"Stríðsglæpadómstóllinn á eftir að hafa veruleg áhrif til lengri tíma" Líklegt að Slobodan Milosevic, forseti Júgóslavíu, verði sóttur til saka fyrir stríðsglæpi Náin tengsl eru á milli þess að fá ráðamenn og hermenn sótta til saka fyrir stríðsglæpi og viðbragða alþjóðasamfélagsins við mannréttindabrotum.

"Stríðsglæpadómstóllinn á eftir að

hafa veruleg áhrif til lengri tíma"

Líklegt að Slobodan Milosevic, forseti Júgóslavíu, verði sóttur til saka fyrir stríðsglæpi

Náin tengsl eru á milli þess að fá ráðamenn og hermenn sótta til saka fyrir stríðsglæpi og viðbragða alþjóðasamfélagsins við mannréttindabrotum. Holly Cartner, framkvæmdastjóri yfir mannréttindamálum í Evrópu og Mið- Asíu hjá Human Rights Watch, ræddi við Hrund Gunnsteinsdóttur um getu dómstólsins til að framfylgja alþjóðalögum og sækja stríðsglæpamenn til saka.

ALÞJÓÐLEGI stríðsglæpadómstóllinn í Haag í málum tengdum fyrrverandi Júgóslavíu (ICTY) var settur á laggirnar í maí 1993. Dómstóllinn var stofnaður í því augnamiði að sækja til saka þá sem fremja eða framið hafa stríðsglæpi í löndum fyrrverandi Júgóslavíu frá 1. janúar 1991 til dagsins í dag.

Í júlí 1998 var send nefnd á vegum dómstólsins til sambandsríkisins Júgóslavíu, sem samanstendur af Serbíu og Svartfjallalandi, til að kanna stöðu mála í Kosovo-héraði í Serbíu. Í september hófst svo undirbúningur að frekari rannsókn á stríðsglæpum í Kosovo.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch (HRW) hafa frá árinu 1989 safnað gögnum um stríðsglæpi og mannréttindabrot sem framin hafa verið í Kosovo. Morgunblaðið ræddi við Holly Cartner, framkvæmdarstjóra HRW í New York, yfir mannréttindamálum tengdum Evrópu og Mið-Asíu, um rannsóknir á stríðsglæpum í Kosovo, hlutverk dómstólsins og framvindu mála.

Serbneska ríkisstjórnin hefur ítrekað neitað fulltrúum glæpadómstólsins um leyfi til að ferðast til Kosovo og skoða staði þar sem talið er að stríðsglæpir hafi verið framdir. Með þessu bíður sönnunarbyrði dómstólsins mikinn hnekki og spurningar vakna um það hvort það geti hugsanlega komið í veg fyrir að takmark dómstólsins náist, þ.e. að sækja stríðsglæpamenn til saka. Cartner segir þessar hindranir vissulega skerða starfsgetu dómstólsins en þrátt fyrir það hafi starfsmenn hans og óháðra félagasamtaka eins og HRW, getað safnað sönnunargögnum þar sem þau liggja ekki síst í framburði vitna og fórnarlamba. Öll gögn sem HRW safnar eru að sögn Cartner lögð fyrir dómstólinn sem svo metur hvort hann muni yfirheyra vitnin.

En nægja frásagnir einstaklinga einar og sér til sakfellingar? Cartner sagði líkamleg og önnur áþreifanleg sönnunargögn og verksummerki vissulega styrkja málsókn verulega. Hins vegar hafi komið fyrir að framburður vitna sé það eina sem dómstóllinn hafi mál sitt á að byggja.

Beri svo við, segir Cartner það meginatriði málsóknar að fá sem flesta vitnisburði um sama atburðinn. Hún sagði HRW nota mjög nákvæma aðferðafræði við gagnasöfnun sem miðast við að vitnisburðir séu eins nákvæmir og unnt er og að framburður nokkurra vitna styðji hver annan.

"Til að mynda getur vitni að atburði lagt áherslu á að karlar hafi verið aðskildir frá konum á sama tíma og annað vitni að sama atburði, leggur áherslu á hversu margir hafi fallið í valinn. Með svona sönnunargögnum reynum við að setja atburðarásina í samhengi og fá upp heildarmynd."

Cartner sagði sönnunarbyrði vissulega fara eftir aðstæðum og að stundum væri aðeins eitt vitni að atburði, sem þó gæti nægt til að fá af honum heildarmynd.

Cartner sagði það gífurlega mikilvægt að ríki sem tæki við flóttafólki legði dómstólnum lið með því að ræða við flóttafólkið og skrá niður gögn um stríðsglæpi sem framdir hafa verið í Kosovo.

"Einnig höfum við hvatt þau lönd sem hafa hernaðarleyniþjónustu eins og Bretland og Bandaríkin, og hafa haft njósnara á svæðinu, til að láta dómstólinn hafa aðgang að öllum þeim gögnum sem þau búa yfir."

Cartner sagði þá vinnu ganga ágætlega. "Undanfarnar vikur höfum við heyrt að breska stjórnin ætli að láta dómstólinn hafa mikið magn af upplýsingum. Bandaríska stjórnin hefur nú þegar gert það, en þó hefur hún verið treg til þess því hún vill ekki eiga á hættu að það komist upp hver heimildarmaðurinn, eða njósnarinn, er."

Cartner sagði það skoðun HRW að nafn njósnarans þurfi ekki að gefa upp. "Ég tel að Bandaríkin ættu að leggja sig meira fram við að láta dómstólnum upplýsingar í té en þau hafa gert til þessa. Þörfin á því er einfaldlega það mikil fyrir störf dómstólsins."

Alþjóðasamfélagið ræður miklu um árangur dómstólsins

HRW og önnur óháð félagasamtök og mannréttindahópar hafa gagnrýnt alþjóðasamfélagið fyrir að hafa ekki beitt serbnesku ríkisstjórnina nægilegum þrýstingi til að framfylgja ákvæðum dómstólsins og virða alþjóðleg mannréttindi. Skortur á slíkum þrýstingi hafi alvarleg áhrif á störf dómstólsins þar sem virkni hans byggist að verulegu leyti á því að þessi þrýstingur sé til staðar.

"Já, við höfum verið mjög áhyggjufull yfir því að Bandaríkjastjórn, ásamt öðrum aðilum alþjóðasamfélagsins, hefur brugðist seinlega við því að taka á mannréttindabrotum sem framin hafa verið í Kosovo, allt frá árinu 1989. HRW hefur safnað gögnum um mannréttindabrot í Kosovo frá þeim tíma og höfum við ítrekað skráð upplýsingar um kúgun gegn Kosovo-Albönum. Bandaríska ríkisstjórnin brást ekki nægilega hratt og vel við þessum mannréttindabrotum."

"Það er mat HRW að ef rétt hefði verið tekið á málum þá og ríkisstjórn Serbíu beitt pólitískum þrýstingi hefði það getað komið í veg fyrir það sem nú er orðið í Kosovo og Serbíu."

"Ég vil líka leggja áherslu á að er Dayton-friðarviðræðurnar í Bosníu fóru fram beittum við alþjóðasamfélagið miklum þrýstingi í þá átt að handtaka þá sem þegar höfðu verið ákærðir fyrir stríðsglæpi. Bandaríkjastjórn var þá sérstaklega treg til og var meira að segja lengi að viðurkenna rétt NATO hersveita í Bosníu til að handtaka einstaklinga sem höfðu verið ákærðir."

"Hefðu Radovan Karadzic og Ratko Mladic, tveir æðstu leiðtogar hersveita Serba í Bosníu-stríðinu, verið handteknir snemma árið 1996 hefði það gefið serbnesku ríkisstjórninni mjög sterk skilaboð um að stríðsglæpir væru ekki liðnir. Í staðinn eru þessir tveir, hæst settu mennirnir sem ákærðir hafa verið til þessa, enn frjálsir ferða sinna. Hvers konar skilaboð sendir það þá Milosevic um það hversu alvarlega alþjóðlega samfélagið lítur á stríðsglæpi?"

"Hér tel ég að alþjóðasamfélagið hafi brugðist hlutverki sínu og af því erum við að súpa seyðið í dag."

"Það á ekki að líðast að Milosevic svíki samkomulag eins og gerðist í október er Milosevic sveik samkomulagið vikum eða jafnveldögum eftir að gengið var frá því."

En hvers vegna þessi tregi af hálfu alþjóðasamfélagsins til að grípa til aðgerða?

"Það tel ég mega rekja til þess að menn töldu Milosevic eina manninn sem framfylgt gæti friðarsamkomulaginu í Bosníu af hálfu Serba. Hann var álitinn raunsæismaður og að mörgu leyti góður samningsaðili. Því miður hefur síðar komið í ljós að það er hann sem skapar deilur og þegar hann hefur náð pólitísku markmiði sínu með þeim, stígur hann fram sem sáttaraðili."

Cartner sagði það sína skoðun að umheimurinn hafi tekið þátt í leikbrögðum Milosevics. "Ég tel alþjóðasamfélagið hafa komið sér í algjöra sjálfheldu, því nú er komin upp sú staða að Milosevic er sá eini sem hægt er að semja við vegna þess að öðrum hefur ekki verið veitt rými til samninga. Það er mjög stórt vandamál," sagði Cartner.

Sem stendur sagði Cartner engan aðila standa uppúr sem hægt væri að semja við í Serbíu. "En við vitum ekki hvaða lýðræðislegu öfl gætu stigið fram ef alþjóðasamfélagið færi að koma fram við Milosevic sem stríðsglæpamann."

"Það verður að viðurkennast að hann er sá valdamesti, en það er nauðsynlegt að styðja önnur öfl í landinu til að annar valkostur komi hugsanlega fram á sjónarsviðið."

En fyrirfinnst annað slíkt afl í Serbíu?

"Ég held að það séu sterkir einstaklingar í Serbíu sem eru fulltrúar raunverulegs lýðræðis en því miður held ég að hópurinn sé ekki mjög stór núna. Ef fólk fengi hins vegar að tjá sig vitum við ekki hvernig þau mál gætu þróast með tímanum. Við þá kúgun sem verið hefur í Serbíu sl. ár gagnvart stjórnarandstöðunni, mannréttindahreyfingunni og óháðum fjölmiðlum, er mjög erfitt að gera sér grein fyrir tilvist þeirra og hversu fjölmennur þessi hópur er."

Geta dómstólsins til að framfylgja alþjóðalögum

Serbneska ríkisstjórnin lítur á deiluna í Kosovo sem innanríkismál og segir lögsögu dómstólsins ekki ná til Júgóslavíu. Undir þessum formerkjum hefur ríkisstjórnin meinað fulltrúum dómstólsins frá Júgóslavíu og hindrað þannig störf þeirra. Hvaða ráðum getur dómstóllinn beitt til að framfylgja lögum við slíkar aðstæður?

"Því fylgja vissulega vandamál er ríkisstjórnir virða alþjóðalög að vettugi. En á sama tíma er þetta ein önnur sönnun þess að júgóslavnesk yfirvöld brjóti alþjóðalög í sífellu."

Cartner sagði lögsögu dómstólsins hins vegar liggja skýrt fyrir og að júgóslavneska stjórnin virtist vera sú eina sem efaðist um það.

Cartner segir hlutverk alþjóðasamfélagsins vera gríðarlega mikilvægt er kemur að getu dómstólsins til að framfylgja alþjóðalögum. "Til að framfylgja lögunum getur alþjóðasamfélagið til að mynda beitt hernaðarlegu valdi, til dæmis líkt og gert var í Bosníu. Aðrar leiðir eru þá að beita pólitískum og efnhagslegum þrýstingi. Sá þrýstingur sem serbnesk stjórnvöld hafa verið beitt hefur ekki verið nægur. Einnig er gífurlega mikilvægt að handtaka ákærða stríðsglæpamenn til að sýna að alvara liggi að baki dómstólnum," sagði Cartner.

Meðan samið er við Milosevic vakna spurningar um það hvort hann muni nokkurn tíma verða sóttur til saka fyrir stríðsglæpi sem hann er sagður skipuleggja. Cartner sagði það hins vegar liggja ljóst fyrir að dómstóllinn þjónaði ekki pólitískum hagsmunum; að lög væru ekki "samningsatriði."

"Liggi óumdeilanlegar sannanir fyrir því að Milosevic og hersveitir undir hans stjórn hafi framið stríðsglæpi ætti að sakfella hann. Ég geri ráð fyrir að er dómstóllin hefur byggt upp mjög sterkt mál gegn Milosevic þá muni hann verða ákærður," sagði Cartner.

"Reyndar verður dómstóllinn að fá leyfi til að fara inn í landið til að geta handtekið Milosevic, sem gæti orðið erfitt. Hins vegar kemur það ekki í veg fyrir að hægt sé að gefa út handtökuskipun á hendur honum. Nú þegar eru líklega til næg sönnunargögn til að sakfella hann, bæði frá Bosníustríðinu og nú í Kosovo. Ég hef trú á því að Milosevic eigi eftir að verða ákærður og tel að dómstóllinn sé að vinna að því núna. Það væri mikilvægur þáttur í starfi hans að kæra Milosevic."

"Varðandi það að samþykki Milosevics þurfi að liggja fyrir til að fulltrúar dómstólsins fari inn í Júgóslavíu til að handtaka hann er rétt að minnast þess að hersveitir NATO fóru inn í serbneska lýðveldið Sprska í Bosníu gegn vilja stjórnvalda þar og handtóku stríðsglæpamenn," sagði Cartner.

Vonandi að dómstóllinn dragi úr stríðsglæpum í framtíðinni

En hvað um meðlimi frelsishers Kosovo, KLA? Eru serbnesk stjórnvöld ekki í góðri aðstöðu til að stjórna sönnunarbyrðinni ef það er í þeirra valdi að veita rannsóknaraðilum og öðrum fulltrúum dómstólsins leyfi til að fara inn í Júgóslavíu og þá hvert þeir fara?

"Vissulega er það svo. Hins vegar hefur HRW tekist að afla gagna á stöðum þar sem talið er að serbneskir hermenn hafi framið stríðsglæpi. Þetta var gert með leyfi serbneskra stjórnvalda. En eins og við vitum var aðgangur þó ekki alltaf leyfður."

Styrkur dómstólsins hefur verið sagður liggja ekki síst í því að hann muni draga úr líkum á að stríðsglæpir verði framdir. Að hermenn og yfirmenn herja hætti við að fremja stríðsglæpi er þeir hugsi um afleiðingar gjörða sinna og að þeim verði refsað fyrir þær, líkt og í borgaralegum samfélögum. Hefur dómstóllinn í raun þessi áhrif er út á vígvöllinn er komið?

"Stríðsglæpir munu líklega alltaf verða framdir, því miður. Hins vegar er eina leiðin til að draga verulega úr þeim í framtíðinni að gera ráðamönnum og hershöfðingjum grein fyrir að hegðun þeirra muni sæta rannsókn. Að þeir verði saksóttir, sakfelldir og þeim refsað ef hegðun þeirra reynist brjóta alþjóðalög. Við vonum að refsingar fyrir stríðsglæpi komi til með að hafa sömu áhrif og gengur og gerist í borgaralegum samfélögum þar sem lögregluvald ríkir.

Ég tel að lög dómstólsins eigi eftir að hafa áhrif á einstaklinga í hernum. Þó svo að þeir verði ekki handsamaðir strax þá geti þeir t.d. ekki ferðast úr landi. Ef við tökum Arkan sem dæmi, þá er ef til vill ekki líklegt að hann náist í Serbíu í dag. [Arkan er alræmdur foringi vopnaðra sveita sjálfboðaliða sem sagðir eru fremja hræðileg grimmdarverk í Kosovo í dag, líkt og í Bosníu-stríðinu] Hins vegar mun Milosevic ekki alltaf verða við völd og ný stjórn mun líklega ekki vilja vernda fólk eins og Arkan. Við leggjum áherslu á að þrýstingur verði settur á þessa aðila með því að frysta bankainnistæður þeirra og beita öðrum efnahagslegum þrýstingi. Áhrifa dómstólsins mun gæta til lengri tíma og þau munu verða hermönnum og ráðamönnum víti til varnaðar. Hinn kosturinn sem við höfum er að viðhalda algjöru refsileysi sem er ekki fýsilegur kostur."

Reuters

STRÍÐSGLÆPADÓMSTÓLLINN í Haag rannsakar stríðsglæpi sem framdir hafa verið í fyrrverandi Júgóslavíu frá 1991 til dagsins í dag. Hér sjást sérfræðingar að störfum í Lion-kirkjugarðinum í Sarajevo þar sem fjöldagröf fannst í nóvember sl. frá Bosníu-stríðinu, 1992-1995. Lög eru ekki "samningsatriði"

Þarf að handtaka ákærða stríðsglæpamenn