GESTIR kaffihússins Í túninu heima í Mosfellsbæ hafa síðustu vikur keppt í félagsvist og réðust úrslitin nú síðastliðið fimmtudagskvöld. Sigurvegari var Ingi Bjarmar Guðmundsson og hlaut hann að launum ferð til London. Að sögn Dagnýjar Davíðsdóttur, eiganda kaffihússins, var spilað á fimmtudagskvöldum og var úrslitakvöldið það sjöunda í röðinni.
Keppt í félagsvist á kaffihúsi

Heppni í spilum og ástum

GESTIR kaffihússins Í túninu heima í Mosfellsbæ hafa síðustu vikur keppt í félagsvist og réðust úrslitin nú síðastliðið fimmtudagskvöld. Sigurvegari var Ingi Bjarmar Guðmundsson og hlaut hann að launum ferð til London.

Að sögn Dagnýjar Davíðsdóttur, eiganda kaffihússins, var spilað á fimmtudagskvöldum og var úrslitakvöldið það sjöunda í röðinni. "Hugmyndin kom frá einum viðskiptavina staðarins og okkur fannst hún sniðug til þess að laða að nýtt fólk," sagði Dagný.

Keppendur voru sextán talsins frá fjórtán ára og eldri. Ekki er hægt að segja að heppni í spilum og ástum hafi ekki farið saman að þessu sinni því Ingi Bjarmar fékk 1.156 stig og næst kom eiginkona hans með 1.098 stig, sonur þeirra Eyþór varð þriðji.

Aðspurð sagðist Dagný vonast til þess að hægt verði að endurtaka mót af þessu tagi á kaffihúsinu.

Morgunblaðið/Jón Svavarsson SIGURVEGARINN Ingi Bjarmar Guðmundsson tekur við verðlaunum úr hendi Dagnýjar Davíðsdóttur.

HÉR eru þau Valgerður Sigurðardóttir, sem hlaut flest stig á úrslitakvöldinu, og Eyþór Ingason, sem fékk skammarverðlaun kvöldsins. Valgerður náði 181 stigi en Eyþór 135, sem sýnir að keppnin hefur verið jöfn og hörð.

JÓHANN Grétar Sigurðsson, Frímann Lúðvíksson, Brynhildur Bjarnadóttir og Elín Þorvaldsdóttir gera hér upp slagina.