Pabbi, varst þú til í gamla daga? Það er einhvers konar fyrirspurnatími á heimili mínu og fimm ára dóttir sem semur þessa spurningu. Faðirinn kemur sér fimlega undan því að svara spurningunni beint, og þykist stoltur af.
Gamlir dagar eða nýir?

Tími er afstætt fyrirbæri. Hvað er löng stund og hvað stutt? Er langt síðan í gær? Hvað er í gamla daga? Er gamaldags að flugfreyja gangi um reykjandi í flugvél eða ef til vill nútímalegt?

Pabbi, varst þú til í gamla daga? Það er einhvers konar fyrirspurnatími á heimili mínu og fimm ára dóttir sem semur þessa spurningu.

Faðirinn kemur sér fimlega undan því að svara spurningunni beint, og þykist stoltur af. Leiðir vangavelturnar inn á aðrar brautir en spyr nokkru síðar, lymskulega: "Hvað finnst þér hafa verið í gamla daga?"

Og þá stóð ekki á svarinu: Þegar þú og mamma voruð lítil!

"Við? Bíddu aðeins hæg; finnst þér ekki að í gamla daga hafi verið fyrir rosalega löngu?" spyr pabbinn aftur.

Jú, svarar þá barnið (og pistilshöfundur var nálægt því að brotna saman. Veltir því fyrir sér hvort það sé gráa hárið sem veldur þessum hugrenningum barnsins. Eða hrukkur? Jafnvel göngulagið)?

Nei, annars. Bara þegar þú og Toni frændi voruð litlir, ekki mamma, segir stúlkan svo. Hefur líklega fengið heldur illilegt augnaráð frá móðurinni, sem er ári yngri en sá sem þetta skrifar.

Tími er fjarskalega afstætt fyrirbæri. Hvað er löng stund og hvað stutt? Er langt síðan í gær? Hvað er í gamla daga ? Við áhangendur enska knattspyrnufélagsins Liverpool þekkjum þetta; mér finnst ekki nema örstutt síðan ég fagnaði því með látum þegar liðið mitt sigraði í Evrópukeppni meistaraliða í fyrsta skipti. Það var árið 1977. Hin síðari ár hef ég nefnilega rekið mig á að sumir æstir áhangendur félagsins voru ekki fæddir þegar þetta var, og vita ekki einu sinni hverjir voru í liðinu þetta sögulega maíkvöld suðrí Róm fyrir tuttugu og tveimur árum! Eru ekki að velta sér of mikið upp úr því sem gerðist í gamla daga . Vita jafnvel ekki að fyrsti Evrópuleikur félagsins var gegn KR í Reykjavík 17. ágúst 1964...

Tími er sannarlega afstæður. Og ég komst að því um daginn að Í gamla daga er meira að segja sums staðar ennþá. Alveg satt! Halda til dæmis ekki Vesturlandabúar, flestir að minnsta kosti, að alls staðar sé bannað að reykja um borð í flugvélum? Slíkar reglur, eins og Flugleiðir og fleiri góð félög hafa komið sér upp, þykja hins vegar ekki alls staðar góð latína. Að minnsta kosti ekki á Balkanskaga. Ég get ýjað að því ­ þó ég kveði ekki fastar að orði ­ að hjá makedóníska flugfélaginu Avioimpex sé í gamla daga enn í fullu gildi hvað reykingar varðar. Jafnvel eitthvert tímabil enn lengra í fortíðinni en í gamla daga . Nema félagið sé svona langt á undan samtíðinni; að forráðamenn annarra félaga eigi eftir að átta sig á að það sé framtíðin að reykja um borð í flugvélum og helst sem mest.

Við vorum sem sagt á leið til Skopje, við Sverrir ljósmyndari, á dögunum. Venjan er sú að vélar eru varla komnar á loft fyrr en flugfreyjur eru farnar að stika um ganga með drykki eða annan kost, en hjá Avioimpex var þessu nokkuð öðruvísi farið. Rússneska YAK 42- vélin var reyndar varla farin á loft þegar flugfreyjurnar tvær frammí ­ hjá okkur, fína fólkinu á Business Class ­ voru farnar að athafna sig. En sú athöfn fólst í því að búa sig undir komandi átök; þær sátu sem sagt sem fastast frammi í eldhúsi og kveiktu sér í sígarettu! Báðar tvær. Og voru svo sem ekkert að fela það.

Fólk sem við hittum í Skopje, höfuðborg Makedóníu, hafði svipaða sögu að segja af flugferð með Avioimpex; öllu verri raunar. Það var ekki svo "heppið" að vera á Business Class, enginn þeirra reykti en allir í sætunum þar í kringum stunduðu þá iðju af miklum móð, svo mjög reyndar að þar kom að kunningjafólki okkar fannst nóg um. Ákvað því að hringja þar til gerðri bjöllu, til að flugfreyjan kæmi, og biðja um aðstoð: hvort hún gæti ekki vinsamlega beðið nágrannana að draga örlítið úr reykingunum ­ þau væru hreinlega að kafna. En spurningin komst aldrei lengra en fram á varirnar. Þegar flugfreyjan mætti til aðstoðar var hún nefnilega með sígarettu! Fólk á Balkanskaga reykir hræðilega mikið og heimamenn í Makedóníu sem ég ræddi reykingar við gerðu lítið úr læknum og öðru liði sem reynir að telja þeim trú um að þessi vani sé hættulegur. "Við lifum stutt, en hratt," sagði einn og brosti. Krakkar byrja að reykja svona 14­15 ára, yfirleitt, og það þykir mjög eðlilegt, sagði hann. Sinn er sem sagt siður í landi hverju. Ég bölsótaðist yfir reykingum, hér á þessum vettvangi, einhvern snemma árs, og hlaut auðvitað bágt fyrir hjá sumum. Fagnaði við það tækifæri orðum forseta Íslands á ráðstefnu Tannlæknafélags Íslands, þar sem hann lýsti undrun á þeim friði sem tóbakið, sá mikli sjúkdómavaldur, fengi til að vinna skemmdarverk sín í samfélaginu. Fagnaði jafnframt þeirri samlíkingu sem forsetinn dró upp í ávarpi sínu ­ sem mörgum fannst ósmekkleg; að samfélagið brygðist vitaskuld harkalega við ef tvær farþegaþotur frá Flugleiðum, fullskipaðar fólki, færust á tæpu ári á leiðinni Reykjavík-Kaupmannahöfn. En þegar dauða ámóta margra Íslendinga má árlega rekja til reykinga er eins og mörgum finnist það sjálfsagt mál. Mér flaug þetta aftur í hug dagana sem ég dvaldi á Balkanskaganum. Fjöldi manns hefur látið lífið í hernaðarbrölti þar síðustu ár og heimsbyggðinni blöskrar vitaskuld. En dauða hversu margra á svæðinu skyldi mega rekja árlega til reykinga? Hvað ætli sá hópur fyllti margar flugvélar?

VIÐHORF Eftir Skapta Hallgrímsson