Kristján Rögnvaldsson Fallinn er frá langt um aldur fram Kristján Rögnvaldsson, skipstjóri með stóru S-i. Ég átti þess kost að vera honum samskipa um tveggja ára skeið um borð í Dagnýju SI 70. En löngu áður en það varð vissi ég að Kristján var pabbi þeirra Matta, Palla og Jóa sem bjuggu á Hverfisgötunni. Alltaf beið maður með eftirvæntingu á gamlárskvöld eftir því að Kristján fýrði upp skiparakettunum, en á þessum árum mátti sjá það á himninum yfir Siglufirði hvar skipstjórar stóru skipanna bjuggu. Og við bjuggum svo vel að Kristján var í okkar hverfi og hann var líka brennustjóri fyrir okkar brennu. Á haustin bauð Lilja svo okkur strákunum úr hverfinu í sviðalappaveislu sem enn er í minnum höfð fyrir gleði og kátínu og ekki síst fyrir hvað límkenndar lappirnar festust við okkur strákana. Fjölskyldan stækkaði og fluttist svo upp úr 1960 á Laugarveginn en það var innan hverfisins svo ekki slitnuðu vináttuböndin. Þarna bættust við Binna, Kristján, Guðni og Jónína. Sjö börn á þrettán árum og Kristján stundaði sjóinn af kappi meðan Lilja stjórnaði heimilinu af alkunnri röggsemi. Erfiðleikarnir eru til að yfirstíga þá, mun bóndinn hafa sagt við húsfreyju á ögurstundu og reyndist það allt saman rétt. Árið 1962 mátti Kristján horfa á eftir togaranum Elliða hverfa í djúpið og með honum tveir skipverjar. Enn sekkur skip undir hans stjórn þegar Fanney SI sekkur úti fyrir Norðurlandi, en þá varð mannbjörg. Sárasta reynslan hefur samt verið að horfa á eftir syninum Páli hverfa fyrir borð án þess að nokkuð væri hægt að gera. Þessi svipmikli, stóri maður varð minn skipstjóri á Döggunni 1972. Þar endurnýjuðum við gamlan kunningsskap úr hverfinu forðum og mér fannst nærvera hans bera með sér óbilandi traust. Orðum hans var aldrei mótmælt, þau voru lög. Ein mynd stendur upp úr í minningunni um Dagnýjar-veruna: Við erum á stími á spegilsléttum sjó á heimleið. Við erum tveir í brúnni. Það er eins mikil dauðakyrrð og getur orðið um borð í einu skipi. Hann er að flauta lagið um Dagnýju eftir Sigfús og Tómas. Allar minningarnar um borð í Döggunni renna saman í þennan eina punkt er sumarið kom yfir sæinn/og sólskinið ljómaði um bæinn/og vafði sér heiminn að hjarta/ég hitti þig ástin mín bjarta. Þeir hittast nú fyrir hinum megin, feðgarnir, og taka saman eina skák eða tvær og verða þar fagnaðarfundir. Ég sendi Lilju og systkinunum sex samúðarkveðjur. Gunnar Trausti.