Viðeyjarferjan hf. hefur sumaráætlun í dag. Ferjan hefur siglt milli Reykjavíkur og Viðeyjar frá því fyrir 1970 en Eysteinn Yngvason hefur rekið ferjuna frá árinu 1993. Hann var spurður hvort fyrirhugaðar væru einhverjar breytingar á ferðum ferjunnar í sumar? "Áætlunin er eins og hún var á síðasta ári - laugardaga og sunnudaga siglir hún á heilu tímunum, fyrsta ferð klukkan 13.
Sumaráætlun Viðeyjarferju Engeyjarsiglingar í sumar

Viðeyjarferjan hf. hefur sumaráætlun í dag. Ferjan hefur siglt milli Reykjavíkur og Viðeyjar frá því fyrir 1970 en Eysteinn Yngvason hefur rekið ferjuna frá árinu 1993. Hann var spurður hvort fyrirhugaðar væru einhverjar breytingar á ferðum ferjunnar í sumar?

"Áætlunin er eins og hún var á síðasta ári - laugardaga og sunnudaga siglir hún á heilu tímunum, fyrsta ferð klukkan 13.00 til Viðeyjar en síðasta ferð til eyjarinnar er klukkan 17.00. Einnig eru kvöldferðir þessa daga og fimmtudaga og föstudaga. Við höldum uppi þessari þjónustu samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg. En hins vegar erum við eigendur Viðeyjarferjunnar með aðrar siglingar undir nafninu Siglingamiðstöðin hf. og bjóðum þar upp á stangveiðiferðir fyrir hópa, 5 til 100 manns, síðan frá byrjun júní fram í miðjan ágúst út í Lundey á Kollafirði fyrir þá sem vilja skoða lundann, þær taka um tvo tíma. Í þeim ferðum er viðkoma í Viðey í bakaleiðinni. Loks erum við að hefja í júnímánuði reglulegar ferðir út í Engey."

­ Hvað er að sjá í Engey?

"Það er ekki bryggja í Engey svo við erum að taka í notkun sérstakan bát sem er útbúinn til þess að taka land þar sem er hafnleysa. Þessar ferðir út í Engey verða allar farnar í fylgd fararstjóra. Það sem hægt er að skoða í Engey er m.a. minjar frá hernámsárunum, neðanjarðarbyrgi og húsarústir, fallbyssustæði og fleira. Við höfum farið með hópa út í Engey til þess að skoða þetta og menn haft mikið gaman af. Geysi fjölbreytt fuglalíf er í Engey."

­ Eru svona ferðir mikið sóttar?

"Já, þessar ferðir sem við höfum farið út í Engey hafa vakið athygli og áhuga manna og ánægju þeirra sem farið hafa í þær. Viðeyjarferðirnar eru mikið sóttar, það fara út í Viðey um 17 til 20 þúsund manns á ári."

­ Er mikið um að vera í Viðey á sumrin?

"Já, þar er ýmislegt í boði, þar er rekin hestaleiga og reiðhjólaleiga og það hefur verið boðið upp á staðarskoðun á þriðjudagskvöldum, skálinn í Viðey, Viðeyjarnaust, er mikið sóttur m.a. af skólakrökkum á vorin, þar er stór og mikil grillaðstaða, þetta er vinsælt til fjölskylduferða, starfsmannaferða, leikskólaferða og fleira. Einnig koma hópar í félagsheimili Viðeyingafélagsins í gamla vatnsgeyminum. Þá hefur fólk sótt þó nokkuð í myndasýningu sem verið hefur í gamla skólahúsinu. Fólk hefur einnig gert sér ferð til að skoða listaverk Richard Serra, sem er út í eyjunni. Loks fara sumir bara til að njóta útivistar, borða nesti og þess háttar."

­ Er fólki heimilt að tjalda í Viðey?

"Já, fæstir vita að það er heimilt. En það eru tjaldstæði á svæðinu við Viðeyjarnaust þar sem fólk getur tjaldað. Einnig hafa sumir fengið að tjalda annars staðar í samráði við ráðsmann Viðeyjar."

­ Er yfirleitt sjóveður til Viðeyjarsiglinga?

"Það er helst að það sé ófært einhverja daga á ári að vetrartímanum. Við siglum með hópa til Viðeyjar allt árið og falla sjaldan úr ferðir."

­ Flytjið þið oft út fólk í brúðkaup og aðrar athafnir í Viðvey?

"Já, bæði í brúðkaup, fermingar og messur. Margar athafnir eru haldnar í Viðey á ári hverju. Meðan áætlunarferðir standa yfir er boðið upp á kaffiveitingar í Viðeyjarstofu og nýta sér það margir. Svo hafa hópar fengið þjónustu frá Viðeyjarstofu í Viðeyjarnausti."

­ Er ágóði af þessari starfsemi allri?

"Já, þetta ber sig, það er ekki spurning."

­ Er vinsælt að sigla í lundaskoðun út á Kollafjörð?

"Ferðamenn hafa sótt mikið í þær ferðir. Það er talið að um fjögur þúsund lundapör séu í Lundey, fólki hefur komið sú tala óvart, það heldur að lundinn sé ekki svona algengur hér á Sundunum, heldur að hann sé helst í Vestmannaeyjum. Þetta heyrir maður oft á tali fólks þegar við rennum upp að Lundey. Undanfarin sumur höfum við farið þrjár ferðir í viku, en það hefur ekki dugað svo þetta sumarið verðum við með daglegar ferðir út að Lundey. Loks má geta þess að við gerum líka út skemmtiskipið Árnes. Það liggur í Reykjavíkurhöfn og við förum með hópa á því um Sundin og út á Faxaflóa allt árið um kring, þótt vissulega séu flestar ferðirnar farnar á sumrin. Við förum um hverja helgi með um 200 manns í skemmtisiglingar. Þessa þjónustu hafa starfsmannafélög gjarnan nýtt sér, svo og erlendir ferðahópar."Eysteinn Yngvason er fæddur 8. maí 1955 í Reykjavík. Hann lauk prófi frá Vélskóla Íslands árið 1978. Hann hefur starfað sem útgerðarmaður lengst af og rekur nú Viðeyjarferjuna, en það hefur hann gert frá 1993. Hann var með rekstur Grímseyjarferjunnar Sæfara frá 1993 til 1996. Hann er kvæntur Bergljótu Viktorsdóttur og eiga þau þrjá syni.Um 20 þúsund manns á áriEysteinn Yngvason