Það eru kjör þessa margsvikna hóps sem Samfylkingin vill bæta, segir Sigríður Jóhannesdóttir. Við viljum góðærið til allra.
Fjölskyldan í öndvegi

Kosningar Það eru kjör þessa margsvikna hóps sem Samfylkingin vill bæta, segir Sigríður Jóhannesdóttir. Við viljum góðærið til allra.

ÞESSA dagana er mikið talað um að nú sé góðæri á landi hér meira en áður hafi þekkst og vilja ýmsir þá Lilju kveðið hafa. Ekki er um það deilt að þjóðartekjur hafi aukist og í þeim skilningi ríkir hér vissulega góðæri. Hitt er svo ranghverfan á góðærinu að tekjur þess hóps sem besta afkomu hafði áður en góðærið brast á hafa aukist að sama skapi sem tekjur þeirra er lakasta höfðu afkomuna hafa versnað í góðærinu. Það fólk sem á sínum tíma kvað niður verðbólgudrauginn með samstilltu átaki, sem kennt var við þjóðarsátt, færði fórnir sem stjórnmálamenn höfðu uppi háfleygar yfirlýsingar um að yrðu bættar. Kjör þessa fólks hafa versnað. Það var svikið og verði áfram sömu flokkar við völd verður það enn svikið. Það eru kjör þessa margsvikna hóps sem Samfylkingin vill bæta. Við viljum góðærið til allra.

Í góðærinu hefur staða fjölskyldunnar versnað. Að hluta til er það vegna breyttra aðstæðna sem ekki hefur verið brugðist við en að hluta stafar slíkt af aðgerðum stjórnvalda. Sem dæmi má taka tekjutengingu barnabóta sem hefur valdið því að barnabætur þúsunda barnafjölskyldna hafa skerst á kjörtímabilinu sem nemur á þriðja milljarð króna.

Samfylkingin vill afnema tekjutengingu barnabóta því þegar barn kemur í heiminn er það vissulega kostnaðarauki hversu dásamlegt sem það þó er og barnabætur eru hugsaðar sem framlag ríkisins til þess að tryggja framfærslu allra barna.

En merki um versnandi stöðu fjölskyldunnar má einnig sjá í miklum greiðsluerfiðleikum heimila, aukinni notkun geðlyfja, vaxandi þörf barna fyrir geðheilbrigðisþjónustu, síaukna vímuefnanotkun unglinga.

Allt það sem hér er upptalið er dæmi um það að fjölskyldan sé í augum stjórnvalda einhvers konar afgangsstærð.

Samfylkingin leggur hinsvegar áherslu á að stefnumótun stjórnvalda eigi alltaf að miðast við fjölskylduna og þarfir hennar. Það er ekki viðunandi að bankar og fjármálastofnanir skili hagnaði upp á milljarða meðan greiðsluerfiðleikar barnafólks valda auknum hjónaskilnuðum, vinnuþrælkun og vanrækslu barna.

Það er ekki viðunandi að 50 börn séu á biðlista hjá Barnaverndarstofu eftir meðferð þegar vímuefnaneysla fer vaxandi og færist sífellt neðar í aldri.

Það er ekki viðunandi að við slíkar aðstæður sé dregið úr löggæslu. Núverandi ríkisstjórn hefur vanrækt það hlutskipti sitt að skapa viðunandi umhverfi fyrir fjölskyldurnar í landinu. Vaxandi öryggisleysi hefur leitt til vanlíðunar of margra sem mun um langa hríð hafa mikil áhrif á velferðar- og heilbrigðiskerfið. Þessa þróun verður að stöðva og að því markmiði ætlar Samfylkingin að vinna með skýrri fjölskyldustefnu. Það er í senn hlutverk okkar og skylda.

Höfundur er alþingismaður.

Sigríður Jóhannesdóttir