Opið klukkan 14 til 18. Sýningin stendur til 30. maí. PÉTUR Halldórsson er líklega þekktastur fyrir olíumálverk sín þar sem hann túlkar á stórum fleti flóknar hugmyndir með grófum en markvissum strokum,
Rifrildi minnisins MYNDLIST Listasafn Árnesinga MÁLVERK PÉTUR HALLDÓRSSON Opið klukkan 14 til 18. Sýningin stendur til 30. maí.

PÉTUR Halldórsson er líklega þekktastur fyrir olíumálverk sín þar sem hann túlkar á stórum fleti flóknar hugmyndir með grófum en markvissum strokum, en undanfarin ár hefur hann unnið að því að blanda saman ýmsum efnum í myndum sínum svo úr verður eitthvað sem segja má að falli mitt á milli málverks og klippimyndar eða collage . Á sýningu sinni í Listasafni Árnesinga á Selfossi sýnir hann átján slíkar myndir sem eru að vísu smærri en maður á að venjast frá hans hendi en sóma sér þó vel í salnum. Í myndunum má sjá rifrildi af ýmiss konar pappír, stundum áprentuðum með auglýsingaefni, trúarlegum indverskum myndum eða óræðum, moskulegum fréttamyndum. Yfir þetta allt og í kring hefur Pétur síðan teiknað og málað með farva og lími svo úr verður margra laga málverk þar sem fundið efni og frumverk málarans rennur saman í eitt. Í teikningum Péturs kennir ýmissa grasa en þó eru svipmyndir frá Reykjavík nokkuð áberandi og þar má greina þekktar byggingar á borð við Perluna og Hallgrímskirkju innan um annað. Vinna Péturs með auglýsingar hefur nokkur áhrif á gerð þessara mynda, ekki síst þegar kemur að því áprentaða efni sem hann nýtir í myndirnar. Þó er það sem áður fyrst og fremst formbyggingin og tilfinning Péturs fyrir efni og áferð sem vekur athygli. Hann hefur greinilega afar fágaða tilfinningu fyrir bæði efni og formi en ögrar sífellt í myndunum bæði sjálfum sér og áhorfendum með því að beita grófu efni og groddalegum pensilstorkum, líkt og hann vilji kanna þanþol formsins og jafnvel ganga af því dauðu. Hver einasta sýning Péturs Halldórssonar er átakasýning og þótt myndirnar í Listasafni Árnesinga séu ekki stórar eru átökin þar hörð líkt og áður. SAFNSÝNING ÝMSIR LISTAMENN Í EFRI sölum Listasafns Árnesinga ­ svokölluðum Bjarnveigar- og Halldórssal ­ hefur verið sett upp sýning þar sem konur og karlar úr héraðsnefnd hafa valið verk úr eigin eigu eða annarra til sýnis og skrifað með sögu verksins nokkra greinargerð um valið. Á sýningunni kennir að vonum margra grasa. Þar er að finna málverk eftir ýmsa þekkta listamenn en einnig gömul hannyrðaverk, myndir eftir börn og ýmislegt fleira. Þarna má sjá merkilega mynd eftir Kjarval frá fjórða áratugnum, "Konuna með hattinn" mynd eftir Finn Jónsson, fallega mynd af rjúpum eftir Eggert Guðmundsson og þrykk af lynghrauni eftir Jón Reykdal. Þá er á sýningunni ansi merkileg mynd eftir Erró sem sögð er vera frá árinu 1950 og sýnir fugl á bláum grunni, dreginn einföldum línum. Grétar Guðmundsson ­ Tarnús ­ á líka stórt verk frá árinu 1970 á sýningunni þar sem hann málar hesta í samspili við kjarvalskt hraunlandslag. Að þessum þekktu listamönnum ólöstuðum er þó eitt skemmtilegasta verkið á sýningunni myndin "Klakahöllin", lítil olíumynd í hvítum og bláum tónum. Þessi mynd mun hafa verið keypt af manni sem dvaldist á Kleppsspítala fyrir allnokkrum árum og þekkja eigendur myndarinnar hann ekki undir öðru nafni en Bóbó. Sýning héraðsnefndarinnar er vel til fundin og sýnir að þræðir listarinnar liggja víða og merkasta listasafnið er það sem er í vörslu heimilanna vítt um landið. Jón Proppé EIN mynda Péturs Halldórssonar.