og erlendis. M.a.
Marel færir Fiskvinnsluskólanum nýjan hugbúnað "Getum veitt kennslu

í nýjustu hátækni"

MAREL hf. færði í gær Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði að gjöf nýjan hátæknibúnað fyrir fiskvinnslu. Gjöfinni er ætlað að tryggja að skólinn sé ávallt með besta búnað sem í boði er fyrir fiskvinnslur. Í Fiskvinnsluskólanum fer fram kennsla í helstu greinum fiskvinnslufræða og eru útskrifaðir nemendur eftirsóttir starfskraftar í fiskvinnslu og skyldum iðnaði hérlendis sem og erlendis. M.a. starfa nú 7 útskrifaðir nemendur Fiskvinnsluskólans hjá Marel hf. Forstöðumaður skólans segir gjöfina gera skólanum kleift að veita kennslu í nýjasta hátæknibúnaði í fiskvinnslu.

Búnaðurinn sem Marel hf. afhenti Fiskvinnsluskólanum í gær var svokallaður MPS-hugbúnaður sem er ætlað að auðvelda stjórnun og stýringu í fiskvinnslu frá móttöku fisks til afhendingar. Flest leiðandi fiskvinnsluhús á Íslandi og erlendis hafa slíkan búnað í notkun. Marel hefur áður gefið skólanum vogir en þær hafa nú verið endurbættar til að tengjast hinum nýja MPS-hugbúnaði. Þá gaf Marel skólanum einnig Pro Plan bitavinnsluforrit fyrir fiskvinnslu en það auðveldar ákvarðanatöku í bitavinnslu á þorski. Í búnaðinum er hægt að skoða mynd af flaki og notandinn getur gert breytingar á bitastærðum og fengið mat á nýtingu flaksins, auk upplýsinga til framlegðarútreikninga. Slíkt auðveldar alla ákvarðanatöku og skilning í bitavinnslu.

Nýtist einnig öðrum skólum

Gísli Erlendsson, forstöðumaður Fiskvinnsluskólans, segist vera mjög þakklátur fyrir þessar rausnarlegu gjafir. Hann segir mikilvægt fyrir skólann að njóta stuðnings hátæknifyrirtækis eins og Marel og það geri skólanum fært að veita kennslu í nýjustu hátækni sem notuð er í fiskiðnaði hér á landi og erlendis. "Við viljum skilgreina okkur sem kjarnaskóla fyrir aðra skóla á framhaldsskólastigi. Gjöf þessi mun því ekki einungis gagnast okkur, heldur einnig öðrum skólum á framhaldsskólastigi sem kenna fiskvinnslufög," segir Gísli.

Morgunblaðið/Jón Svavarsson

GÍSLI Erlendsson, forstöðumaður Fiskvinnsluskólans, tekur við gjöfinni úr hendi Lárusar Ásgeirssonar, markaðsstjóra Marel hf.