eftir Einar Örn Gunnarsson. Leikstjórn: Hilmir Snær Guðnason. Leikarar: Egill Heiðar Anton Pálsson, Hinrik Hoe Haraldsson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Laufey Brá Jónsdóttir, María Pálsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Rúnar Freyr Gíslason og Stefán Karl Stefánsson. Leikmynd og búningar: Jórunn Ragnarsdóttir. Förðun: Kristín Thors. Lýsing og tæknivinna: Egill Ingibergsson.

"Margföld áhætta"

sem borgar sig LEIKLIST Nemendaleikhúsið KRÁKUHÖLLIN

eftir Einar Örn Gunnarsson. Leikstjórn: Hilmir Snær Guðnason. Leikarar: Egill Heiðar Anton Pálsson, Hinrik Hoe Haraldsson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Laufey Brá Jónsdóttir, María Pálsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Rúnar Freyr Gíslason og Stefán Karl Stefánsson. Leikmynd og búningar: Jórunn Ragnarsdóttir. Förðun: Kristín Thors. Lýsing og tæknivinna: Egill Ingibergsson. Tónlist og leikhljóð: Sigurður Bjóla. Lindarbær, 29. apríl. NEMENDALEIKHÚSIÐ frumsýndi í gærkvöldi nýtt íslenskt leikverk, Krákuhöllina, eftir nýtt leikskáld, Einar Örn Gunnarsson, sem hingað til hefur aðallega fengist við sagnagerð. Leikstjóri er Hilmir Snær Guðnason og þreytir hann hér frumraun sína sem leikstjóri, þótt hann sé að sjálfsögðu sviðsvanur mjög. Sama gildir um höfund leikmyndar og búninga, Jórunni Ragnarsdóttur, arkitekt, sem hér starfar í fyrsta sinn í leikhúsi. Leikendur eru nemendur á útskriftarári Nemendaleikhússins. Er þetta ekki dæmt til að mistakast? Síður en svo, sýningin og umgjörð hennar öll er mikill sigur fyrir alla þá sem að henni standa. Hér er komin á fjalirnar ein athyglisverðasta leiksýning leikársins sem senn er á enda og ættu áhugamenn um leikhús og íslenskar bókmenntir ekki að láta hana fram hjá sér fara. Flest helst í hendur í sköpun þess listaverks sem hér er á ferðinni. Fyrst ber að telja að Einar Örn hefur skrifað texta sem unun er á að hlýða: Hann er ljóðrænn, heimspekilegur, fyndinn, harmrænn, einlægur, tvíræður og áleitinn. Hann einkennist af myndmáli og táknum og lifir lengi í huga áhorfandans/hlustandans. Hann er ekki laus við alþekkt bókmenntaminni, vísanir og jafnvel klisjur, en það kemur ekki að sök því úrvinnslan er svo skemmtileg. Einar Örn hefur gefið út fjórar skáldsögur án þess að "slá í gegn", eins og nú á dögum virðist hverjum rithöfundi nauðsynlegt til að hann teljist marktækur og verk hans komist inn í umræðuna. Verk hans hafa þó vakið athygli margra og hlotið góða dóma, t.a.m. síðasta skáldsaga hans, Tár paradísarfuglsins, sem fjallaði á ögrandi hátt um samband geðsjúks manns við móður sína. Það kæmi mér hins vegar ekki á óvart þótt Einar Örn næði þessum eftirsótta "stimpli" með þessu leikverki sínu og kannski hefur hann hér fundið form sem hentar honum fullkomlega þar sem styrkur hans liggur ekki síst í persónusköpun og samtölum, þar hefur hann góðan sans fyrir því sérstaka sem um leið er sammannlegt. Með Krákuhöllinni hefur bæst ný og sterk rödd inn í íslenska leikritun. Jórunn Ragnarsdóttir kemur einnig sterk inn sem hönnuður leikmyndar og búninga. Sú umgjörð sem hún hefur skapað sýningunni virðist taka mið af textanum því hún er umfram allt ljóðræn og myndræn og táknvísandi með sínum vandvirknislega máluðu veggjum og smekklegum litasamsetningum. Hið takmarkaða rými Lindarbæjar er notað á afar útsjónarsaman hátt og leikmyndin er bæði stílhrein og smart. Búningar Jórunnar eru skemmtilegir, þeir undirstrika hvern karakter á hreinan og beinan hátt og hún vinnur á skemmtilegan hátt með klisjurnar á svipaðan hátt og höfundurinn. Tónlist og ljós spila stórt hlutverk í sýningunni og var hvort tveggja hönnuðum sínum til sóma. Hilmir Snær tekur allmikla áhættu í leikstjórn sinni því hann velur að "tefla á tæpasta vað" í stjórn sinni á persónutúlkun, þ.e.a.s. hann ýtir hverjum leikara fyrir sig út að mörkum öfga og ofleiks - en fer hvergi yfir strikið. Og leikaraefnin eiga ekkert nema hrós skilið fyrir að valda þessari erfiðu leið. Þau voru hvert öðru betra, léku af einlægni, ákafa og gleði, sem var gaman að upplifa. Persónurnar eru skýrt afmarkaðar frá hendi höfundar og það var aðdáunarvert hversu vel leikararnir héldu utan um sitt hlutverk, einbeitingin brást aldrei. Stefán Karl Stefánsson var mjög sannfærandi sem hinn einlægi sakleysingi, Frans, sem rúmar miklar víddir í hugsun sinni og öllu atferli; Hinrik Hoe Haraldsson lék á fínlegan og fyndinn hátt hinn slæga geðlækni, Jónatan, sem ber vonlausa ást til málarans, Önnu, sem endurgeldur ekki tilfinningar hans. María Pálsdóttir fer vel með hlutverk Önnu og samleikur hennar og Stefáns Karls var blæbrigðaríkur. Rúnar Freyr Gíslason og Nanna Kristín Magnúsdóttir eru tragíkómísk í túlkunum sínum á misheppnaða rithöfundinum og sérvitra bókmenntafræðingnum, þó meira kómísk en tragísk og sérstaklega var gaman að fylgjast með óborganlegum líkamstöktum Nönnu Kristínar. Jóhanna Vigdís Arnardóttir var ábúðarfull og trúverðug sem ábyrgðarmikil en brothætt kona með erfiða æsku að baki, en hennar karakter er kannski einna veikastur frá hendi höfundar, þ.e. nær ekki eins vel að rísa upp úr klisjunni sem greinilega er unnið með. Túlkun Laufeyjar Brár Jónsdóttur á ljóskunni með alla vonlausu draumana var næm og fyndin í senn. Egill Heiðar Anton Pálsson hreinlega brilleraði í hlutverki Konráðs húseiganda. Leikur hans var drepfyndinn frá upphafi til enda. Í heild var sýningin kraftmikil og í henni góð stígandi, þótt nokkur frumsýningarskjálfti hafi gert vart við sig framan af. Titill leikritsins vísar til húss þess sem allar persónurnar búa í. Þetta er gamalt hús, að falli komið og íbúarnir eru flestir fremur lánlitlir en með stóra drauma. Hver um sig fetar krákustíga mannlífsins á sinn hátt og hver hefur sinn brest að bera. Til grundvallar leikfléttunni liggur einföld dæmisaga um það hvernig hið góða og saklausa er fótum troðið í mannlegum samskiptum. Boðskapurinn er skýr en aldrei uppáþrengjandi þar sem afstaða höfundar er mátulega samsett af alvöru og húmor, hlýju og kaldhæðni. Þetta er verk sem er einkennilega laustengt við tíma og umhverfi og kannski merkileg þversögn að um leið og ég fullyrði að það er með betri íslenskum leikverkum sem skrifuð hafa verið síðastliðin ár, er það einkennilega óíslenskt að umgjörð. Þetta er vafalaust meðvitað gert, sbr. nöfn persóna, en einmitt vegna þessarar staðreyndar gæti ég trúað að verkið ætti greiðan aðgang að stærri hópi áhorfenda en hér býr. Í viðtali við Morgunblaðið síðastliðinn fimmtudag kváðust aðstandendur sýningarinnar vera að taka margfalda áhættu með því að tefla fram öllum þeim óreyndu kröftum sem raun ber vitni. Sú áhætta hefur líka borgað sig margfalt: Til hamingju. Soffía Auður Birgisdóttir

Morgunblaðið/Ásdís

MARÍA Pálsdóttir og Stefán Karl Stefánsson í hlutverkum sínum. Í dómnum segir að aðdáunarvert sé hversu vel allir leikararnir halda utan um sína persónu.