NISSAN setti á markað í byrjun vikunnar nýja gerð jeppa. Xterra heitir hann og er mikilvægur hlekkur í markaðssókn Nissan í Bandaríkjunum þar sem markaðshlutdeild fyrirtækisins hefur fallið úr 5,2% 1995 í 3,6%. Xterra er framleiddur í verksmiðju Nissan í Smyrna í Tennessee sem lengi hefur verið talin ein skilvirkasta bílaverksmiðja heims.

Ingvar Helgason íhugar

að flytja inn Xterra

NISSAN setti á markað í byrjun vikunnar nýja gerð jeppa. Xterra heitir hann og er mikilvægur hlekkur í markaðssókn Nissan í Bandaríkjunum þar sem markaðshlutdeild fyrirtækisins hefur fallið úr 5,2% 1995 í 3,6%.

Xterra er framleiddur í verksmiðju Nissan í Smyrna í Tennessee sem lengi hefur verið talin ein skilvirkasta bílaverksmiðja heims. Talsmenn Nissan segja að það sem marki einna mestu tíðindin við jeppann er að lágur framleiðslukostnaður endurspeglist í lágu bílverði.

Xterra er svipaður að stærð og Jeep Cherokee og verður heldur ódýrari en t.d. Toyota RAV4 og Honda CR-V þar vestra. Ingvar Helgason hf., umboðsaðili Nissan, skoðar nú hvort hagkvæmt geti orðið að flytja bílinn inn til landsins en ekkert hefur verið ákveðið þar um.

Xterra er byggður á grind pallbílsins Frontier og hefur sömu afl- og drifrás. Grunngerðin með fjögurra strokka vél og aðeins framhjóladrifi kostar nálægt 17.500 dollurum en með fjórhjóladrifi og sömu 3,3 lítra V6 vélinni og í Nissan Pathfinder jeppanum verður verðið innan við 20.000 dollara, sem er nálægt 1,4 milljónum kr.

Nissan ráðgerir að smíða 65 þúsund Xterra á ári og markhópurinn verður 32 ára, 65% þeirra karlmenn og helmingurinn í vígðri sambúð með um 45.000 dollara í árstekjur.

XTERRA verður hugsanlega í boði hérlendis.