EGGERT MAGNÚSSON FORMAÐUR KNATTSPYRNUSAMBANDS ÍSLANDS
VERK:: SAFN'SDGREIN DAGS.:: 990530 \: SLÖGG:: r ánægður með að það STOFNANDI:: GUEI \: \: EGGERT MAGNÚSSON FORMAÐUR KNATTSPYRNUSAMBANDS ÍSLANDS

Brennandi

áhugi á

boltanum Eggert Magnússon varð formaður KSÍ 1989, starfsemi sambandsins hefur vaxið ört undir stjórn hans og hann trúir því að nú hilli jafnvel undir það ævintýri að Ísland eigi í fyrsta skipti raunhæfa möguleika á að komast í úrslitakeppni stórmóts. Skapti Hallgrímsson settist niður með Eggerti í Barcelona á miðvikudaginn, fyrir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópukeppninnar, til að ræða um eitt og annað sem tengist helsta áhugamál formannsins, knattspyrnu ­ sem Eggert hefur brennandi áhuga á, svo vægt sé til orða tekið. EGGERT var nefndur karlinn í kexinu í fyrirsögn greinar um fyrirtæki hans, kexverksmiðjuna Frón, hér í blaðinu fyrir nokkrum misserum. Karlinn í knattspyrnunni á ekki síður við um formann KSÍ, því sú fagra íþrótt fangar huga hans að miklu leyti daglega. Hann var á Wembley um síðustu helgi á úrslitaleik ensku bikarkepninnar og sá svo úrslitaleikinn í Barcelona á miðvikudag. Og leiddist ekki. "Það að ég skuli vera formaður í Knattspyrnusambandinu og þar á undan verið í stjórnunarstörfum hjá stóru félagi í nokkur ár er allt tilkomið af þeirri staðreynd að ég hef brennandi áhuga á fótbolta og hef haft síðan ég var smástrákur. Ég er oft spurður að því hvernig ég geti rekið eigið fyrirtæki, þar sem reksturinn verður sífellt umfangsmeiri, samhliða því að vera á kafi í fótboltanum og hef svarað því til að knattspyrnan hefur gefið mér miklu meira en ég hef sjálfur lagt af mörkum. Mér þykir þetta bara svo skemmtilegt," segir Eggert. Formaður KSÍ hefur nú í fjögur ár setið í einni helstu nefnd Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA), svokallaðri félaganefnd (Club committee) sem sér um öll Evrópumót félagsliða og er einnig í unglinganefnd alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA). Eggert sækir sex til átta fundi á ári erlendis vegna UEFA-nefndarinnar, t.d. er alltaf fundur daginn fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Með honum í nefndinni eru til að mynda varaformaður enska stórliðsins Arsenal (og sá sem sagður er öllu ráða á þeim bæ), David Dein, Galliani forseti nýkrýndra Ítalíumeistara AC Milan, formaður sænska knattspyrnusambandsins, þess hollenska og rússneska og þess má geta að formaður UEFA, Svíinn Lennart Johansson og framkvæmdastjórinn Gerhard Aigner, sitja einnig alla fundi hennar. "Ég fer líka stundum sem eftirlitsmaður út á stærri leiki, og gæti gert meira af því ef ég hefði meiri tíma. Það er ómetanlegt að kynnast mörgum nýjum forystumönnum, starfið víkkar sjóndeildarhringinn og svo skemmir auðvitað ekki fyrir að ég sé mjög mikið af skemmtilegum leikjum!" Eggert segir að fyrir þá sem séu í forystu í jafn stóru sambandi og KSÍ, skipti alþjóðatengsl miklu máli og ljóst er að hans mati að það yrði mjög óhentug þróun að menn sætu of stutt í embætti eins og formanns KSÍ, ef þeir eru á annað borð hæfir. "Kynni af fólki skipta miklu; leikirnir sem við sömdum um við Möltumenn um daginn komu til dæmis bara til vegna vinskapar míns við formann knattspyrnusambands Möltu. Það var mjög gott að fá leikinn úti um daginn, vegna þess að við erum að fara í leik sem við þurfum helst að geta stjórnað og því kom leikurinn sér vel fyrir Guðjón landsliðsþjálfara og strákana. Svo spilum við aftur við Möltu heima í sumar fyrir Andorraleikinn." Lykilleikur á laugardag Ísland mætir Armeníu í Laugardal næstkomandi laugardag og í kjölfarið fylgir viðureign við Rússa úti miðvikudeginum þar á eftir. Ísland gerði markalaust jafntefli í Armeníu í fyrra en sigraði þá Rússa heima, og hefur níu stig í þessum undanriðli heimsmeistaramótsins, þar sem eru einnig lið heimsmeistara Frakka, Úkraínu og Andorra. "Leikurinn við Armeníu er lykilleikur fyrir okkur; við erum með níu stig, okkur hefur gengið ævintýralega vel og ég hef stillt dæminu þannig upp að ef við vinnum Armeníu og Andorra heima, eins og við ætlum auðvitað að gera, þá verðum við komnir með 15 stig, sem hefur aldrei gerst. Eftir Andorraleikinn heima í september fáum við Úkraínumenn í heimsókn - og það gæti orðið hreinn úrslitaleikur um annað sætið í riðlinum. Ef það ævintýri gerðist síðan að við ynnum Úkraínu heima í september þá yrðu stigin orðin 18. Mér segir svo hugur að Úkraínuleikurinn verði stærsti leikur sem Ísland hefur nokkurn tíma spilað," segir formaðurinn. Miklar breytingar

Gífurleg breyting hefur orðið á rekstri KSÍ á síðasta áratug, segja má að hann hafi tekið stakkaskiptum. "Já, það má orða það þannig. Veltan hefur farið úr 40 til 50 milljónum upp í 150 til 160 milljónir á ári á þessu tímabili. Við erum komnir með mjög öfluga skrifstofu sem þjónustar félögin mjög vel. Sú þjónusta þykir þeim sjálfsögð, en ekki er lengra síðan en þegar ég var formaður knattspyrnudeildar Vals að við þurftum til dæmis að sjá algjörlega um allt sjálfir varðandi Evrópuleiki. Það er ánægjulegt að við skulum geta þetta; breytingarnar hafa í raun orðið meiri en ég átti von á en geysileg breyting hefur líka orðið í knattspyrnunni í Evrópu almennt." Eggert varð formaður KSÍ í árslok 1989 og hann segir að fljótlega eftir hafi náðst tímamótasamningur í sambandi við sjónvarpsréttindi. "Það var algjör ævintýrasamningur fyrir Ísland á þeim tíma; við vorum í undanriðli EM með Spáni og Frakklandi og duttum í þann lukkupott að fyrirtækið sem við sömdum við var einmitt að sækja mjög fast fram til að ná tangarhaldi á markaðnum í löndunum tveimur. Við lentum í þeirri hringiðu og náðum mjög góðum samningi. Segja má að á árunum eftir 1990 hafi orðið mikil sprenging varðandi sjónvarpsréttindi í Evrópu. Við höfum nú tvö tímabil í röð verið með samning við þýska fyrirtækið UFA, mjög hagstæða að okkar mati og þeir hafa gjörbreytt möguleikum okkar; enda hefur verið hægt að gera miklu meira til uppbyggingar ungra leikmanna en áður, svo dæmi sé tekið. Þeir hafa fengið fleiri leiki og síðan hefur orðið algjör bylting varðandi kvennaknattspyrnuna. Þegar ég tók við var ekkert kvennalandslið í gangi en nú eru þau fjögur." Landslið karla hefur gert frábæra hluti að undanförnu undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar. Þjálfarinn nefndi það í viðtali í Morgunblaðinu fyrir skömmu að styrkja þyrfti stöðu liðsins, útgerð þess þyrfti að verða sambærileg og hjá öðrum þjóðum. Hvað segir formaðurinn; er þetta raunhæf krafa? "Nei, því er fljótsvarað. Ef við tökum enska, danska, norska og sænska landsliðið sem dæmi ­ lið frá þjóðum nálægt okkur, lið sem hafa tekið þátt í úrslitakeppni stórmóta undanfarið ­ þá höfum við einfaldlega ekki fjárhagslegt bolmagn til að búa eins að okkar liði og þessar þjóðir. Íslenska liðið hefur náð mjög góðum árangri undanfarið en það hefur þó ekki haft áhrif fjárhagslega, ekki ennþá. Kæmumst við hins vegar í úrslitakeppni EM yrði stökkbreyting þar á. Þegar vel gengur er starfið reyndar mun léttara að mörgu leyti og samstarfsaðilar ánægðari en það skapar ekki meiri peninga - ekki fyrr en við komumst í úrslitakeppni." Hvað fengi KSÍ mikla peninga, til dæmis fyrir að komast í næstu úrslitakeppni Evrópumóts landsliða? "Við fengjum líklega ríflega 100 milljónir frá UEFA um leið og við kæmumst áfram og svo meira síðar. Staðreyndin er hins vegar sú að eins og tekjur sambandsins eru í dag þá er stærsta hlutfallið vegna sjónvarpsréttar og gegnum samstarfsaðila. Því miður er innkoma af landsleikjum ekki mikil en ég vona að það eigi eftir að breytast á næstunni. Við gerum ráð fyrir því að Laugardalsvöllur verði fullur á þeim leikjum sem eru á næstunni vegna þess hve vel liðinu hefur gengið undanfarið. Að fólk komi til að sjá og hvetja eigið lið vegna þess að því hefur gengið svo vel en ekki bara til að horfa á góð erlend lið, þegar þau koma til landsins." Guðjón gert stórkostlega hluti "Það er alveg ljóst að Guðjón hefur gert stórkostlega hluti með landsliðið," heldur Eggert áfram. "Hann hefur nú mótað sitt lið, tók við þegar var að koma HM ár og þannig er að þá fáum við alltaf miklu fleiri verkefni upp í hendurnar en annars ­ lið sem eru að fara í úrslitakeppnina þurfa að fá æfingaleiki. Hann fékk því góða möguleika á tiltölulega skömmum tíma til að búa til sitt lið, með þeim mönnum sem hann vildi nota. Guðjón hefur sjálfur þann hæfileika, sem er svo svakalega mikilvægur í dag, að fá leikmenn til að trúa á það sem þeir eru að gera; fá þá til að trúa að mögulegt sé að ná árangri sem hingað til hefur ekki verið álitið að væri hægt. Nú vinna menn allir sem einn að því að ná svo langt." Fréttir af því að KSÍ hefði ekki rætt við Guðjón um áframhaldandi samning skutu upp kollinum eftir landsleikina tvo í vetur, en samningurinn rennur út í haust. "Upprunalega gerðum við samning til tveggja ára sem rennur út í haust og alltaf var ljóst af minni hálfu að ég myndi ekki ræða við hann um áframhaldandi samning fyrr en eftir leikina í júní í sumar," segir Egert. "Af og til hafa hafa birst fregnir um að erlend lið hafi sýnt honum áhuga og það finnst mér bara mjög spennandi og jákvætt. Ég held að við hjá KSÍ lítum svo á að alveg eins og draumur hvers knattspyrnumanns er að komast utan til að leika við bestu aðstæður sem atvinnumaður þá er það líka draumur okkar hæfustu þjálfara að fá tækifæri til að þjálfa góð lið erlendis. Ef sá draumur rættist hjá Guðjóni að hann fengi gott tilboð að utan er ljóst að KSÍ myndi aldrei setja honum stólinn fyrir dyrnar. Auðvitað yrði mikil eftirsjá að Guðjóni ef hann færi frá landsliðinu og ég vona að han verði áfram hjá okkur, ég vona að ég nái áframhaldandi samningi við hann þegar við förum að tala saman í sumar. En fjárhag sambandsins er þröngur stakkur skorinn og við getum ekki keppt við erlend lið sem bjóða himinhá laun." Draumsýn um hið opinbera Stærstur hluti starfs forystumanna í íþróttahreyfingunni snýst um peninga og Eggert hefur ekki legið á skoðunum sínum varðandi þau mál. "Ég hef talað lengi um að framlag hins opinbera á Íslandi til íþrótta þurfi að vera miklu meira en raun ber vitni. Æskulýðs- og unglingastarf félaganna er geysimikið; þau taka við börnum nánast sem smábörnum og ala þau meira og minna upp til unglingsára; á sumrin, þegar skólar eru ekki starfandi, eru félögin með knattspyrnuskóla og nokkurs konar barnagæslu og ég held að foreldrar sem eru með börnin í gæslu hjá íþróttahreyfingunni séu mjög ánægðir með það. Ég held líka að það sé mjög gott fyrir börnin; það er heillavænlegt og þroskandi að taka þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar, bæði í leik og ekki síst keppninni sjálfri. Og svo má ekki gleyma hversu mikið forvarnarstarf er unnið þar; hve gildi íþróttanna gagnvart heilbrigði er mikið og vonandi þarf minni peninga í heilbrigðismálin vegna þeirra sem stunda íþróttir frá barnæsku og halda því áfram en annarra. Mér finnst hreinlega að við í íþróttahreyfingunni þurfum að taka höndum saman og berjast fyrir því að fá meiri peninga beint frá Alþingi. Við þurfum að standa betur saman; við erum stór og sterkur hópur sem verður að afla meiri peninga. Þetta verður að gerast undir stjórn Íþrótta- og ólympíusambandsins (ÍSÍ) en við forystumenn í íþróttahreyfingunni erum allir tilbúnir að berjast með." Eggert gagnrýndi mjög starfsemi Afreksmannasjóðs ÍSÍ á síðasta ársþingi KSÍ. Snúast stærstu baráttumál hreyfingarinnar í dag um peninga? "Já, og hvað varðar afreksmannasjóðinn eru ákveðnar reglur sem hafa verið í gildi og þær hafa fyrst og fremst beinst að afrekum í einstaklingsíþróttum en mun erfiðara hefur verið fyrir flokkaíþróttir að fá styrkveitingar úr sjóðnum. Ég gagnrýndi meðal annars að ekki skyldi hægt að veita styrki vegna tiltekinna afreka ­ til dæmis þegar landslið okkar í knattspyrnu gerði jafntefli við Frakka. Ég held að varla hafi verið unnið meira afrek en að gera jafntefli við heimsmeistarana í vinsælustu íþróttagrein heims. Það er alveg ljóst að KSÍ og t.d. körfuboltasambandið hafa setið eftir við styrkveitingar." Gagnrýni Eggerts var m.a. svarað þannig til á sínum tíma að A- landslið karla væri sjálfbært, m.a. af forseta ÍSÍ. "Mér finnst sú röksemd bara út í hött. Það má ekki gleymast að nánast allar tekjur knattspyrnusambandsins eru til komnar vegna A-liðsins og þar vega tekjur vegna sjónvarpsréttar þyngst. Ef A-landsliðið væri ekki til væri engin önnur starfsemi í gangi. Menn mega heldur ekki gleyma því að ekkert sérsamband hefur haft jafn mikinn metnað í hæfileikamótun og KSÍ, nánast alveg síðan 1990, og það er meðal annars ástæða þess að við erum að ná jafn góðum árangri nú og raun ber vitni. Ungir menn sem spila 50-60 unglingalandsleiki fá mikla reynslu og þeir verða betri leikmenn fyrir vikið. Starfið hjá félögunum er líka mjög mikið og gott og allt þetta gerir það að verkum að fleiri leikmenn en ella komust til erlendra félaga og það stuðlar svo áfram að betra A-landsliði." Varðandi peningamálin segir Eggert það hafa verið meiriháttar sigur sem vannst í fyrra þegar sjónvarpsréttur fyrir efstu deild karla og bikarkeppnina var seldur erlendu fyrirtæki. "Það tókst fyrst og fremst vegna þess að samstarfsfyrirtæki okkar hafði áhuga á A- landsliðinu, og við settum það sem skilyrði að það keypti líka réttinn fyrir deild og bikar." Blikur á lofti Eggert sagði á síðasta þingi að ágætlega hefði gengið hjá KSÍ í fyrra, tekjurnar væru miklar, en benti jafnframt á að útgjöldin væru að sama skapi mikil. "Og ég varaði við því að blikur væru á lofti vegna sjónvarpsréttarmála. Stóru þjóðirnar hugsa mjög mikið um að búa svo um hnútana að litlu þjóðirnar spili fyrst í einhvers konar undankeppni, áður en stóru þjóðirnar komi inn í Evrópukeppni og heimsmeistaramót en það má alls ekki gerast. Og þar sem litlu þjóðirnar eru í meirihluta held ég að fyrirkomulagið haldist óbreytt en raddir um breytingar verða þó háværari með hverju árinu. Áhuginn er mestur á EM og HM ­ stóru þjóðirnar hugsa um stórleikina; Þýskaland, England, Frakkland, Spánn og Ítalía vilja helst bara spila innbyrðis. Það er því ekki sjálfgefið að við höfum alltaf svo stórt hlutfall af okkur tekjum af sjónvarpi, ef þetta breyttist, því lítil áhugi er á að kaupa sjónvarpsréttindi vegna leikja milli lítilla þjóða. Við verðum að vera meðvitaðir um það. Þess vegna berjumst við á hverju einasta ári hjá KSÍ við að láta hlutina ganga upp, við gerum áætlanir og verðum að vera harðir að láta þær standast. Ef ekki á að reka sambandið með tapi verðum við að gjöra svo vel að kunna að segja nei! Til dæmis þurfum við stundum að neita leikjum sem bjóðast." Eggert segir hins vegar að búið sé að þenja starfsemi KSÍ svo mikið út, mörg landslið séu í gangi og umfangið í heild mikið, að ekkert megi út af bregða. "Við gætum lent í tapi og jafnvel slæmu tapi sum ár, og það er ekkert gaman að vinna í slíku umhverfi til lengdar." Traustur fjárhagur mikilvægur "Það er mikilvægt fyrir KSÍ að fjárhagsleg uppbygging þess sé ávallt traust, það er eitthvað sem ég má ekki sjá fyrir mér að við lendum í fjárhagsvandræðum og þess vegna er alltaf númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur að passa uppá að þær tekjur sem við öflum dugi fyrir útgjöldum á hverjum tíma. Þess vegna verðum við að reyna að auka tekjurnar í framtíðinni um leið og umfang sambandsins eykst enn og draumur minn er reyndar sá að sambandið eigi um það bil helming af ársveltu í varasjóði, þannig að getum alltaf haldið okkar striki, starfað af krafti, þó fjárhagslega geti gengið upp og ofan eins og í fótboltanum. Annað stórmál er að halda áfram uppbyggingunni, hæfileikamótuninni, að skapa unga fólkinu, körlum og konum, næg verkefni. Það er mjög mikilvægt með árangur A-landsliðanna í framtíðinni í huga. Við þurfum líka að huga vel að fræðslumálum sambandsins, það er mjög mikilvægt að við fylgjumst vel með þróuninni í félögunum okkar, þar sem þróunin hefur einmitt verið mjög jákvæð, til dæmis varðandi þjálfun yngra fólksins, en nánast allir þjálfarar eru nú með að minnsta kosti lágmarksmenntun. Það er gott og við eigum að gera kröfur um þetta, því það er í yngri flokkunum sem efniviðurinn mótast og það skiptir verulegu máli uppá framhaldið hvernig staðið er að málum í byrjun." Spennandi framtíð Eggert segir af nógu að taka í framtíðinni, verkefni skorti ekki og margt spennandi sé vissulega að gerast. "Til dæmis stofnun hlutafélaga þar sem KR og Fram riðu á vaðið. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig þau mál þróast. Ég tel að þróunin hljóti að taka nokkurn tíma; að menn verði að fara fetið í þessum efnum, en ef þetta skapar meiri peninga fyrir íslenska knattspyrnu er það af hinu góðu því hreyfingin þarf sífellt meiri peninga. "Það er ánægjulegt að ákvörðun skuli hafa verið tekin um byggingu knattspyrnuhúss í Keflavík og ég vil óska Keflvíkingum til hamingju með að vera fyrstir til að taka þetta stóra skref inn í framtíðina. En ég tel alveg ljóst, og treysti því, að knattspyrnuhús muni rísa í Reykavík innan tveggja ára ­ tel mig hafa vissu fyrir því frá pólitískum meirihluta í Reykjavík að svo verði. Mér finnst málið reyndar hafa dregist of mikið og við hjá knattspyrnusambandinu erum orðnir langeygir eftir lokaákvörðun um að húsið verði byggt ­ okkur finnst málið hafa verið lengi til umfjöllunar í nefndum ­ en ég trúi ekki öðru en lokaákvörðun verði tekin í sumar. Síðan tel ég óhjákvæmilegt að knattspyrnuhús rísi á Eyjafjarðarsvæðinu. Þar er rík knattspyrnuhefð og ef svæðið á ekki að sitja algerlega eftir verður að rísa þar hús og það tiltölulega fljótt. Okkur knattspyrnumönnum finnst til dæmis synd að hafa ekki lið í Landssímadeildinni frá Akureyri, höfuðstað Norðurlands. Ástandið á Akureyri sýnir vel þróunina þar varðandi æfingar og þjálfun knattspyrnumanna yfir vetrartímann. Það verður allt annað líf fyrir knattspyrnumenn að geta æft innanhúss yfir vetrartímann, spilað deildarbikarinn að hluta til innanhúss yfir vetrartímann í skjóli fyrir veðri og vindum og þó ég telji að ekkert kraftaverk gerist um leið og þessi hús komi þá mun það samt skila verulegum árangri hægt og rólega." Íslendingum er ekki öllum vel við íþróttakeppni frekar en öðrum þjóðum, einsog stundum kemur fram og sumir hallmæla því á stundum hversu mikið fjármagn rennur til íþróttamála. Hvernig telur Eggert að réttlæta eigi það að hið opinbera eigi að styrkja starfsemi íþróttahreyfingarinnar jafn mikið og hann hefur verið að tala um? "Fyrst og fremst vegna æskulýðs- og unglingastarfsins. Auðvitað tvinnast það svo saman við keppnina en þessu er líka hægt að svara á þann hátt að það kemur fullt af peningum inn í þjóðfélagið vegna knattspyrnunnar, til dæmis vegna leiksins við Frakka í fyrra. Og svo er auðvitað erfitt að finna betri landkynningu en knattspyrnu þegar íslenska landsliðinu gengur vel og það er áberandi í löndum þar sem viðskiptahagsmunir okkar eru miklir, eins og á Frakklandi og Spáni. Knattspyrnan er svo vinsæl í þessum löndum að þetta er besta landkynning sem hugsast getur. Það er engin spurning." Fótboltinn mitt áhugasvið

Brátt verða liðin tíu ár frá því Eggert varð formaður í KSÍ. Stefnir hann að því að sitja lengi áfram í því embætti? "Já, eins og er hef ég nægan kraft og alltaf jafn gaman af þessu. Ég hef verið að byggja upp eigið fyrirtæki og þurft að vinna mikið, oft myrkranna á milli, en þetta er vinna sem ég hef mjög gaman af. Tíu áru eru náttúrlega talsverður tími en eins og staðan er í dag hef ég ekki hugleitt að hætta. Að því kemur fyrr eða síðar að ég velti því fyrir mér en ég tel mig enn hafa fullt að gera á þessum vettvangi, ég fæ mikið út úr því og það gefur mér meira að segja mikla orku sem nýtist mér í hinu starfinu." Eggert hefur gagnrýnt forystu íslensku íþróttahreyfingarinnar nokkuð fyrir styrki úr afreksmannasjóði eins og áður kom fram. Kæmi til greina að reyna að ná völdum í ÍSÍ til að ná breytingum fram, ef með þyrfti? Við þessari spurningu er svarið alveg skýrt: "Nei, ég hef engan metnað á því sviði og hef ekki hugleitt það, enda er fótboltinn mitt áhugasvið," segir formaður KSÍ. "Ég hef hins vegar talið það skyldu mína að taka þátt í starfinu innan hreyfingarinnar, tók til dæmis virkan þátt í sameiningarmálum Ólympíunefndarinnar og Íþróttasambandsins og kynntist þá innviðum hreyfingarinnar vel. Ég var ánægður með að það mál endaði farsællega því alveg síðan ég kom inn í KSÍ og fór á fyrsta fundinn hjá ÍSÍ sá ég að það var tímaskekkja að hafa hreyfinguna ekki sameinaða í einu batteríi. Íþróttasambandið er líka í ágætum höndum Ellerts B. Schram, forseta þess. Og þó menn séu ekki alltaf sammála um hlutina þá leysa þeir málin á farsælan hátt." Svo læðist bros fram á varir Eggerts áður en hann lýkur svarinu: "Ef ekki inni á skrifstofum þá gerum við það bara á fótboltavellinum." Morgunblaðið/Skapti EGGERT Magnússon er önnum kafinn maður. Hér talar hann heim til Íslands frá Barcelona. Myndin er tekin í anddyri hótels sem kennt er við Spánarkonung og málverk af Jóhanni Karli er í bakgrunni.EGGERT með David Dein (t.v.), varaformanni enska knattspyrnuliðsins Arsenal. Þeir félagar sitja saman í Evrópumótanefnd UEFA.