Brúm á hringveginum sem eru aðeins ein akrein mun fækka umtalsvert næstu árin samkvæmt langtímaáætlun í vegagerð landsmanna. Jóhannes Tómasson ók hringinn í síðustu viku og taldi brýrnar. Þær eru í dag um 90.
Fækka á einbreiðum brúm um tíu til tuttugu á ári Brúm á hringveginum sem eru aðeins ein akrein mun fækka umtalsvert næstu árin samkvæmt langtímaáætlun í vegagerð landsmanna. Jóhannes Tómasson ók hringinn í síðustu viku og taldi brýrnar. Þær eru í dag um 90. EINBREIÐ brú stendur á aðvörunarskiltum við 91 brú á þjóðvegi 1, hringveginum, samkvæmt lauslegri talningu á dögunum. Hún er þó ekki alveg nákvæm því á Austfjörðum var farið um firðina en ekki Breiðdal og Breiðdalsheiði. Með áðurnefndum skiltum er Vegagerðin að vara ökumenn við því sem framundan er, þ.e. að ekki er hægt að mætast á þessum einnar akreinar brúm og því vissara að hafa aðgát. Einbreiðu brýrnar á hringveginum eru næstum því eins misjafnar og þær eru margar: Gamlar og nýjar, langar og stuttar, misjafnlega varasamar og þær liggja yfir stórfljót eða bæjarlæki og allt þar á milli. Þegar hringvegurinn um landið er ekinn rangsælis, þ.e. farið frá Reykjavík og austur á land, verður fyrsta einbreiða brúin á vegi ökumanns yfir ekki minna vatnsfall en Þjórsá. Síðan koma þær hver af annarri og alls er 43 einbreiðar brýr á kaflanum til Hafnar í Hornafirði.

Flestar og fjölbreyttastar á Suðurlandi

Á þessum hluta hringvegarins eru þær einna fjölbreyttastar. Þarna eru gamlar grindabrýr sem merkilegt nokk halda enn uppi flutningabílum sem geta verið nokkrir tugir tonna að þyngd, nýlegri brýr eins og yfir vatnsföllin á Skeiðarársandi sem eru langar og með útskotum, sem fyrirfinnast ekki á öðrum einbreiðum brúm, öldótt og örmjó brúin yfir Hornafjarðarfljót sem er kringum fertugt og glæsileg hengibrú eins og á Jökulsá við Breiðamerkulónið sem orðin er vel fullorðin. Næsti áfangi, til Egilsstaða, er nokkuð svipaður, þ.e. einbreiðar brýr koma með reglulegu millibili en þær eru þó mun færri enda vegalengdin styttri. Fjöldinn er 25. Þar er engin brú sem sker sig sérstaklega úr en hér ber að hafa í huga að farið var um Stöðvarfjörð, Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð en ekki upp Breiðdalinn og á Breiðdalsheiði. Þetta ruglar kannski bókhaldinu eitthvað en frávikin eru trúlega ekki mjög mikil. Kaflinn frá Egilsstöðum til Akureyrar er skaplegur með 14 brúm. Flestar einbreiðu brýrnar eða 6 eru í Jökuldalnum enda er ekki mikið um vatnsföll á Möðrudals- eða Mývatnsöræfum. Þá er það lokakaflinn, frá Akureyri til Reykjavíkur. Eftir allar hinar brýrnar tekur því varla að minnast á þessar níu sem hér er að finna og þær eru allar á Norðurlandi nema ein á Vesturlandi. Fjórar eru á leiðinni til Blönduóss og fjórar eftir það, sú síðasta yfir Norðurá eft í Norðurárdalnum. Þessi vegarkafi er líka sá fjölfarnasti á hringveginum og því kannski ekki undarlegt að tekist hafi næstum því að útrýma einbreiðum brúm á þessari leið. Því má líka skjóta hér inn að þrátt fyrir allar mjóu brýrnar á Suður- og Austurlandi kom það aldrei fyrir að bíða yrði við einbreiða brú vegna umferðar á móti. Útsýnið misjafnt

Aðstæður við þessar brýr allar eru mjög mismunandi. Sums staðar sést vel yfir og löngu áður en komið er að brúnni getur ökumaður séð hvort einhver nálgast á móti. Það gildir einkum um brýr sem standa lágt eða á bogadregnum vegarkafla þar sem sjá má vel á veginn hinum megin brúar. Brýr sem standa á hæð eða aka þarf að á aflíðandi brekku eru verri viðureignar. Þær eru að vísu sjaldnast vandamál í myrkri því þá er nokkuð ljóst hvort bíll nálgast en í dagsbirtu á ryklausum vegi getur málið vandast. Stundum er líka erfitt að meta á hversu miklum hraða bíll kemur á móti jafnvel þótt hann sjáist vel langt að. Samkvæmt langtímaáætlun í vegagerð sem nær til ársins 2010 þar sem ljúka á lagningu bundins slitlags á hringveginn og til staða þar sem íbúar eru yfir 200 er ráðgert að fækka einbreiðum brúm með skipulegum hætti á þeim vegarköflum þar sem umferð er meiri en 400 bílar á sólarhring. Helgi vegamálastjóri Hallgrímsson segir að megi gera ráð fyrir að einbreiðum brúm fækki um 10 til 20 á ári á hringveginum og stofnvegum. Hann segir að mörg sjónarmið komi til þegar einbreiðar brýr eru annars vegar. Lögð verði áhersla á að útrýma þeim sem þykja varasamar, þar sem vegi verður breytt er næsta sjálfgefið að reist verður tvíbreið brú á nýjum stað og sums staðar verði brýr aflagðar en í stað þeirra settir niður víðir hólkar og gerð stálræsi, einkum í minni vatnsföllin eða lækina. Þá verður litið á aldur og ástand brúnna líka. Þá kemur eflaust til þrýstingur frá einstaka byggðarlögum eins og á kannski við um Hornafjarðarfljót. Þótt brúin þar sé um fertugt og öldótt og hálf hvimleið stendur hún enn fyrir sínu en þeir sem búa á Höfn sjá fyrir sér nýja brú og breiða og á nýjum stað, nær bænum sem myndi þá stytta hringveginn á þeim kafla um nokkra kílómetra.

Um ólík sjónarmið verður kannski ekki síst tekist á þegar á hólminn er komið. Öryggissjónarmiðin vega þó þungt. Og allt veltur þetta að lokum á hraða á streymi fjármagns til framkvæmdanna innan þessarar langtímaáætlunar. Morgunblaðið/jt UM 500 metrum áður en komið er að einbreiðri brú er varað við henni með skiltum sem vart fara framhjá ökumönnum og síðan með öðru skilti rétt við brúna.