Við megum ekki við því, segir Eggert Haukdal, að enn myrkvist í kvótamálum byggðarinnar.
Hvað er til ráða? Stjórnmál Við megum ekki við því, segir Eggert Haukdal , að enn myrkvist í kvótamálum byggðarinnar.

HINN 8. apríl síðastliðinn rakti ég enn hér í blaðinu söguna af sameiningarmálum í útgerð og fiskvinnslu á suðurströndinni og benti þar á til hvers leitt hefði fyrir svæðið. Allir sem komu að málinu, þingmenn og fleiri, virðast hafa gleymt því. Alla vega reyna þeir að skýla sér á bak við þögnina. Þeir flýja veruleikann. Hverju svara Árni, Guðni og Margrét? Ég spurði í greininn: Er ekki ástæða fyrir þá þingmenn Suðurlands sem nú leita endurkjörs og lögðu blessun sína yfir hvernig að sameiningarmálum Glettings og Hraðfrystihúss Stokkseyrar var staðið að skýra kjósendum frá framgöngu sinni í málinu? Vonandi er að Eyjólfur hressist fyrir kosningar og Árni, Guðni og Margrét svari. Siglir hann norður? Sú staðreynd blasir við að ein af afleiðingum núverandi fiskveiðistjórnunnarkerfis er að stærstu aflaheimildir í Þorlákshöfn eru horfnar úr eigu heimamanna þar sem stærstu fyrirtækin eru runnin saman við fyrirtæki úr öðrum byggðarlögum. Nú eru miklir erfiðleikar hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum en Meitillinn í Þorlákshöfn var sem kunnugt er sameinaður henni. Þegar fyrirtækin runnu saman var Meitilskvótinn um 4 þúsund þorskígildi. Ofan á fyrri áföll sem rakin voru í fyrrnefndri grein virðist nú gamli Meitilskvótinn vera í uppnámi og e.t.v. falur hæstbjóðanda. Siglir hann norður? Við megum ekki við því að enn myrkvist í kvótamálum byggðarinnar. Á framboðsfundinum í Hveragerði um daginn lýstu sumir frambjóðendur því yfir að Suðurland hefði í engu tapað í kvóta. Eru ekki frambjóðendur sem svo mæla óþarflega nægjusamir eða reyndar utan við lífið og tilveruna. Verði ljós? Á fundi Bæjarmálafélags Hveragerðis fyrir fáum dögum sáu, sömu þingmenn og ekkert hafa við kvótamálin á ströndinni að athuga, framkvæmdina við ljós yfir Hellisheiði í blámóðu fjarskans. Þessir flokkar ljá ekki máls á brýnum hagsmunamálum, s.s. ljósum yfir Hellisheiði og að lagfæra kvótamál suðurstrandarinnar, svo sem fram hefur komið. Eru stóru flokkarnir hræddir? Frambjóðendur Frjálslynda flokksins hafa bréflega óskað eftir sameiginlegum framboðsfundum svo sem verið hefur við undanfarnar kosningar. Stóru flokkarnir neita enn þessari beiðni. Þeir virðast hafa fengið nóg af Hveragerðisfundinum. Í ljósi þessara staðreynda: Vilja kjósendur á Suðurlandi láta bjóða sér slíka framkomu alþingismanna og frambjóðenda sem hér hefur verið lýst? Er ekki komið lag hjá kjósendum að gefa þessum flokkum frí og kjósa F-lista Frjálslynda flokksins í Suðurlandskjördæmi Höfundur er í 1. sæti Frjálslynda flokksins á Suðurlandi. Eggert Haukdal